Miklu púðri hefur verið eytt í að skilgreina hina svokölluðu aldamótakynslóð (e. millennials), eða „me me me kynslóðina“, eins og skarpskyggn þjóðfélagsgreinandi kallaði hana um daginn. Ég er víst sekur af því að vera hluti af þeirri kynslóð, sem inniheldur þann hóp einstaklinga sem eru fæddir á árunum 1980 til 2000.

Nýverið fjallaði Fréttatíminn um kynslóðina, þar sem slegið var upp eftirfarandi frösum á forsíðunni: „Aldamótakynslóð­ in: Vill minna streð og meira dekur, lætur illa að stjórn, vill eiga minna og upplifa meira og vinnan ekki í fyrsta sæti.“ Það sló mig í fyrstu, en ég hefði heyrt ýmsar af þessum fullyrðum áður, og Fréttatímanum til varnar voru þetta niðurstöður innlendrar könnunar á hegðun kynslóðarinnar. Aldamótakynslóðin er oft talin sjálfhverf og löt, en þessi pistill snýst ekki um slík leiðindi.

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, frá árinu 2015, var fjölmennasti aldurshópur Íslendinga fólk á aldrinum 20 til 24 ára, þá 25 til 29 ára, því er ljóst að kynslóðin er stór sem um er rætt og því mikilvægt að huga vel að henni.

Hlaðvarpsþáttur BBC um aldamótakynslóðina vakti athygli mína, en þar kom meðal annars fram að þriðjungur ungra Breta haldi sig algjörlega frá áfengi, að notkun ólöglegra fíkniefna hefur hjá þeim sem eru yngri en 25 ára, dregist saman um fjórðung frá árinu 2004 og að færri unglingar eignuðust börn.

Spurningin í þættinum var í raun einföld? Hvað veldur? Hvernig má vera að þessi kynslóð sé svona „leiðinleg“? Ég gæti ímyndað mér að staðan sé svipuð hér á Íslandi. Ekkert einfalt svar er við þeirri spurningu, en persónulega tel ég að ástæðan geti legið í því að kynslóðin mín leiti í auknum mæli í öryggi – í stað óstöðugleika.

Ég gæti trúað því að einhver hluti jafnaldra minna sæki til að mynda í að búa í heimahúsum til að geta sloppið við leigumarkaðinn, sem er leiðinlegt en skynsamt. Sæki sér háskólanám til að geta byggt framtíðina á hugviti, sem er kannski ekki alltaf skemmtilegt en er skynsamlegt. Drekki minna, reyki minna, og djammi jafnvel minna. Ég vona að við höfum einfaldlega lært eitthvað af mistökum forfeðra okkar. Vonandi getum við búið betur að okkur og haft einhvers konar stöðugleika að leiðarljósi. Vonandi lærum við af hruni og endurreisn. Ég leyfi mér að minnsta kosti að vona. Kannski erum við bara skynsöm – en ekki leiðinleg.