Líklega hafa flestir látið undan freistingunni og smellt á fyrirsögn á netinu, sérstaklega á Facebook, sem augljóslega eru clickbait-fyrirsögn eða smellubeita. Ég er sekur. Þegar ég hef lokað glugganum hríslast oft um mig smá ónotatilfinning og ég velti fyrir mér afhverju í ósköpunum ég hafi verið að smella á þessa frétt.

Vel skrifaðar fyrirsagnir segja lesandanum í fáum orðum nákvæmlega um hvað fréttin snýst. Lesandinn veit því strax hvort hann hafi áhuga á málinu og vilji lesa meira. Smellubeitur eru akkúrat andstæðan. Þær eru innihaldslausar, segja lesandanum ekki neitt og eru eingöngu skrifaðar til þess að fá smell. Blaðamaðurinn, sem skrifar þannig fyrirsögn, er vísvitandi að blekkja lesandann í þeim tilgangi að auka lestur síns miðils. Síðan þegar lesandinn smellir á fréttina kemur oftast í ljós að hún er jafn innihaldslaus og fyrirsögnin.

Smelludólgsháttur er vafasöm aðferð til að auka lestur miðils. Í dag forðast ég, og alveg pottþétt margir aðrir, smellubeitur eins og heitan eldinn.  Ég vil einfaldlega ekki gera miðlinum, sem stundar blaðamennsku af þessu tagi, þann greiða að smella á innihaldslausa forðukennda fyrirsögn. Sigri hrósandi sit ég við tölvuskjáinn og hugsa, hahaha gott á ykkur — ég fell sko ekki fyrir svona smelludólgshætti. Innst inni er ég samt auðvitað að deyja úr forvitni.

Í auknum mæli get ég svalað þessari forvitni án þess að smella því hægt og rólega er að verða bylting á Facebook. Ég hef tekið eftir því að lesendur, sérstaklega bresku blaðanna, eru farnir að bregðast við smelludólgshætti þeirra á Facebook. Æ oftar upplýsir sá fyrsti sem kommentar á fréttastatusinn um hvað málið snýst. Þetta er til mikillar fyrirmyndar og hefur sparað mér marga smelli.

Hér er upplogið dæmi. Fyrirsögn á Facebook: "This politician just shaved all his hair". Komment frá lesanda: They're talking about Donald Trump. Dæmið er reyndar hörmulegt því ég myndi samt smella á fréttina en þið skiljið hvað ég meina. Góður blaðamaður hefði að sjálfsögðu skrifað þessa fyrirsögn "Donald Trump just shaved all his hair". Ég hefði líka smellt á hana.

Nú er bara að vona að þessi bylting teygi anga sína til Íslands og lesendur íslenskra fjölmiðla úthýsi smelludólgshættinum með sama hætti og breskir lesendur eru að gera.