Á vorfundi Landsnets 5. apríl sl. gerði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lítið úr því að lögð hefði verið áhersla á laxagöngur og ferðaþjónustu á Íslandi við mat á endurnýjanlegum virkjunarkostum í niðurstöðum verkefnastjórnar Rammaáætlunar.

Ráðherra taldi að ekki hefði verið horft til samfélagslegra og efnahagslegra áhrifa í þessu mati – líkt og náttúruverðmæti, ferðaþjónusta og veiðihlunnindi tengist ekki efnahagslegum áhrifum virkjana. Þá vill ráðherrann að verkefnastjórnin taki tillit til samspils loftslagsmála og endurnýjanlegrar orku.

Ekki endurnýjanleg orka

Því er til að svara að ráðherrann gengur út frá rangri grunnforsendu í málflutningi sínum. Orkuframleiðsla sem skaðar og eyðileggur fiskistofna heitir ekki endurnýjanleg orka skv. alþjóðlegum viðmiðunum og á þess vegna ekkert erindi í umræðu um alþjóðlegt samspil loftslagsmála. Auk þess hvílir engin kvöð á okkur Íslendingum að hlaupa til og hraðnýta takmarkaðar orkulindir landsins fyrir kolefnissóða í útlöndum. Þar sem ráðherra heldur því fram að ekki sé horft nægilega til efnahagslegra áhrifa er rétt að benda á að ekki verður séð að verkefnastjórnin eða fagnefndir hafi lagt nokkurt efnahagslegt mat á stærstu villtu sjálfbæru laxa- og sjóbirtingsstofna landsins, svo dæmi sé tekið.

Í niðurstöðum verkefnastjórnar koma einungis fram sjónarmið líffræðinga. Þar eru engir hagfræðingar kvaddir til eða sérfræðingar á sviði rekstrar eða eignamats vatns- og landhlunninda. Því mætti ætla að laxar og sjóbirtingar væru umsvifalaust dæmdir í ruslflokk þegar talið berst að efnahagslegum áhrifum! Við hjá NASF, Verndarsjóði villtra laxastofna, viljum því taka undir með ráðherra að þessu leyti og skora á Ragnheiði Elínu að koma með okkur í samstarfsverkefni þar sem gerður er hag- og viðskiptafræðilegur samanburður á framtíðarverðmætum villtra fiskistofna, ferðaþjónustu og tengdra hlunninda annars vegar og orkuframleiðslu hins vegar.

Hrein náttúra

Verðmæti fiskstofna og ferðaþjónustu fara ört vaxandi á meðan orkuverð hefur lækkað hratt. Íslenskur efnahagur hvílir nú að mestu leyti á nýtingu náttúrunnar og miklu skiptir að nýtingin sé sjálfbær. Það á við um sjávarútveg, landbúnað og orkuframleiðslu, og ekki síst ferðaþjónustu. Hreinleiki náttúru landsins er verðmætasta auðlind Íslands. Erlendir neytendur borga fyrir þá fullvissu að íslenskar vörur séu náttúruleg og vistvæn afurð. Ferðamenn sem hingað koma borga fyrir að íslensk náttúra sé hrein og óspillt og þess vegna þess virði að skoða hana og ferðast um landið. Því er nú svo komið að arðbærasta náttúruauðlindin er náttúran sjálf. Ósnortin. Þetta þýðir á markaðsmáli að ímynd Íslands á heimsvísu einkennist af hreinleika og sjálfbærni. Falli blettur á þá ásýnd verður erfitt að má hann brott.

Höfundur er formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF).