Árangur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta hefur hrint af stað umræðu í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um nauðsyn þess að reisa nýjan þjóðarleikvang.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, setti málið mjög eftirminnilega á dagskrá í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 í miðjum fagnaðarlátum á Ingólfstorgi. „Við byggðum Hörpuna en nú þurfum við að byggja menningarhús þjóðarinnar, yfirbyggðan leikvang þar sem við getum haft stóra viðburði,“ sagði Geir.

Menn segja ekki svona í hálfkæringi. Þessi setning var búinn að veltast um í huga Geirs í mörg ár og loksins þarna rataði hún út. Þetta var öðrum þræði hárfínt skot á hámenningarelítuna enda sá maður mjög fljótlega froðufellandi ummæli á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfum fréttamiðlanna. Samnefnari þeirra ummæla var líklega eitthvað á þennan veg: „Við biðum í heila mannsævi eftir Hörpunni okkar og við viljum að þið fáið að þjást jafn lengi“.

Allir antisportistar landsins skriðu upp í prédikunarstólinn á Facebook eða Twitter og boðuðu fagnaðarerindi réttlátrar dreifingar á skattfé. „Hvað með heilbrigðiskerfið! Hvað með skólakerfið!“ Við þetta fólk segi ég, leggjum niður allan óþarfa lúxus. Þar meðtalið Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og Hörpuna. Seljum fasteignirnar og kaupum annan jáeindaskanna.

Við verðum að setja hlutina í rétt samhengi. Það að telja að bygging nýs Laugardalsvallar muni koma niður á heilbrigðiskerfinu eða skólakerfinu er auðvitað fásinna.

Í þessu sambandi bendi ég á að ríkisstjórnin stefnir að því að skila 15,3 milljarða króna afgangi á fjárlögum næsta árs. Ég bendi einnig á að strax frá upphafi hafa menn rætt um einhvers konar eignatryggða fjármögnun þar sem mjög takmarkað skattfé ef eitthvað þyrfti í verkefnið.

Ég hef ekki farið í Þjóðleikhúsið síðan ég var í menntaskóla. Mig minnir að ég hafi séð Hafið árið 1992. Ég fór síðast í Borgarleikhúsið fyrir 20 árum. Þá sá ég La Bohème og í Eldborg hef ég einu sinni komið. Það var fyrir tveimur árum þegar ég horfði á gríðarlega skemmtilega uppfærslu bandaríska ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group á skýrslu um vöxt og viðgang ferðaþjónustunnar í landinu.

Þrátt fyrir þetta hef ég aldrei grátið það að einhver hluti af skattfé mínu fari í rekstur þessara merku menningarhúsa. Síður en svo. Ég vil að fólk fái að njóta menningarinnar. Ég veit líka að á næstu árum, hugsanlega í vetur, mun ég fara með litla strákinn minn í leikhús. Mig langar aftur á móti líka til að fara með hann, og litlu stelpuna mína, á landsleik þegar fram líða stundir. Eins og staðan er í dag er það bara eiginlega ekki hægt því miðarnir seljast upp á nokkrum mínútum.

Talandi um barnaleikrit. Ég myndi gjarna vilja nota tækifærið og óska hér eftir því að Dýrin í Hálsaskógi verði sett upp. Strákurinn minn á nefnilega DVD-diskinn og hreinlega elskar Mikka ref, Lilla klifurmús, Martein skógarmús og Hérastubb bakara. Sjálfur átti ég plötuna með Bessa Bjarna og Árna Tryggvasyni þegar ég var lítill gutti. Hún var í stuttan tíma geymd inni í herbergi hjá mér í Reykjahlíð í Mosfellsdal. Ég segi í stuttan tíma því ég gat ómögulega sofið með plötuna í herberginu og bað því mömmu um að taka hana fram, svo hræddur var ég við að Mikki refur myndi stökkva ljóslifandi út úr plötuumslaginu.