Miðað við sviðsmynd er ekki mælt með langri stöðu í RIKS21 samhliða stuttri í RIKB22 til næstu fjögurra mánaða nema sterk rök séu fyrir yfir 1% hækkun vísitölu neysluverðs eða yfir 10 punkta hækkun verðbólguálagsins.

Að meðaltali eru helstu greiningaraðilar að spá tæplega 0,5% hækkun vísitölu neysluverðs í júní eða að tólf mánaða hækkun verði 1,9%. Næstu þrjá mánuði á eftir telja þeir að vísitalan hækki um nærri 0,6% og að tólf mánaða verðbólga verði 2,2% í september sem er sama ársbreyting og kom fram í þjóðhagsspá Hagstofunnar síðastliðinn maí. Nýjasta spá Seðlabankans fyrir næstu fjóra mánuði er samhljóma spám greiningaraðilanna eða að vísitalan hækki um nærri 1%.

Fjallað var um sögulegan árangur fjárfestinga sem fylgja verðbólguspám í febrúar árið 2012 og apríl 2014. Líkt og lesandi þekkir þarf að huga að öllum mögulegum niðurstöðum fyrir stöðutöku. Sérstaklega hvort hagnaður vex hægar eða hraðar en tap.

Samkvæmt KODIAK Excel var dagslokakrafa verðtryggða ríkisskuldabréfaflokksins RIKS 21 0414 (RIKS21) síðastliðinn þriðjudag rúmlega 2,8% og óverðtryggða flokksins RIKB 22 1026 (RIKB22) 6,3%. Fyrir vikið var verðbólguálag til nærri 5 ára um 3,4%.

Ef fjárfestir væntir meiri verðbólgu á næstu fjórum mánuðum en greiningaraðilar spá gæti hann tekið langa stöðu til fjögurra mánaða í RIKS21 en samtímis selt framvirkt í RIKB22. Eftirfarandi mynd úr KODIAK Excel sýnir hagnað og tap stöðunnar miðað við breytingar í vísitölu neysluverðs og álags milli RIKB22 og RIKS21.

Líkt og lesandi sér er ekki um ákjósanlega stöðu að ræða þar sem væntigildi hagnaðar er neikvætt. Með öðrum orðum sýnir myndin að hagnaður er oftar og meira neikvæður en hann er jákvæður. Til dæmis, ef álagið milli flokkanna verður óbreytt í október verður vísitala neysluverðs að hafa hækkað um 2% til að ávöxtun stöðunnar verði yfir 1%. 2% hækkun á tímabilinu þýðir að árstaktur verðbólgu verður 3,2% sem er yfir spám.

Ef vísitalan hækkar í takt við spár eða um 1% á þessum fjórum mánuðum þarf álagið að hækka um 20 punkta (pkt.) til að ávöxtunin fari yfir 1%.

Af þeim 169 möguleikum sem eru skoðaðir í þessu dæmi er tap í 96 þeirra eða að meðaltali -4,6%. Í hinum 73 tilvikunum er hagnaður að meðaltali 3,5%. Fyrir vikið þarf að hafa traust rök fyrir háum líkum á að verðbólga verði að minnsta kosti 1% eða að álagið hækki um 10 pkt.

Hagsmunaárekstrar: höfundur er með langa stöðu í RIKS 21 0414