*

miðvikudagur, 24. apríl 2019
Týr
18. maí 2018 10:55

Líf á vinstri vægnum?

Ímyndar sér einhver að Vinstri græn eigi einhver tromp eftir á hendi?

Haraldur Guðjónsson

Hún er fróðleg skoðanakönnunin um fylgi framboða í Reykjavík, sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær. Við fyrstu sýn vekur það sjálfsagt athygli flestra hve ákaflega tvístrað fylgið er, þó það eigi ekki að koma fyllilega á óvart í ljósi fjölda framboða.

                             *** 

Á móti má segja að þó að það sé gomma í framboði og miklu meira en nóg af pópúlistum, þá eru þeir ekki að uppskera mikið í þessari könnun. Kvennahreyfingin, Borgin okkar, Karlalistinn og Höfuðborgarlistinn eru ekki að fá neitt neitt og Íslenska þjóðfylkingin, Alþýðufylkingin og Frelsisflokkurinn minna en ekki neitt. Framsóknarflokkur og Flokkur fólksins eru ekki úr leik, en þó ekki inni. Þarna eru 18%  — hartnær fimmta hvert atkvæði —  að falla dauð, rætist þessi könnun á kjördag. Sem með jafnri dreifingu atkvæða ætti að duga fyrir fjórum borgarfulltrúum! Það er nú lýðræðisveisla í lagi!

                             *** 

Það er þó ekki svo að allir pópúlistar séu úr leik, Miðflokkurinn á hægri vængnum og Sósíalistaflokkurinn á þeim vinstri standa sig alveg bærilega, ekki síst Sósíalistar, sem ekki kæmi á óvart að yrðu spútnikar borgarstjórnarkosninganna. Oddviti þeirra er ung og fersk kona – ekki enn einn sjálfvirkur froðusnakkurinn – sem hefur náð miklum árangri á örskömmum tíma og gæti hæglega bætt duglega við sig á næstu dögum.

                             *** 

Könnunin er martraðarkennd fyrir Vinstri græn í borginni. Fylgið hefur hrapað undanfarna mánuði og er nú aðeins þriðjungur þess, sem það var í fyrra, fór úr 21% í 6,8% nú! Þar hafa verið innanflokksdeilur, sem leiddu til klofningsframboðs Kvennahreyfingarinnar og slítur mikilvæg 2% af Vinstri grænum. Það hefur þó litlu breytt um það að í Reykjavík hafa karlar mikið til yfirgefið flokkinn. Við bætist að margir vinstrimenn eru flokknum gramir fyrir að hafa tekið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með íhaldinu.

                            *** 

Það er óvarlegt að ímynda sér að Sósíalistar nærist aðeins á óánægju með Vinstri græn, þeir hafa unnið fyrir fylginu sjálfir og eiga vafalaust talsvert eftir enn. En ímyndar sér einhver að Vinstri græn eigi einhver tromp eftir á hendi? Líf gæti vel verið að berjast fyrir sínu pólitíska lífi í lok næstu viku.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim