*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Týr
19. júní 2017 11:36

Ljótur leikur

Týr fjallar um viðbrögð við því þegar sérsveitarmenn lögreglunnar tóku sér stöðu meðal mannfjöldans á 17. júní með skammbyssu við beltisstað.

Haraldur Guðjónsson

Ýmsum brá í brún við hátíðahöld í borginni um liðna helgi, þegar sérsveitarmenn lögreglunnar tóku sér stöðu meðal mannfjöldans með skammbyssu við beltisstað. Íslendingar eru óvanir slíkum vopnaburði á heimavelli, þó vitaskuld hafi margir orðið vitni að öðru eins og meiru til á ferðum erlendis. Fram kom að lögregla hefði aukið viðbúnað sinn á fjöldasamkomum á grundvelli nýs almannahættumats Ríkislögreglustjóra, sem sigldi í kjölfar hryðjuverkaárása í Bretlandi og víðar.

***

Margir gagnrýndu vopnaburðinn, fannst það jafnvel illt fyrir sjálfsmynd Íslendinga sem friðsamra eyjarskeggja við ysta haf. Ekki síst hitnaði sumum í hamsi þegar þeir hugsuðu til þess að lögreglan vildi vera í „byssuleik“ á sjálfan 17. júní. Sögðu jafnvel eitthvað skelfilegt um fjallkonuna, sem sjá má þungvopnaða hér á kantinum. Ein friðardúfan á Facebook hafði jafnvel í hótunum um að hún myndi vaða í þá laganna verði, sem spilltu friðarímynd Íslendinga með þeim hætti. Sei sei, já.

***

Aðrir töldu vígvæðinguna beinlínis hættulega. Viðbúnaðurinn gæti orðið hryðjuverkamönnum aðdráttarafl, en þeir vildu margir komast hraðleið til himna með þeim hætti. Það kann að vera rétt, að slíkir menn vilji öðlast píslarvætti þannig, en að úrþvættin leiti rakleiðis þangað, sem vopnaðra laganna varða er von, er berlega þvæla. Í London var ekki ráðist á lögreglustöð um daginn, heldur gangandi vegfarendur og veitingastaði. Þeir vita að þeir verða stöðvaðir með vopnavaldi, en markmiðið er að sálga sem flestum öðrum fyrst. Er þá ekki betra að hafa viðbúnað – þó hans verði vonandi aldrei þörf – svo stöðva megi illvirkja sem allra fyrst?

***

Hitt er rétt athugað, að slík eðlisbreyting á viðbúnaði lögreglu á erindi í opinbera umræðu og þar eiga stjórnmálamenn leikinn. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra brást skynsamlega við, taldi þennan viðbúnað ekki æskilegan, en að menn yrðu að treysta mati og viðbrögðum lögreglunnar í þeim efnum, til þess væri hún. Það má vel ræða frekar, en þá án upphrópana eða ásakana um að lögregluyfirvöld eða einstakir lögregluþjónar séu að þessu til þess að leika sér. Það er ljótur leikur að halda slíku fram og engum er vörn í að ugga ekki að sér.

Stikkorð: umræða lögregla Vopnaburður
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim