Umræða á Íslandi hefur tilhneigingu til að daðra við hið fáránlega. Í hvert sinn sem einhver opinberar skoðun sína á einhverju máli, eða gerir eitthvað sem hallar á einhverja sérhagsmuni, þá byrja vélar þeirra að draga viðkomandi í dilka. Þú ert svona eða hinsegin, þú hefur þessa eða hina hagsmunina, þú ert hluti af þessum eða hinum kreðsum innan þessa eða hins stjórnmálaflokks. Helst verður að gera viðkomandi algjörlega ótrúverðugan með baknagi og annars konar niðurrifi. Þessi umræðuhefð er orðin að nokkurskonar þjóðaríþrótt okkar Íslendinga.

Heiftin í umræðunni er oft skrifuð á návígið og fámennið. Að það geri það að verkum að öll samskipti færist yfir á öskurs- og/eða hatursplanið. Ég held að sú skýring sé að vissu leyti sönn, en að vissu leyti einföldun. Ég held að ástæðuna fyrir þessu

öskur
öskur
© vb.is (vb.is)
ástandi megi líka finna í faraldri sem hefur fengið að gerjast allt of lengi í íslensku samfélagi. Faraldri sem ég kýs að kenna við litla karla.

Litlu karlarnir eru þeir sem vilja halda öðrum niðri til að staðfesta, og múra fasta, eigin stöðu í samfélaginu. Þeir umbera illa skoðanir sem eru ekki eins og þeirra, frumkvæði sem er ekki frá þeim komið og metnað sem skilar þeim ekki persónulega áfram í lífinu. Í hugum litlu karlanna eru aðrir sem eru efnilegir ógn við þeirra tilveru, ekki eftirsóknarverð viðbót við flóruna. Þessa aðra verður helst að kæfa í fæðingu, eða allavega halda kyrfilega niðri. Heildarhagsmunir verða alltaf að víkja fyrir sérhagsmunum.  Annars gæti komist upp um litlu karlanna. Það gæti einhver uppgötvað að þrátt fyrir glansandi fægt yfirborðið þá er gumsið innan í þeim rýrt.

Lykillinn að velgengni lítilla karla er að sannfæra aðra um stórkostlegheit sín. Að þeir séu í reynd ómissandi. Að þeir séu límið í þeim kima samfélagsins sem þeir hírast. Án þeirra muni hreinlega allt hrynja í sundur.

Ísland er fullt af litlum körlum. Þá er að finna innan stjórnmálanna. Innan flestra vinnustaða. Í raun í öllum hornum þjóðfélagsins. Og þeim fer hratt fjölgandi.

Ástæðan fyrir þessum faraldri er sú að litlum körlum líkar vel við aðra litla karla. Þeir eru já-menn og fróa sjálfsáliti litlu

velgengni
velgengni
© vb.is (vb.is)
karlanna sem komnir eru skör ofar í metorðastiganum. Þannig græða litlir karlar á framgangi annarra lítilla karla.

Ég viðurkenni að stundum stend ég mig að því að haga mér eins og lítill karl. Blessunarlega er ég með gott fólk í kringum mig sem getur bent mér á það. Í kjölfarið læt ég af þeirri hegðun. Og skammast mín. Það gera sannir litlir karlar aldrei, enda væri það í andstöðu við eðli þeirra að samþykkja utanaðkomandi skoðanir. Litlir karlar munu aldrei eyða sér sjálfir.

Þess vegna verðum við hin að gera það. Við verðum að hætta að láta þá halda samfélagi okkar í heljargreipum. Við verðum að hætta að láta þá halda okkur niðri. Skipta okkur upp í andstæðar fylkingar. Segja okkur hvernig hlutirnir voru og hvernig þeir verða. Að eina rétta leiðin fram á við sé þeirra leið.

Ef okkur tekst ekki, sem heild, að losa okkur við þetta krabbamein sem litla-karlmennskan er þá er okkur ekki viðbjargandi. Þá erum við öll litlir karlar.