Núna þegar búið er að ákveða losun gjaldeyrishafta á íslenskan almenning og fyrirtæki að mestu leyti, velta eflaust margir fyrir sér hverju það breyti þegar horft er til þess hvar nýir og betri kostir til ávöxtunar fjármuna séu í boði. Eins og staðan er núna, bendir margt til að fjárfestingar Íslendinga í erlendum eignum fari rólega af stað því það er margt sem mælir gegn því að fara mjög geyst í að nýta þá opnun sem nýjustu breytingar á lögum um gjaldeyrismál skapa. Þó eru sterk rök fyrir því að byggja markvisst upp eignir í mörgum gjaldmiðlum og eignaflokkum, sérstaklega fyrir lífeyrissjóði og stærri fjárfesta sem fjárfesta til langs tíma.

Það er ólíklegt að losun haftanna fylgi stórkostlegir flutningar fjármuna úr landi, því það er ekkert augljóst hvar fjárfestum bjóðast betri tækifæri til að koma fjármunum í vinnu en á Íslandi eins og staðan er akkúrat núna. Það eru samt í boði ákveðnir fýsilegir kostir, sérstaklega fyrir fagfjárfesta.

Sporin hræða

Í fyrsta lagi þá er auðvitað öllum í fersku minni að það varð ekki allt að gulli sem keypt var í útrásinni miklu. Lærdómurinn af því tímabili er að miklu skiptir að vanda vel til verka þegar kemur að áhættufjárfestingum í rekstrarfélögum. Ytri aðstæður breytast oft fljótt og þá er það ekki endilega vegna þess að fyrirtæki sé ekki vel rekið sem illa getur farið. Óvissan sem núna er í Bretlandi vegna útgöngu úr Evrópusambandinu er dæmi um það og eins má benda á verðlækkun á olíu síðustu tvö árin og áhrif hennar á fjölmörg fyrirtæki í olíuiðnaðinum.

Ísland er vaxtavin

Það er ekki á mörgum stöðum sem hægt er að fá jafn örugga ávöxtun á peninga eins og á Íslandi um þessar mundir. Ef litið er til skráðra skuldabréfa í Japan, Bandaríkjunum eða Evrópu er ljóst að á hinum þróuðu skuldabréfamörkuðum er ekki mikil arðsemi í boði nema fjárfest sé í verulega áhættusömum pappírum. Þar sem arðsemi af skuldabréfum hefur aðallega verið knúin af lækkandi vöxtum þá er svo komið að áhættan sem er samfara því að kaupa skuldabréf með mjög lágri ávöxtun er ekki í samræmi við þá lágu vexti sem þau bera. Ofan á þetta er svo almennt hægur vöxtur í stærstu hagkerfum heimsins og hlutabréfamarkaðir frekar hátt verðlagðir eftir hækkanir síðustu ára.

Krónan kórónar svo myndina

Þegar við bætist að allt bendir til að gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast er líklegast að fjárfestar muni stíga varlega til jarðar þegar kemur að því að flytja peninga í fjárfestingarverkefni utan Íslands. Þó að ekki sé líklegt að það verði sprengja í útflæði peninga frá Íslandi eru ýmis atriði sem gera það að verkum að þörf er fyrir fjárfesta með aðsetur á Íslandi og almenning í gegnum lífeyrissjóðina að dreifa sínum eignum og koma hluta þeirra fjármuna sem þeir eru með í stýringu í eignir í öðrum gjaldmiðlum. Langstærsta og mikilvægasta ástæða þess er áhættudreifing, en til lengri tíma er það líka til þess að bæta arðsemi í heild.

Þó vel gangi á Íslandi í dag þá eru fjárfestingarkostir hér einfaldlega takmarkaðir við tiltölulega fáar atvinnugreinar og markaðurinn mjög grunnur. Það getur verið erfitt fyrir stóra aðila að koma sér fyrir án þess að ýta verði á eignum óeðlilega upp og áhættan við útgöngu (e. Exit) er meiri á svo litlum markaði. Stærð fjárfestingarsjóða landsins, hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða aðrir, gerir það nauðsynlegt að hluti eigna þeirra sé í erlendum gjaldmiðlum. Þegar aðstæður breytast þá er oft einfaldlega of seint að gera ráðstafanir og því eina leiðin að dreifa eignum þannig að ef eitt gengur miður taki annað við.

Er svarið óhefðbundnar fjárfestingar (e. alternative investments)?

Ein leið sem mjög margir alþjóðlegir fjárfestar hafa séð sem lausn á lágri ávöxtun á hefðbundnum mörkuðum er að nýta óhefðbundnar fjárfestingar í leit að betri ávöxtun. Þegar talað er um óhefðbundnar fjárfestingar þá er einna helst átt við framtaksfjárfestingarsjóði (e. Private equity) og vogunarsjóði (e. Hedge funds). Þessir sjóðir eru bæði mismunandi hvað varðar fjárfestingarstefnu og uppbyggingu og bjóða í raun aðgengi að hvers konar eignum sem áhugi er á að fjárfesta í. Ef skoðuð eru löng tímabil þá hefur þessi tegund fjárfestinga að jafnaði skilað góðri ávöxtun.

Framtaksfjárfestingarí fasteignum

Flestir tengja framtaksfjárfestingasjóði eflaust við kaup á rekstrarfélögum en fjöldi þeirra einbeitir sér líka að fasteignafjárfestingum. Fyrir fjárfesta sem fyrst og fremst sækjast eftir stöðugri arðsemi og samkeppnishæfri ávöxtun geta fasteignasjóðir verið afar áhugaverður kostur, ekki síst vegna þess að í mörgum tilfellum greiða þeir myndarlegan arð meðan fjárfestingin er bundin. Helsti munurinn er að framtaksfjárfestingarsjóðir eru að ná ívið hærri ávöxtun á sama tíma og áhættuvegin arðsemi er mun betri eins og hún mælist með Sharpe hlutfalli. Það segir að betri árangur næst með minni sveiflum. Arðgreiðslur eru líka umtalsvert hærri.

Ekki fyrir alla

Fjárfesting í framtaksfjárfestingarsjóðum eru ekki opnar almenningi eða almennum fjárfestum heldureinungis fagfjárfestum og lágmarksfjárfesting í slíkum sjóðum er venjulega hálf milljón bandaríkjadala eða meira. Framtaksfjárfestingar eru heldur ekki að öllu jöfnu laust fé, heldur er fjárfestingin bundin í alllangan tíma, oftast í nokkur ár. Þó eru arðgreiðslur algengar og því ekki alltaf um fulla bindingu að ræða. Samt sem áður eru þetta þættir sem gera þennan fjárfestingarkost þannig að hann hentar fyrst og fremst stórum og þolinmóðum fjárfestum.

Ég mun á næstunni fjalla ítarlegar um þennan og fleiri þætti varðandi erlendar fjárfestingar og fara dýpra í mismunandi fjárfestingarstefnur og möguleika sem standa til boða fyrir fagfjárfesta til að nýta sér óhefðbundnar fjárfestingarleiðir.

Höfundur er búsettur í Bandaríkjunum og rekur þar sjálfstæða fjárfestingarráðgjöf á sviði óhefðbundinna fjárfestinga.