*

mánudagur, 22. apríl 2019
Yngvi Harðarson
12. ágúst 2018 12:31

Leiðandi hagvísar og hagvaxtarhorfur 2018

Efnahagshorfur fyrir árið virðast þokkalegar þegar litið er til hagvaxtar og atvinnustigs. Talsvert hefur þó hægt á vexti frá árinu 2017.

Aðsend mynd

Leiðandi hagvísir Analytica hefur nú verið birtur frá í apríl 2013 eða í rúm fimm ár. Hagvísirinn er vísitala sem ætlað er að gefa vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Hlutverk vísitölunnar er að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Vísitalan er reiknuð mánaðarlega á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD.

Leiðandi hagvísir Analytica er svokallaður samsettur hagvísir (e. composite leading indicator). Það felur í sér að hann samanstendur af nokkrum hagvísum (undirþáttum) sem hver um sig leiðir almenn efnahagsumsvif í tíma en með ófullkomnari hætti en samsettur hagvísir. Hugmyndin sem liggur að baki hagvísinum er að framleiðsla hefur aðdraganda og að vísitalan sé reiknuð á grunni þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga. Sá mælikvarði á almenn efnahagsumsvif sem hagvísinum er ætlað að leiða er verg landsframleiðsla. Að jafnaði er tímaleiðnin um 6-9 mánuðir en hún getur verið bæði meiri og minni.

Undirþættir leiðandi hagvísis Analytica eru sex. Um er að ræða vísitölu aflamagns, debetkortaveltu að raungildi, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, vöruinnflutning að raungildi og væntingavísitölu Gallup. Eru þessir undirþættir hinir sömu og gjarnan eru notaðir erlendis eða náskyldir ættingjar en erlendis eru oft notaðir fleiri undirþættir. Þá má nefna að sú hlutabréfavísitala sem gjarnan er notuð er innlend vísitala en fjármálahrunið hérlendis árið 2008 framkallaði ósamfellu í þróun innlendra hlutabréfavísitalna. Athuganir Analytica benda hins vegar til að heimsvísitalan leiði innlendu vísitöluna þó með ófullkomnum hætti sé. Sá tími sem viðkomandi undirþættir leiða landsframleiðslu er mismunandi og getur verið breytilegur en að jafnaði þá er minnst leiðni í tíma fyrir fjölda ferðamanna.

Framsetning hagvísisins er með þeim hætti að hann er birtur sem frávik frá langtímaleitni. Langtímaleitni er jafnan til hækkunar í takt við hagvöxt. Þá er eytt árstíðasveiflu í undirþáttum og tilviljunarkennd skammtímaþróun síuð burt með svokallaðri jöfnun. Í þessum atriðum er stuðst við verklag OECD. Hagvísirinn er birtur þannig að hann hafi sama meðaltal og staðalfrávik og gildir fyrir frávik vergrar landsframleiðslu frá langtímaleitni.

Horfur 2018
Efnahagshorfur fyrir árið virðast þokkalegar þegar litið er til hagvaxtar og atvinnustigs. Þetta má m.a. ráða af spám opinberra aðila og greiningaraðila á markaði. Þannig eru spár fyrir hagvöxt ársins í námunda við 3%. Aðilar eru þannig sammála um að talsvert hafi hægt á vexti frá árinu 2017.

Leiðandi hagvísir Analytica bendir til að hægja sé á hagvexti og raunar virðast vaxandi líkur á afturkippi nú síðsumars eða í haust. Þetta má sjá á mynd 1 þar sem má sjá leiðandi hagvísi Analytica (Ísland) og leiðandi hagvísa OECD fyrir BNA (grár ferill) og Kína (rauður ferill) auk hagvísis sem Analytica hefur sett saman úr leiðandi hagvísum OECD fyrir helstu viðskiptalönd (grænn ferill). Hvað viðskiptalöndin varðar þá eru tínd til lönd í þröngri viðskiptavog Seðlabanka Íslands utan Sádi-Arabíu. Nýjasta gildi hagvísisins er fyrir júní sl. og lýtur því fram til ársloka. Þetta mætti túlka þannig að aukin hætta sé á samdrætti landsframleiðslu nú þegar líður hefur á árið og að vöxt ársins megi þá rekja til fyrri hlutans.

Hvað með viðskiptalöndin? Sjá má að í viðskiptalöndum virðist svipaða sögu að segja og hérlendis þrátt fyrir að líkur séu á batnandi horfum í Kína. Í ljósi þess hversu hagvísirinn fyrir Kína hefur leitt aðra hagvísa á undanförnum árum má velta vöngum yfir því hvort uppsveifla þar leiði þá uppsveiflu í viðskiptalöndum og hérlendis þegar litið er lengra fram á veginn.

Höfundur er hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica ehf

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim