Í þessari grein og næstu fjórum ætlar undirritaður að sýna enn einu sinni fram á ólögmæti sölu fjármálafyrirtækja á vertryggðum húsnæðislánum til almennings og varpa fram lausn á skuldavanda heimilanna sem allir ættu að geta unað við sem kölluð er „Kynslóðasátt“. Skora ég einnig og fer fram á, að stjórnvöld kynni sér málið til hlítar og aðferðafræðina.

Tarp aðferðin

Stjórnmálahreyfingin Hægri grænir, flokkur fólksins vill fara bandarísku leiðina til þess að leiðrétta verðtryggð lán heimilanna. Markmiðið með þessum aðgerðum er að fara að lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti sem tóku gildi 1. nóvember 2007. Með þeim var innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópusambandsins um markaði fyrir fjármálagerninga. Bandaríska leiðin kallast „The Troubled Asset Relief Program“ (TARP). Bandaríski TARP sjóðurinn var magnbundin íhlutun (e. quantitative easing) Seðlabanka Bandaríkjanna sem notuð var til þess að bjarga bandaríska húsnæðislánakerfinu, leysa úr vanda undirmálshúsnæðislána á fjármálamarkaði og kaupa til baka yfirveðsett húsnæðislán einstaklinga af fjármálafyrirtækjum. 3. október 2008, var TARP leiðin samþykkt með sérstökum neyðarlögum Bandaríkjaþings. Þessi markaðslausn gengur einnig vel upp á Íslandi, en þessi aðferð var framkvæmd í Bandaríkjunum með mjög góðum árangri. Um markaðslausn er að ræða, sem þýðir að kostnaður lendir ekki á ríkissjóði né skattgreiðendum.

Færustu sérfræðingar

Þessi leið var sett saman af færustu hagfræðingum og sérfræðingum heims. Þessi leið bjargaði m.a. bandarísku húsnæðislánasjóðunum „Fannie Mae og Freddie Mac“, bönkum og lífeyrissjóðum, sem fengu reiðufé í staðinn fyrir húsnæðislánin. TARP leiðin lukkaðist einstaklega vel og leysti þennann gríðarlega vanda sem skapaðist eftir fall „Lehman Brothers“ og lítur nú út fyrir að Bandaríski seðlabankinn hagnist verulega á þessum aðgerðum eftir allt saman. Eftir þessar aðgerðir komst fjármálastöðugleiki á, kreppan leystist, heimilum og fyrirtækjum var bjargað og í dag er ástandið í Bandaríkjunum mun betra en í Evrópu. Bandarískir fjármálasérfræðingar segja að sölutölur á íbúðahúsnæði sé með því besta sem sést hefur eftir að fasteignabólan sprakk með látum og hrundi fjármálakreppuni af stað. Nýjustu sölutölur benda til þess að jafnvægi sé að nást á þarlendum fasteignamarkaði. Fasteignaverð í Bandaríkjunum hefur hækkað síðastliðið hálfa árið samhliða því sem nýbyggingum hefur fjölgað. Bandaríkjadollar og hlutaog skuldabréfamarkaðurinn hafa einnig styrkst verulega.

Eru verðtyggð húsnæðislán seld ólöglega?

Meirihluti íslenskra heimila eru í vandræðum með afborganir af stökkbreyttum verðtryggðum húsnæðislánum og eru þau ekkert annað en undirmálslán. Öll verðtryggð húsnæðislán tekin eftir 1. nóv. 2007 eru afleiður og því líklega ólögleg. Með nýjum verðbréfaviðskiptalögum breyttust ýmsar mikilvægar reglur sem lutu að því hvernig standa átti að viðskiptum með verðbréf. MiFID-tilskipunin (e. Markets in Financial Instruments Directive) náði til allra ríkja á EES svæðinu, þ.e. aðildarríkja ESB auk Íslands, Noregs og Liechtenstein. Markmið laganna var að setja samræmdar reglur um neytendavernd fjárfesta og skapa sameiginlegan innri markað með fjármálaþjónustu. Lögð var áhersla á aukið eftirlit, faglega framkvæmd og upplýsingagjöf. Þá var löggjöfinni ætlað að tryggja að þeir viðskiptavinir fjármálafyrirtækja, sem eiga í verðbréfaviðskiptum, fengju ávallt viðeigandi upplýsingar og ráðgjöf. Framhald í næsta blaði.