*

mánudagur, 23. október 2017
Óðinn
12. mars 2012 15:44

Lífeyrissjóðunum gengur vel við hlið Warren Buffett

Warren Buffett náði góðum árangri á sínum yngri árum. En langt er um liðið. Íslensku lífeyrissjóðirnir hafa staðið sig betur.

Warren Buffett er frægasti fjárfestir heims, hann náði líka góðum árangri á sínum yngri árum. Orðspor hans hvílir þó frekar á því hversu framúrskarandi almannatengill hann er, orðhagur og sjarmerandi, fremur en árangri í fjárfestingum. Þar með er ekki sagt að hann hafi ekki náð góðum árangri á einhverju tímabili. Hann náði um tíma framúrskarandi árangri, en síðan er langt um liðið.

* * *

Í gegnum tíðina höfum við lesið í fjölmiðlum hvernig Íslendingar hafa farið pílagrímsferðir á aðalfundi hjá fyrirtæki hans, Berkshire Hathaway. Arnold Schwarzenegger fékk hann til liðs við sig sem fjármálaráðgjafa þegar hann bauð sig fram sem ríkisstjóra í Kaliforníu og Buffett hefur deilt visku sinni með Obama um hvernig hækka eigi skatta á hátekjufólk, án þess þó að það bitni um of á honum sjálfum. Buffett er því áhugavert viðmið fyrir aðra fjárfesta.

* * *

Í ársskýrslu Berkshire Hathaway fyrir árið 2011 kemur fram að ávöxtun fjárfestinga félagsins hafi að meðaltali verið 19,8% síðan 1964 sem er 10,6% meira en fjárfesting í S&P 500. Þetta er einstakur árangur og því ætti fjárfestum að hafa vegnað vel sem fjárfestu í þessari peningaprentvél. Málið er þó ekki svo einfalt því Buffett mælir árangur sinn ekki sem hækkun eða lækkun hlutabréfa félagsins, sem er auðvitað eini ávinningurinn sem fjárfestar geta haft af fjárfestingu sinni, heldur ávöxtun bókfærðs eiginfjár félagsins.

* * *

Markaðsverð hlutabréfa er áþreifanlegt mat á framtíðargreiðsluhæfi eigna þeirra á meðan stjórnendur hafa mun meira svigrúm við að færa eignir til bókar. Buffett er meðal annars stór fjárfestir í tryggingageiranum og bankageiranum, greinar þar sem ómögulegt er að henda reiður á verðmæti eigna með nokkurri nákvæmni. Það sem við vitum þó er að þeir sem gera upp bókhald þessara fyrirtækja hafa mjög ríkan hag af því að færa virðið sem hæst og hafa gert það. Óðinn gerir sér heldur ekki grein fyrir því hvernig ómagastyrkirnir sem bandaríska ríkið hefur veitt fyrirtækjum Buffetts í fjármálageiranum eru taldir inn í „ávöxtunartölur“ hans.

Buffett og orðspor hans sýnir okkur að ávöxtun í fortíð er ekki trygging og ekki einu sinni vísbending um ávöxtun í framtíð. Langbesta ávöxtun hlutabréfa Berkshire Hathaway var á fyrstu árum og áratugum fyrirtækisins, síðustu ár hafa ekki verið neitt sérstök. Það ætti að vera þeim umhugsunarefni sem ætlast til að sjóðstjórar þeirra nái árangri eins og Buffett að ekki einu sinni Buffett nær sama árangri og hann gerði áður og hvað þá í samræmi við ímynd sína sem ofurfjárfestir.

Buffett sagði eitt sinn að góður knapi næði árangri á gæðingum en ekki brotnum jálkum og ef stjórnandi sem þykir snjall tekur við fyrirtæki í lélegum bissniss þá er líklegra að bissnissinn haldi orðspori sínu en stjórnandinn. Á máli eignastýringar heitir þetta að skipting á milli eignaflokka skýri 95% af árangri sjóðstjóra og fjárfestar hafa ekki riðið feitum hesti frá fjárfestingu í hlutabréfum síðustu ár.

* * *

Óðinn ákvað að bera saman árangur íslenskra lífeyrissjóða og Berkshire Hathaway. Tölurnar sem við styðjumst við ná aftur til 1997. Á þessu tímabili virðast lífeyrissjóðirnir við fyrstu sýn hafa náð betri ávöxtun en Berkshire Hathaway, 7,7% á móti 6,3%.

* * *

Eins og lesendur ættu þó að átta sig á segir þetta ekki alla söguna, því verðbólga hefur verið mun hærri á Íslandi en í Bandaríkjunum. Óðinn bar því aftur saman árangur lífeyrissjóðanna og Buffetts að teknu tilliti til verðbólgu í hvoru landi fyrir sig.

* * *

Þegar tekið er tillit til þessa fer Buffett fram úr lífeyrissjóðunum, er með 4% raunávöxtun á móti 2,4%. Þetta sýnir hvað óstöðugur gjaldmiðill getur villt mönnum sýn. Og kannski er því eðlilegra að miða við ávöxtun beggja aðila í sömu mynt, dollar. Þá er Buffett enn með vinninginn, 6,3% nafnávöxtun á móti 3,9%.

* * *

Það er athyglisvert að ávöxtun lífeyrissjóðanna er hærri í dollurum en raunávöxtun í íslenskum krónum. Ástæðan er sú að uppsafnaður mismunur verðbólgu á Íslandi og í Bandaríkjunum á þessu tímabili hefur verið meiri en sem nemur veikingu gengis krónunnar. Samkvæmt því er full innistæða fyrir veikingu gengis krónunnar fremur en að það hafi orðið „forsendubrestur“.

* * *

Annað atriði sem er athyglisvert er að ávöxtun lífeyrissjóðanna er miklu stöðugri en Buffetts þegar hún er mæld í krónum. Það er eðlilegt enda sjóðirnir blönduð eignasöfn. Þetta breytist hins vegar þegar ávöxtunin er mæld í dollurum, þá verða sveiflurnar meiri hjá lífeyrissjóðunum. Þarna líða lífeyrissjóðirnir fyrir að vera á brotnum jálki, sem er íslenska krónan, fremur en gæðingi. Það vekur þá upp spurninguna hvað er gæðingur og hvort dollarinn sé slíkur. Til að svara þeirri spurningu skoðum við næst ávöxtun hlutabréfa Berkshire Hathaway í þeirri einingu sem lengst hefur verið notuð sem gjaldmiðill og best hefur haldið verðmæti sínu, gulli.

* * *

Þá kemur í ljós að ávöxtun Berkshire Hathaway er ekki einu sinni góð frá 1990. Buffett gagnrýnir fjárfestingar í gulli í síðustu ársskýrslu sinni og líkir verðþróun þess við netbóluna. Það er líklegt að verð gulls sé hátt um þessar mundir vegna ótta fjárfesta, enda hafa þeir fulla ástæðu til að vera óttaslegnir þar sem pappírspeningar hafa illa haldið virði og hrávöruverð, þar á meðal gulls, tekur mið af því.

Stikkorð: Óðinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.