*

mánudagur, 27. maí 2019
Höskuldur Marselíusarson
22. ágúst 2017 14:52

Má lemja nazista?

Óásættanlegt er að leyfa ofbeldi milli hópa á götum úti, hvort sem það eru sósíalistar af þjóðernissinnaða taginu eða af öðru, og réttlæting þess er orðin of algeng á samfélagsmiðlum.

Það hefur verið furðulegt að fylgjast með þeirri umræðu sem orðið hefur sífellt meira áberandi á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur og mánuði þar sem jafnvel gott og grandvart fólk hefur réttlætt beitingu ofbeldis í pólitískum tilgangi. Hafa ótrúlegustu einstaklingar lýst því yfir í ræðu, og eins og nú er orðið algengast, með mynd- og myndbandabirtingum, að þeir telji sig umkomna til að dæma um það hvaða skoðanir megi heyrast og hvaða aðferðum megi beita til að þagga niður í þeim sem hafi rangar skoðanir.

Nóg sé að viðkomandi sé talinn aðhyllast sósíalískar skoðanir, reyndar af þjóðernissinnaða taginu, til að jafnvel besta fólk telji að ráðast megi að viðkomandi með höggum í andlit, spörkum eða öðrum ofbeldisaðgerðum. Það er af sem áður var þegar það var einmitt það sem aðgreindi frelsiselskandi og lýðræðissinnað fólk frá öfgasinnum, hvort viðkomandi teldi réttlætanlegt að beita ofbeldi í pólitískum tilgangi.

Sá sem þennan pistil skrifar neitar reyndar að trúa því að þegar á hólminn er komið séu þessir vinir hans á samfélagsmiðlunum tilbúnir að beita ofbeldinu sjálfir, enda hljóta þeir að sjá hve hættulega hál sú braut yrði í átt til enn frekari öfga, átaka og ofbeldis líkt og við sáum því miður nóg af á götum úti í tilteknum smábæ Bandaríkjanna um helgina.

Það má ekki gleymast sá lærdómur sögunnar að það einungis styrkir öfgaöflin í samfélaginu að opna fyrir að almenningur taki lögin í eigin hendur og beiti líkamlegu, eða jafnvel andlegu og munnlegu ofbeldi gegn þeim sem þeir eru ósammála, sama hversu ömurlegar skoðanir viðkomandi hafa fram að færa líkt og á við í dæminu að ofan.

Þó að stigsmunur sé á því að beita eineltistilburðum og baktali eða jafnvel óvæginni umræðu eins og þekkist æ meira hér heima annars vegar og hins vegar hreinu ofbeldi, þá má ekki gleymast að ekki er um eðlismun að ræða.

Þeir sem réttlæta það að setja fólk til hliðar og útiloka það frá umræðunni eða samfélaginu vegna skoðana sinna, eða jafnvel óljósra tilfinninga um eðli og tilætlun einstaklinga, verða að átta sig á að þeir gætu verið að stíga fyrstu skrefin í átt að því kúgunarástandi sem við sjáum til að mynda ríkja í Venesúela þessa dagana.

Ef nóg er að henda á einhvern ásakandi stimpli án þess að færa þurfi fyrir honum rök verður fljótt farið að nota hann á fleiri og fleiri. Þessi aðferðafræði var kölluð af kommúnistum í Ungverjalandi salamiaðferðin og beitt til að sundra óvinum flokksins eftir heimsstyrjöldina. Er sagan nokkuð að endurtaka sig?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim