*

föstudagur, 22. júní 2018
Týr
21. ágúst 2017 11:44

Leiðtogakjör

Týr fjallar um leiðtogakjör Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Haraldur Guðjónsson

Íhaldið í Reykjavík ætlar að efna til leiðtogakjörs fyrir borgarstjórnarkosningarnar á komandi ári, en láta kjörnefnd raða á listann að öðru leyti. Þetta er ekki slæm aðferð til þess að móta listann; vel til þess fallin að draga fram pólitík og sýn oddvitans, sem þá er líklegra til þess að vekja áhuga kjósenda. Það rímar líka vel við þau leiðtogastjórnmál sem tíðkast þessi árin.

***

Slík leiðtogastjórnmál eru þó frá­ leitt einhver nýlunda í borginni, því þvert á móti mega þau heita reglan þar. Borgarstjóraembættið er í eðli sínu ekki aðeins pólitískt forystuhlutverk, heldur aðallega framkvæmda- og frumkvöðulsstarf, sem kallar á dugandi leiðtoga, sem bæði höfða til borgarbúa og geta stjórnað sínu liði. Vita hvað borgin og borgararnir þurfa, helst áður en þeir sjálfir gera sér grein fyrir því!

***

Þetta er ekki einsdæmi í Reykjavík, þetta má heita reglan um borgarstjóraembætti um heim allan, af því þau eru öðru vísi en flestir pólit­ískir póstar aðrir. Það er lagt upp úr hugmyndaflugi, dugnaði og dirfsku, röggsemi og myndugleik. Fyrir vikið hafa menn oft hneigst til þess að velja yngra fólk til forystustarfa en í landsmálapólitíkinni. Eins og má sjá af helstu borgarstjórum fyrri ára, Bjarni heitinn Benediktsson varð borgarstjóri 32 ára, Gunnar Thoroddsen 37, Geir Hallgrímsson 34 ára, Birgir Ísleifur 35, Davíð 34, Ingibjörg Sólrún 40 og Dagur B. Eggertsson náði kjöri 42 ára.

***

Dagur er svo sem ekki gamall maður, en jafnvel þó svo hann hefði verið farsæll borgarstjóri blasir við að næsta kjörtímabil yrði hans síðasta í borginni, menn hafa aðeins erindi þar svo og svo lengi. Sennilegast væri hann nú þegar á förum ef Samfylkingin væri ekki sú rjúkandi rúst sem raun ber vitni.

***

En þá má spyrja um þau nöfn, sem heyrst hafa varðandi leiðtogakjörið nú þegar Halldór Halldórsson hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér. Kjartan Magnússon 49 ára, Áslaug Friðriksdóttir 49 ára, Eyþór Arnalds 53, Borgar Þór Einarsson 42 og Davíð Oddsson 70. Af þessum er enginn nema Davíð tekinn að reskjast, en enginn þeirra er bráð­ ungur heldur. Eða sérdeilis nýr og ferskur. Kannski stjórnmálin séu orðin svo útjöskuð að nýtt og ungt fólk veigri sér við að gefa kost á sér til slíkra starfa. En þá þarf að gera eitthvað í því.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.