*

mánudagur, 10. desember 2018
Andrés Magnússon
20. október 2017 17:02

Lögbönn

Móðurinn var vart runninn af mönnum vegna lögbannsins á Stundina, þegar fram kom ný lögbannsfrétt, að þessu sinni um Loga Bergmann.

Haraldur Guðjónsson

Síðastliðinn mánudag þrammaði fulltrúi sýslumannsins í Reykjavík inn á ritstjórnarskrifstofur Stundarinnar, þar sem hann féllst skömmu síðar á lögbannskröfu, sem líkið af Glitni banka setti fram til þess að stöðva frekari fréttaflutning Stundarinnar, sem byggður væri á gögnum innan úr fallna bankanum. Vísað var til þess að gögnin væru bundin bankaleynd, en í þeim væri að finna fjárhagsupplýsingar um verulegan fjölda viðskiptamanna bankans.

Sýslumannsfulltrúinn féllst á að ekki mætti vinna fleiri fréttir upp úr gögnunum, en hins vegar voru kröfur um að fyrri fréttum væri eytt eða gögnin afhent ekki samþykktar.

                                       ***

Þetta er algerlega galið og það á ótal forsendum.

Fyrst og fremst þá er það auð­vitað svo að lög um bankaleynd fjalla um leynd í bönkum. Ekki fjölmiðlum. Það er út í hött að þau sjálfsögðu trúnaðarskilyrði sem fjármálastofnanir og starfsmenn þeirra gangast undir megi á einhvern hátt mýla fólk utan bankanna. Þarna getur vissulega verið um margvíslegar trúnaðarupplýsingar að ræða, einkamál, sem engum koma við, en það eru engar vísbendingar um að Stundin hafi verið að notfæra sér slíkar upplýsingar til birtingar á einkahögum Jóns og Gunnu.

Þvert á móti hefur blaðið nær alfarið einbeitt sér að því að fjalla um málefni Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og hefur raunar gert það í mörg ár.

Líkt og Bjarni hefur rakið, kann honum að þykja sá fréttaflutningur slæmur, jafnvel annarlegur. En hann verður samt sem áður að una honum vegna þess að hann hefur gefið sig að opinberum störfum og verður að sætta sig við að njóta ekki sömu væntinga til einkalífs og hinn almenni borgari. Leiðindi og óþægindi fyrir hann eru einfaldlega trompuð af mikilvægi þess að í landinu geti starfað frjálsir fjölmiðlar, sem geti boðið valdafólki birginn ef því er að skipta. 

                                       ***

Um það verða menn einfaldlega að treysta fjölmiðlum, að þegar þeir komast í gögn af þessu tagi, þá gangi þeir varlega fram, að minnsta kosti gagnvart hinum almenna borgara. Það verður ekki annað séð en þeir hafi gert það.

                                       ***

Hitt má heita áhyggjuefni ef slík gögn eru í umferð um langa hríð, hjá fleiri en einum fjölmiðli, sérstaklega ef vísbendingar eru uppi um að einhver hafi lekið þeim í tilteknum tilgangi. Áður hafa komið upp fréttamál, sem byggð voru á gögnum frá þrotabúi Glitnis, og það er óneitanlega áhyggjuefni, að þau virðast hafa beinst sérstaklega að ýmsum æðstu embættismönnum ríkisins. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að þrotabúið átti um nokkurn tíma í deilum við ríkisvaldið og því ekkert gefið um hver kom gögnunum í dreifingu eða af hvaða hvötum.

Það má þó hugleiða að þrátt fyrir að fjöldi frétta hafi verið fluttur úr þessum gögnum (hjá a.m.k. þremur fjölmiðlum) og ávallt hafi legið ljóst fyrir að þau kæmu úr Glitni, þá er það fyrst nú sem þrotabúið aðhefst eitthvað í því, sjálfsagt fyrst og fremst til þess að verjast málshöfðunum eða stjórnvaldssektum með því að geta sagst hafa gert eitthvað. Það kemur fjölmiðlum auðvitað ekki beint við, en þó er rétt að brýna það fyrir blaðamönnum að hugleiða í hvaða tilgangi svona gögnum er dreift. Það er ekki óþekkt að verið sé að notfæra sér fjölmiðla með þeim hætti og stundum geta blaðamenn orðið háðir heimildamönnum sínum.

                                       ***

Tvennt enn. Blaðamenn Stundarinnar hafa sagt lögbannið koma sér illa, þeir hafi ekki verið búnir að tæma brunninn. Má vera, en blaðamenn eiga ekki að sitja á fréttum. Er það raunin? Og er núna sjálfsagt að trufla kosningarnar?

                                       ***

Móðurinn var vart runninn af mönnum vegna lögbannsins á Stundina, þegar fram kom ný lögbannsfrétt, að þessu sinni um Loga Bergmann, sem fyrir skömmu munstraði sig aftur heim á Morgunblað eftir nokkra dvöl á 365 miðlum (og Ríkisútvarpinu þar á undan).

365 telur að Logi sé bundinn af ákvæðum ráðningarsamnings síns, bæði hvað varðar árs langan uppsagnarfrest og samkeppnisbann, sem meinar honum að vinna fyrir samkeppnisaðila í aðra 12 mánuði á eftir. Samkvæmt því þarf Logi að hugsa tvö ár fram í tímann ef hann vill skipta um starfsvettvang. Það er óneitanlega svolítið langt og gerir kröfu um einstaka framsýni, sem er ekki öllum blaðamönnum gefin.

Þarna gengur 365 líka óvenju hart fram, krefst og fær lögbann áður en aðrar og vægari aðgerð­ ir hafa verið reyndar. Nú þekkir fjölmiðlarýnir ekki til samningsins, hugsanlega felast í honum fleiri álitaefni, en hér er samt æði langt gengið.

Ekki þó síst í ljósi þess að Logi réði sig til fjölþættra starfa á mismunandi miðlum hjá fjölmiðlasamsteypu, en vaknaði einn morgun í mars við þann vonda draum að hann var ekki lengur í vinnu hjá fjölmiðlasamsteypu heldur símfélagi. Það er engan veginn ljóst að starfsskyldur Loga færist sjálfkrafa og umræðulaust yfir til nýs vinnuveitanda. Enn síður þegar við blasir að eðli starfs hans breytist við þau vistaskipti, því Vodafone verður ekki með sömu umsvif og 365 hafði, en Fréttablaðið fylgir ekki með í kaupunum.

Í því samhengi er það vísbending að Logi réði sig ekki til nýrrar vistar fyrr en eftir að Samkeppniseftirlitið hafði blessað samruna Vodafone og 365 og ljóst að starf hans myndi breytast. Fjölmiðlarýnir er ekki löglærður og getur ekki lagt dóm á það hvernig þau mál fara. Honum kæmi það þó verulega á óvart ef lögbannið stæði óhaggað. Það myndi ekki aðeins varða Loga og Vodafone, heldur væri þar á ferðinni grafalvarlegt vinnuréttarmál.

Fjölmiðlarýnir er þó eilítið hissa og eilítið vonsvikinn yfir því að hvorki formaður Blaðamannafélagsins né stjórn þess hefur ályktað gegn þessu lögbanni á Loga. Er atvinnufrelsi blaðamanna aukaatriði hjá verkalýðsfélagi þeirra?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.