Víða um heim er algengt að bera saman hversu langan tíma það tekur einstakling að greiða upp fasteignaverð með tilliti til meðallauna hans á mánuði. Á þennan mælikvarða má færa rök fyrir því að sjaldan hafi verið eins hagkvæmt að kaupa fasteign á Íslandi og núna.

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru meðallaun á Íslandi í dag rétt rúmlega 700.000 krónur. Meðalfermetraverð á 90 til 100 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu er 424.965 krónur eða um 42,5 milljónir króna fyrir 100 fermetra íbúð. Það þýðir að það tekur um 61 mánuð fyrir launin að greiða upp 100 fermetra fasteign á meðalfermetraverði á höfuðborgarsvæðinu 2017. Til samanburðar tók það 83,5 mánuði að greiða upp sömu stærð af íbúð árið 2008 samanborið við meðallaun einstaklings á því ári. Þrátt fyrir að íbúðin hefði þá kostað 40% minna eða um 25,5 milljónir.

Þegar skoðaðar eru sambærilegar upplýsingar frá Kaupmannahöfn, London og Osló er tíminn minnst þrisvar sinnum lengri. Í Kaupmannahöfn tekur það um 183 mánuði fyrir meðallaun einstaklinga á mánuði, 290.000 krónur, að greiða upp kaupverð 100 fermetra íbúðar þar sem meðalfermetraverð er 530.000 kr. Í Osló tekur það um 221 mánuð fyrir meðallaun, sem eru 375.000 krónur á mánuði, að greiða upp 100 fermetra íbúð þar sem meðalfermetraverð er um 828.000 krónur. Í London tekur 230 mánuði fyrir meðallaun sem eru 416.000 krónur á mánuði, að greiða upp 100 fermetra íbúð miðað við meðalfermetraverð uppá 996.000 krónur.

Ef litið er aftur til ársins 1990 voru meðallaun einstaklinga á Íslandi um 88.333 kr og kostaði þá 100 fermetra íbúð að meðaltali 5 milljónir króna. Það hefði því tekið meðallaun einstaklings 56 mánuði að greiða upp kaupverð þeirrar fasteignar. Þegar við beitum sömu formúlu átta árum seinna, árið 1998, hefur tíminn lengst um 2 mánuði og var þá um 58 mánuði sem það hefði tekið mánaðarleg meðallaun að greiða upp meðalverð slíkrar fasteignar.

Sé litið til ákveðinna starfsstétta, í sögulegu samhengi, þá tekur það grunnlaun kennara árið 2018 um 96 mánuði að greiða upp 100 fermetra íbúð á meðalfermetraverði á höfuðborgarsvæðinu, en tók 124 mánuði árið 2008, 89 mánuði árið 1998 og 111 mánuði árið 1988. Ef horft er til meðallauna VR þá tekur það 71 mánuð árið 2018 að greiða upp 100 fermetra íbúð miðað við meðalfermetraverð á höfuðborgarsvæðinu, en tók 72 mánuði árið 2008, 89 mánuði árið 1998 og 111 mánuði árið 1988.

Miðað við sömu forsendur þá tekur það 138 mánuði fyrir lágmarkslaun hjá ASÍ að greiða upp íbúð árið 2018 sem er sami mánaðarfjöldi og árið 2002.

Í þessum samanburði er ekki tekið tillit til kostnaðar við fjármögnun og eins eru skattar og útborguð laun misjöfn milli landa.

Höfundur er fasteignasali.