Í aðsendri grein hér í Viðskiptablaðinu í síðustu viku stakk Óttar Guðjónsson upp á því að hækka lífeyrisaldur úr 67 í 77 ár í jöfnum skrefum næstu 30 árin. Máli sínu til stuðnings reifaði hann tölur um vænta ævilengd 40 ára karlmanns fyrir þrjátíu árum og bar saman við væntingar hans nú, að því gefnu að hann væri enn á lífi.

Áminning Óttars er brýn en ályktun hans um að einstaklingur þurfi að jafnaði að lifa á lífeyrisgreiðslum átta árum lengur en áður var talið er þó ofmat. Vænt ævilengd við sjötugt miðar aðeins við þá sem ná þeim aldri og samanburður við vænta ævilengd við fertugt tekur ekki tillit til þeirra sem andast í millitíðinni.

Að hluta til hefur verið komið til móts við hugmyndir Óttars nú þegar með því að auka sveigjanleika í lífeyriskerfinu. Sjóðfélagar í lífeyrissjóðum hafa nú val um að vinna lengur og fresta töku lífeyris frá lífeyrissjóðum og almannatryggingum til allt að 80 ára aldurs eftir að ný reglugerð um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar tók gildi og breytingar á samþykktum flestra lífeyrissjóða í þessa veru hafa verið staðfestar.

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hefur vænt ævilengd sjötugra karlmanna aukist um 2,5 ár undanfarna þrjá áratugi en um 1,9 ár hjá sjötugum konum. Þróunin er í takt við auknar lífslíkur í heiminum og helst í hendur við öruggara aðgengi að fæðu, hreinu drykkjarvatni, bættri hreinlætisaðstöðu og betri heilbrigðisþjónustu. Vænt ævilengd sjötugra karlmanna er nú 15,0 ár skv. tölum Hagstofu Íslands og 16,8 ár hjá konum. Þessar tölur byggja á dánarreynslu fimm ára tímabils en lífeyrissjóðir þurfa að gera ráð fyrir því að greiða lífeyri lengur.

Vanmat skuldbindinga

Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT), sem hafði áður það hlutverk að gefa út dánarog eftirlifendatöflur til að nota í tryggingafræðilegri athugun lífeyrissjóða, kynnti fyrir nokkrum árum tillögur um að grundvalla töflurnar á spá um áframhaldandi lækkun dánartíðni. Könnun Fjármálaeftirlitsins árið 2015 leiddi í ljós að breyttar forsendur hefðu aukið 9,8% við áfallnar skuldbindingar lífeyrissjóða án bakábyrgðar launagreiðenda og 7,8% við áfallnar skuldbindingar lífeyrissjóða með ábyrgð.

Tillögur FÍT um að styðjast við lífslíkur með framtíðarspá, sem gæfu réttari mynd af fjárhagslegum skuldbindingum lífeyrissjóða, hafa ekki náð fram að ganga. Nýjustu dánar- og eftirlifendatöflur fjármála- og efnahagsráðuneytisins byggja á reynslu áranna 2010 til 2014 og taka ekki mið af spá um áframhaldandi þróun í þessa veru.

Dánartíðni hefur lækkað hratt í öllum aldurshópum frá því á seinni hluta 20. aldarinnar. Jafnvel þótt það dragi aðeins úr þróuninni ættu sjötugir einstaklingar núna að gera ráð fyrir að lifa að jafnaði frá hálfu til þremur fjórðu hlutum úr ári lengur en tölur Hagstofunnar hér að ofan sýna. Ef fram heldur sem horfir ætti svo næsta kynslóð eftirlaunaþega að gera ráð fyrir að lifa enn lengur. Í öllu falli er brýnt að fara að taka það með í reikninginn þegar skuldbindingar lífeyrissjóða eru gerðar upp í tryggingafræðilegu mati.

Höfundur er sérfræðingur í áhættugreiningu lífeyrissjóða og vátryggingafélaga hjá Fjármálaeftirlitinu