Það er fyrirsjáanlegt að Íslendingum á vinnualdri mun á næstu áratugum fækka í hlutfalli við þá sem komnir eru á eftirlaun eða eru ekki á vinnumarkaði af öðrum orsökum. Þessi þróun er þegar hafin. Afleiðingin getur orðið sú að þyngja byrðar þeirra sem starfandi eru og að hagvöxtur verði ekki nægur þannig að smám saman dragi úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og samfélagsins alls.

Eina leiðin til að bregðast við þessu er að erlendu starfsfólki hér á landi fjölgi. Án þess verður erfitt að standa undir góðum hagvexti og betri lífskjörum til framtíðar. Jafnframt verður að tryggja að fjölbreyttar tæknilausnir á sviði máltækni verði til fyrir íslenska tungu. Þessar máltæknilausnir munu gera það auðveldara fyrir fólk af erlendu bergi brotnu að læra íslensku og verða fullgildir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Ísland er að breytast í fjölmenningarsamfélag og má búast við því að erlendum borgurum fjölgi hratt á næstu árum og áratugum. Nú eru innflytjendur hér tæp 11% af íbúum en því er spáð að þeir geti orðið um 20% íbúa hér á landi eftir 20 ár eða svo. Íslendingar þurfa á þessu fólki að halda. Ekki einungis til að sinna þjónustu eða verkefnum í byggingariðnaði heldur einnig fólki með góða menntun hvort sem er iðnmenntun, fagmenntun á framhaldsskólastigi eða háskólastigi, sérfræðingum á öllum mögulegum sviðum auk fólks með sérstök réttindi til að sinna sérhæfðum störfum.

Besta leiðin til að fá fólk til að kjósa að koma hingað til lands, búa hér og starfa, er að hér séu góð lífskjör, eftirsóknarvert samfélag og að fólk uppskeri árangur erfiðis síns. Þá skiptir höfuðmáli að vel sé tekið á móti erlendu starfsfólki og að það verði hluti af íslensku samfélagi. Því er nauðsynlegt að hjálpa fólki að læra íslensku og þar hafa mörg fyrirtæki staðið sig vel. Án kunnáttu í íslensku er hætta á að fólk einangrist og njóti ekki samfélagsins til fulls. Erlent starfsfólk er nú þegar mikilvægur hluti af íslenskum vinnumarkaði og framlag þess skiptir miklu máli.

Það er rétt að taka fram meginþorri fyrirtækja, sem hefur erlent starfsfólk í vinnu, virðir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. Undantekningar virðast þó vera til og rétt er að taka hart á öllum slíkum málum. Það er rétt að minna á að auk þessa má grípa til annarra aðgerða til að fjölga vinnandi höndum s.s. með því að hækka eftirlaunaaldur, stytta nám og hjálpa fólki aftur út á vinnumarkaðinn eftir áföll.

Atvinnulífið hefur á árinu lagt áherslu á að íslenskan verði fullgild í stafrænum heimi. Snjalltæki verða að skilja íslensku og geta brugðist við fyrirmælum á móðurmáli Íslendinga. Til þurfa að vera tæki og tól sem leiðrétta málfar og stafsetningu, breyta töluðu máli í texta og öfugt. Sjálfvirkar þýðingar þurfa að vera öflugar og gagnast víða.

Það er auðvelt að sjá fyrir sér að í tímans rás geti erlendir starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði nýtt tól máltækninnar til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og auðveldað sömuleiðis fyrirtækjum samskiptin við starfsmenn sína sem geta verið af ýmsu þjóðerni. Þess vegna er fagnaðarefni að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er því heitið að fjármagna eigi sérstaka aðgerðaáætlun um máltækni.

Almannarómur er sjálfseignarstofnun í eigu fyrirtækja, stofnana og samtaka sem ætlað er að standa að smíði máltæknilausna fyrir íslensku til að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins og auka mannréttindi. Vonast er til að með samstarfi á vegum Almannaróms og verkefnum sem unnin eru í fyrirtækjum, háskólum og stofnunum verði unnt að lyfta grettistaki á þessu sviði.

Í ávarpi sínu á Menntadegi atvinnulífsins fyrr á þessu ári fjallaði Þórarinn Eldjárn skáld um mikilvægi íslenskunnar og um nauðsyn þess að „búa hana þeim vopnum sem hún þarf á að halda til að geta gert sig gildandi á öllum sviðum nútímalífs“ og sagði: „Á íslensku má alltaf finna svar, mikið rétt, en hvað ef ekki er lengur hægt að spyrja á íslensku? Fær maður þá nokkurt svar yfirleitt? Af þessum sökum og ýmsum öðrum ber okkur að standa vörð um íslenskuna alls staðar. Ekki af því að hún sé einhver vesalingur og ekki af einhverjum þjóðrembusökum eins og sumir virðast halda, heldur fyrst og fremst af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi af því okkur var trúað fyrir henni og í öðru lagi af því bara.“

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Skoðunargreinin birtist í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .