Skráð hlutabréf á mörkuðum Nasdaq Iceland (Kauphöllinni) eru nú 23, ríflega tvöfalt fleiri en þau urðu fæst í kjölfar fjármálahrunsins. Að sama skapi hefur markaðsvirði sexfaldast og velta á markaðnum tuttugufaldast. Markaðurinn er þó enn ekki stór í hlutfalli af stærð hagkerfisins, hlutabréfaeign einstaklinga er lítil og æskilegt væri að auka þátttöku erlendra aðila til muna. En hvernig stendur íslenski hlutabréfamarkaðurinn? Stenst hann kröfur sem gerðar eru í alþjóðasamfélaginu til hlutabréfamarkaða?

Þessari spurningu er best svarað með því að skoða heildarmyndina, kalt og yfirvegað. Slíkt mat á íslenska hlutabréfamarkaðnum var einmitt nýlega framkvæmt af fyrirtækinu FTSE-Russell (FTSE) .

Mat FTSE
Við matið notast FTSE við 21 mælikvarða. Telst íslenski hlutabréfamarkaðurinn standast 15 þeirra að fullu, fimm að hluta en einn engan veginn. Markaðurinn er talinn standast kröfur varðandi verðbréfaeftirlit, minnihlutavernd í hlutafélögum, litlar hömlur á fjárfestingar erlendra aðila og fjármagnsflæði til og frá landinu í tengslum við kaup og sölu hlutabréfa. Þjónusta við vörslu verðbréfa telst góð, uppgjörstími er samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og fátítt er að viðskipti séu ekki gerð upp. Miðlun verðbréfa telst með ágætum, seljanleiki nægur til að styðja við stórar alþjóðlegar fjárfestingar, viðskiptakostnaður sanngjarn, viðskiptakerfi hagkvæm og markaðsupplýsingar góðar.

Fæst sem þarna er upp talið ætti að koma á óvart. Íslenskt regluverk fyrir verðbréfamarkaðinn er jú að stærstum hluta innflutt frá Evrópu. Þá eru reglur Kauphallarinnar í takt við reglur Nasdaq kauphallanna í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Helsinki og viðskiptaumhverfið, sem er í fremstu röð á heimsvísu, það sama. Þá eru hér á landi margir aðilar sem þjónusta markaðinn af fagmennsku.

En hvað telur FTSE vanta upp á til að íslenski hlutabréfamarkaðurinn teljist fyrsta flokks? Ísland stenst ekki kröfu um skipulegan afleiðumarkað, enda enginn slíkur hér á landi. Þeir fimm mælikvarðar sem einungis teljast uppfylltir að hluta varða stærð hlutabréfamarkaðarins, getuna til að eiga viðskipti með krónuna utan Íslands, óhagræði við vörslu bréfa á safnreikningum, umfang verðbréfalána og skortsölu.

Seljanleiki á íslenska hlutabréfamarkaðnum
Jákvæð niðurstaða FTSE um seljanleika á íslenska hlutabréfamarkaðnum kann að koma einhverjum á óvart en gögn styðja hana svo ekki verður um villst:

– Öll hlutabréf á íslenska markaðnum nema eitt raða sér í efri helminginn þegar hlutabréfum á aðalmörkuðum kauphalla Nasdaq á Norðurlöndunum er raðað eftir fjárhæð viðskipta það sem af er ári.

– Seljanleiki mældur með veltuhraða, þ.e. hlutfalli fjárhæðar viðskipta með hlutabréf og markaðsvirðis þeirra, er það sem af er ári sambærilegur á Íslandi og öðrum kauphöllum Nasdaq á Norðurlöndunum.

– Veltuhraði hlutabréfa smárra og millistórra félaga er meiri í Kauphöllinni en á nokkrum öðrum markaði á Norðurlöndunum.

– Þrjú af 10 veltumestu hlutabréfum smárra félaga í kauphöllum Nasdaq á Norðurlöndunum á síðasta ári eru skráð í Kauphöllinni (Sýn, Sjóvá-Almennar tryggingar og Skeljungur).

Seljanleiki á íslenska markaðnum stenst því samanburð við seljanleika á öðrum mörkuðum á Norðurlöndunum og er samanburðurinn sérstaklega hagstæður fyrir smá og millistór félög.

Tækifæri til framfara
Í stuttu máli, íslenski markaðurinn er um margt góður og vel til þess fallinn að styðja við atvinnulífið, skapa störf og efla hagvöxt. En bæta þarf úr nokkrum atriðum til að hann teljist fyrsta flokks. Það jákvæða í stöðunni er að það er í okkar eigin höndum, stjórnvalda, markaðsaðila, Kauphallarinnar og Nasdaq verðbréfamiðstöðvar að bæta úr flestum þessara atriða. Á næsta ári mun t.d. Kauphöllin taka í notkun viðskiptakerfi sem notað er til afleiðuviðskipta í Nasdaq systurkauphöllunum á Norðurlöndum. Þessi breyting er því til þess fallin að greiða fyrir stofnun afleiðumarkaðar hér á landi, sem gæti aukið seljanleika og gagnsæi á markaðnum. Aðstæður til sölu félaga í eigu ríkisins (að hluta eða öllu leyti) hafa sjaldan verið betri og yrði skráning þeirra á markað góð leið til þess að tryggja gagnsæi og jafnræði við söluferlið, sem og gott söluverð. Gnótt tækifæra er til þess að bæta rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar með skráningu félaga í ferðamannageiranum og mörg stórefnileg nýsköpunarfyrirtæki huga nú að skráningu.

Einnig má efla fjármögnunarmöguleika fyrirtækja, og þar með styðja við vöxt markaðarins, og hag heimilanna með skattalegri ívilnun fyrir einstaklinga sem fjárfesta í skráðum hlutabréfum. Greiða má fyrir verðbréfalánum og skortsölu með því að auka heimildir bæði lífeyrissjóða og verðbréfasjóða til verðbréfalána. Slíkt myndi ekki einungis bæta gæði markaðarins heldur einnig skapa sjóðunum auknar tekjur. Einna flóknast virðist að auka viðskipti með krónuna utan landsteinana en draga má úr vægi þeirrar takmörkunar með því að bjóða upp á viðskipti og uppgjör í evrum á íslenska markaðnum ef félög svo kjósa. Nasdaq verðbréfamiðstöð og Kauphöllin vinna að því að opna fyrir þennan möguleika. Tækifæri og vilja til að bæta markaðinn vantar ekki. Boltinn er hjá okkur sjálfum.

Höfundur er aðstoðarforstjóri Nasdaq Iceland.