*

föstudagur, 19. apríl 2019
Leiðari
30. maí 2015 12:10

Lögleg mismunun

Almenn skattlagning og almennar reglur fela ekki að öðru óbreyttu í sér mismunun.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Frumvarp um afnám hafta verður að öllum líkindum lagt fram síðar í þessari viku eða þeirri næstu. Miðað við fréttaflutning af málinu mun þar nánar koma í ljós hvað forsætisráðherra átti við með stöðugleikaskatti sínum og framtíð slitabúa föllnu bankanna mun sömuleiðis skýrast. Ef marka má reynslu síðustu ára verður þess ekki langt að bíða þar til fréttaskýringar birtast um það hvernig verið sé að mismuna kröfuhöfum þrotabúanna og níðast á þeim með ólögmætum hætti.

Það er því ekki úr vegi að rifja það upp sem þegar hefur komið fram. Sé skattlagning almenn og skattandlagið ákveðið með hlutlægum hætti þá er ekki um neina mismunun að ræða, þótt endanlega verði einhverjir sem greiða mun meira til ríkisins en aðrir. Auðlegðarskatturinn, sem lagðist eingöngu á fólk sem átti hreina eign yfir ákveðnum mörkum, var talinn standast kröfur stjórnarskrárinnar. Almennur skattur sem hefur það að markmiði að verja stöðugleika í greiðslujöfnuði og þjóð­ arbúskap verður seint talinn mismuna einum eða neinum þótt hann kunni að bitna harðar á slitabúunum.

Athugum einnig að slitabúin sem slík eru íslenskir lögaðilar, ekki erlendir, og því verður seint sagt að skattur sem bitnar harðar á þeim sé byggður á þjóðernislegum forsendum. Kröfuhafar slitabúanna eru ekki eingöngu útlendingar, heldur eiga lífeyrissjóðir, seðlabanki og ríkissjóður einnig kröfur í búin.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur tjáð sig um það hvernig best sé að haga málum við afnám hafta og m.a. lagt áherslu á að menn forðist mismunun við afnám hafta. Hins vegar segir í skýrslu um gjaldeyrishöft frá AGS frá árinu 2012 að við ákveðnar aðstæður geti það dregið úr virkni gjaldeyrisstýringar að mismuna ekki á grundvelli þjóðernis. Við þær aðstæður gæti mismunun verið réttlætanleg.

Með öðrum orðum þá fellst Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sjálfur á það að við ákveðnar aðstæður geti verið réttlætanlegt að mismuna á grundvelli þjóðernis þegar kemur að gjaldeyrishöftum. Þetta tvennt er gott að hafa í huga næstu tvær vikur. Almenn skattlagning og almennar reglur fela ekki að öðru óbreyttu í sér mismunun, en slík mismunun getur að mati AGS verið réttlætanleg.

Það hefur lengi legið fyrir að kröfuhafar og slitastjórnir eru alfarið á móti því að gjaldþrotaleiðin svokallaða verði farin við uppgjör búanna. Með því er einfaldlega átt við að vinnu við nauðasamninga verði hætt og búin gerð upp. Andstaðan við þetta er reyndar svo mikil að krafa Heiðars Más Guðjónssonar í slitabú Glitnis var greidd upp að öllu leyti til að koma honum úr kröfuhafahópnum. Hafði Heiðar gert dómkröfu um að þrotabúið yrði sett í gjaldþrotameðferð, en málið var fellt niður þegar hann fékk kröfuna greidda. Sagði Heiðar í viðtali á Bylgjunni að íslenskir kröfuhafar geti samkvæmt þessu fengið greitt út 100 prósent af kröfum sínum af því að erlendir kröfuhafar vilji alls ekki taka áhættuna af því að gömlu bankarnir verði loksins settir í þrot.

Frétt DV af væntanlegum bónusgreiðslum til starfsmanna slitastjórnar Kaupþings verði nauðasamningar samþykktir setja þessar fréttir í ákveðið samhengi. Hvatar skipta alltaf máli og þegar starfsmenn slitastjórna hafa augljósa og mikilvæga fjárhagslega hagsmuni tengda við það að nauðasamningsleiðin í stað gjaldþrotaleiðarinnar verði valin þá er ekki furða þótt þeir berjist fyrir annarri leiðinni og gegn hinni.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim