*

sunnudagur, 26. maí 2019
Leiðari
16. nóvember 2018 12:05

Lítil bjartsýni

Færri mannaráðningar, minni hagvöxtur, meiri verðbólga og veiking króununnar.

Haraldur Guðjónsson

Endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækið Deloitte hefur á síðustu árum gert könnun, þar sem fjármálastjórar stærstu íslensku fyrirtækja landsins eru meðal annars spurðir út í reksturinn og stöðu íslensks atvinnu- og efnahagslífs. Kannanirnar, sem gerðar eru tvisvar á ári, að vori og hausti, veita innsýn í rekstrarhorfur fyrirtækja og eru því um margt forvitnilegar. Viðskiptablaðið greinir í dag frá niðurstöðum síðustu könnunar, sem framkvæmd var nú í haust.

Samkvæmt könnunum síðustu missera hefur bjartsýni fjármálastjóranna sífellt minnkað og samkvæmt nýjustu könnuninni heldur sú þróun áfram. Það fyrsta sem blasir við þegar rýnt er í niðurstöðurnar eru áhyggjur stjórnendanna af gengisþróun íslensku krónunnar. Nú telja 84% þeirra að krónan muni vekjast á næstu sex mánuðum. Er þetta gríðarleg viðhorfsbreyting frá því síðasta vor en þá töldu 26% þeirra að krónan myndi veikjast á næstu sex mánuðum. Í gegnum árin hafa fjármálastjórarnir ítrekað nefnt gengisþróun krónunnar sem einn helsta ytri áhættuþáttinn í rekstrinum. Næst á eftir krónunni hefur vaxtastigið yfirleitt verið nefnt. Um 75% nefna krónuna og 45% vaxtastigið (fjármálastjórarnir mega merkja við fleiri en einn valkost). Eru þetta nákvæmlega sömu niðurstöður og síðasta vor. Þegar verðbólgan er skoðuð kemur hins vegar í ljós að 40% stjóranna nefna hana nú sem áhrifaþátt en í könnuninni síðasta vor var þetta hlutfall 27%.

Annað sem vekur athygli er að nú telja um 56% fjármálastjóra að á næstu tveimur árum muni hagvöxtur minnka en síðasta vor voru 38% fjármálastjóranna þessarar skoðunar. Einnig má nefna að nú telja um 30% stjóranna að úrvalsvísitala Kauphallar Íslands muni lækka á næsta hálfa ári en síðastliðið vor var þetta hlutfall 16%. Ríflega 22% fjármálastjóranna telja að fjárhagslegar horfur þeirra fyrirtækis hafi versnað en í könnuninni síðastliðið vor var þetta hlutfall 15,5%. Þegar fjármálastjórarnir eru spurðir að því hvort nú sé góður tími til að auka áhættu í efnahagsreikningi fyrirtækja þeirra svara 88% þeirri spurningu neitandi. Hefur þetta hlutfall ekki verið hærra í fjögur ár.

Í könnuninni eru fjármálastjórarnir spurðir hvernig þeir telji að ráðning nýrra starfsmanna í þeirra fyrirtækjum muni þróast á næstu tólf mánuðum Alls telja 32% þeirra að ráðningar muni minnka. Þetta hlutfall hefur aldrei verið hærra í könnunum Deloitte. Í þeim tíu fjármálastjórakönnunum sem Deloitte hefur gert hefur það heldur aldrei gerst áður að meirihluti fjármálastjóra búist við gengislækkun og minni hagvexti.

Um miðjan síðasta mánuð birtu Starfsgreinasamband Íslands og VR kröfugerðir sínar fyrir komandi kjaraviðræður en fjöldi samninga á almenna vinnumarkaðnum losnar um áramótin. Kröfur félaganna eru nánast samhljóða. Farið er fram á að lágmarkslaun hækki um 60% eða úr 267 þúsund krónum á mánuði í 425 þúsund. Þar með er í raun bara hálf sagan sögð því félögin gera einnig kröfu um að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að lægstu laun verði skattfrjáls. Útborguð laun hækka þar með úr 215 þúsund krónum í 408 þúsund, sem er 90% launahækkun á þremur árum. Við þetta bætist að gerð er krafa um styttingu vinnuvikunnar úr 40 klukkutímum í 32 til 35 tíma. Þar með er ljóst að kröfugerð forystu þessara tveggja stéttarfélaga hljóðar upp á að tímakaup hækki úr 1.243 krónum í 2.690 krónur hjá VR og 2.942 hjá Starfsgreinasambandinu. Þegar öllu er á botninn hvolft hljóðar kröfugerðin því upp á 123 til 137% hækkun tímakaups.

Óhætt er að segja að kröfur stærstu verkalýðsfélaganna rími afar illa við niðurstöður könnunarinnar, sem hér hefur verið fjallað um.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim