*

föstudagur, 20. október 2017
Bjarni Ólafsson
20. ágúst 2012 13:54

Mannréttindi og hatur

Þeir sem gagnrýndu Samtökin '78 fyrir að afhenda MBL-sjónvarpi mannréttindaverðlaun hafa í áratugi haft andúð á ritstjóra blaðsins.

Frá gleðigöngunni á Gay Pride.
Haraldur Guðjónsson

Í síðustu viku afhentu Samtökin ‘78 mannréttindaverðlaun sín eins og þau hafa gert undanfarin ár og í flokknum „félagasamtök, fyrirtæki eða stofnun“ fékk MBL-Sjónvarp verðlaunin fyrir gerð hinna stórskemmtilegu og fræðandi þátta „Út úr skápnum“ og „Trans“.

Alveg var viðbúið að þessari ákvörðun samtakanna yrði illa tekið af ákveðnum hópum og einstaklingum, enda er því miður enn til fólk sem er svo blindað af hatri á öðrum ritstjóra Morgunblaðsins að það fer algerlega á límingunum þegar hann er nefndur á nafn.

Hörður Torfason kom boltanum af stað á Facebook-síðu sinni og má lesa það úr skrifum hans þar að vegna tengsla ritstjórans við Sjálfstæðisflokkinn komi þessi viðurkenning ekki til greina. Þá hafi ritstjórinn borið „ábyrgð á hörmulegu fjárhagslegu og siðferðislegu hruni þessarar þjóðar“. Einnig nefndi hann atkvæðaveiðar, hvernig sem þær eiga að koma málinu við.

Fleiri stigu fram á völlinn og reyndu að sýna, með tilvitnunum í leiðara Morgunblaðsins, fram á að ritstjórar blaðsins væru einhverjir sérstakir hatursmenn mannréttinda og hamingju í heiminum. Þar var hver strámaðurinn á fætur öðrum reistur upp og sleginn niður.

Ekki má gleyma því að hatur þeirra, sem núna vilja kenna ritstjóranum um hrunið, spratt ekki upp haustið 2008. Þetta sama fólk hefur í áratugi haft andúð á honum og þeim gildum sem hann stendur fyrir. Það þoldi ekki þá hreyfingu í átt til frelsis sem íslenskt efnahagslíf tók á síðasta áratug síðustu aldar undir stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Hvað um það. Samtökin ‘78 svöruðu fyrir sig á þriðjudaginn og gerðu það svo vel að ekkert er við það það svar að bæta. Þar sagði m.a.: „Að tengja val þetta á handhöfunum Mbl-Sjónvarp við stjórnmálaflokka, fyrrum leiðtoga þeirra, atkvæðasmölun, efnahagshruninu og öðru slíku er ekki annað en fráleit firra og jaðrar við veruleg ósmekklegheit, ekki eingöngu við þiggjendur heldur einnig við veitendur. Eina pólitíkin sem stjórn og trúnaðarráð Samtakanna stunda er hinsegin pólitík, ekki flokkapólitík. Þannig skiptir engu máli hvar í flokki menn hugsanlega standa ef okkur finnst eitthvað vel gert.“

Pistill Bjarna Ólafssonar birtist í Viðskiptablaðinu 16. ágúst 2012. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Bjarni Ólafsson
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.