Nasdaq Iceland hefur tekið saman upplýsingar um meðalveltuhraða á hlutabréfamörkuðum Nasdaq Nordic fyrir árið 2018. Veltuhraði er fenginn með því að deila fjölda hluta sem ganga aðila á milli í viðskiptum á tilteknu tímabili með öllum útgefnum hlutum. Sem dæmi: Ef fyrirtæki hefur gefið út 500 hluti og á heilu ári eru samtals viðskipti með 250 hluti er veltuhraðinn 50%. Ef viðskipti hefðu átt sér stað með 500 hluti væri veltuhraðinn 100%.

Veltuhraði leiðréttir hvoru tveggja fyrir áhrifum verðs á veltu sem og stærð fyrirtækja og er því að vissu leyti ákjósanlegri mælikvarði á virkni markaða heldur en hreinar veltutölur. Heilt á litið var veltuhraðinn mestur á sænska markaðnum, eða 67%, en svipaður á þeim íslenska, danska og finnska, eða á bilinu 54-57%.

Það getur þó einnig verið áhugavert að skoða veltuhraða eftir stærð fyrirtækja, en þá skiptingu má sjá á meðfylgjandi mynd. Athyglisvert er að virkni íslenska markaðarins, miðað við þennan mælikvarða, er talsvert meiri heldur en í nágrannalöndunum ef litið er til smárra og millistórra fyrirtækja, eða 85% fyrir smá fyrirtæki í samanburði við 25-46% í nágrannalöndum okkar, og 70% fyrir millistór fyrirtæki, í samanburði við 29- 52% á samanburðarmörkuðunum. Virknin í viðskiptum með stór fyrirtæki er aftur á móti minni hér á landi, sem skýrist að vissu leyti af því að annað tveggja stórra fyrirtækja á íslenska markaðnum, Arion banki, er einnig skráð á Nasdaq Stockholm, en við útreikning á veltuhraða er tekið tillit til allra útgefinna hlutabréfa - sem þýðir að veltuhraði verður alltaf vanmetinn ef hluti þeirra hefur í reynd verið fluttur á annan markað.

Engu að síður er líklegt að veltuhraði í viðskiptum með stór fyrirtæki sé minni hér á landi heldur en erlendis og því er afar gott að geta boðið slíkum fyrirtækjum upp á að tvískrá sig á aðra markaði Nasdaq Nordic, til þess að ná betur til erlendra fjárfesta. Til lengri tíma litið er aftur á móti nauðsynlegt að fjölga í hópi stærri fyrirtækja sem skráð eru á Íslandi og bæta umgjörðina til þess að efla markaðinn og laða að fleiri erlenda fjárfesta.

Það jákvæða er aftur á móti að þrátt fyrir allt tal um litla virkni á íslenska markaðnum þá hafa fjármálafyrirtæki og fjárfestar staðið sig afar vel í að halda uppi líflegum viðskiptum. Þá má sérstaklega fagna miklum viðskiptum með smá og meðalstór fyrirtæki, sem eru burðarásinn í íslensku atvinnulífi. Möguleikar slíkra fyrirtækja á því að nýta sér markaðinn til fjármögnunar og vaxtar eru afar miklir enda virðist áhugi fjárfesta á viðskiptum með slík fyrirtæki hvergi vera meiri á Norðurlöndunum heldur en hér á landi. Sá áhugi virðist ekki hafa farið framhjá fyrirtækjunum, en nokkur fjöldi smárra og millistórra fyrirtækja eru nú að kynna sér eða undirbúa skráningu á Aðalmarkaðinn eða Nasdaq First North.

Með fleiri skráðum fyrirtækjum aukast möguleikar atvinnulífsins til þess að skapa ný störf og takast á við óvæntar breytingar ásamt því sem gagnsæi er aukið, svo dæmi séu tekin. Það eru því vonandi bjartir tímar framundan.

Höfundur er viðskiptastjóri hjá Nasdaq Iceland.