*

laugardagur, 26. maí 2018
Huginn og muninn
8. janúar 2017 10:09

Margrét Pála angrar vinstri-menn

Fótgönguliðar vinstra íhaldsins á samfélagsmiðlum létu hugmyndir Margrétar Pálu um tilbúnar máltíðir fara mjög í taugarnar á sér.

Haraldur Guðjónsson

Margrét Pála Ólafsdóttir kynnti á dögunum mjög áhugaverða nýjung. Leikskólar Hjallastefnunnar á höfuðborgarsvæðinu munu 15. janúar bjóða foreldrum barna á leikskólunum að kaupa tilbúnar máltíðir og taka með heim. Í fyrstu verður þetta í boði tvisvar í viku. Foreldrarnir panta kvöldverðinn á netinu og fá hann afhentan um leið og börnin eru sótt í leikskólann.

„Álag á barnafjölskyldur er fáránlegt í dag og mér finnst stundum að samfé­ lagið mætti bretta betur upp ermar,“ sagði Margrét Pála í viðtali á mbl.is. Vísar hún í þá staðreynd að eftir erfiðan vinnudag eigi margir foreldrar fullt í fangi með að sækja börn í leikskóla, versla í matinn og elda. Hún segir að í könnun hafi mælst gríð­ arlegur áhugi fyrir þessari nýjung. Reyndar höfðu foreldrar einnig áhuga á því að láta leikskólann sjá um þvottinn fyrir sig og segist Margrét Pála vera að skoða hvort ekki sé líka hægt að verða við þeim óskum. Þessi frumkvöðlastarfsemi á hrós skilið.

Það var eins og við manninn mælt að þegar þessar fréttir voru birtar, þá risu andstæðingar einkaframtaksins upp á tvo fætur og fundu þessu nýja fyrirkomulagi allt til foráttu. Fótgönguliðar vinstra íhaldsins á samfélagsmiðlum létu hugmyndir Margrétar Pálu fara mjög í taugarnar á sér. Voru þær jafnvel settar í samhengi við nauðsyn þess að stytta vinnuvikuna.

Að með því að létta undir með foreldrum væri Margrét Pála sem sagt bara að setja plástur á streituvaldandi samfélagsskipan. Úff! Það má nú alveg berjast fyrir styttri vinnuviku en hvernig það kemur Margréti Pálu við er óskiljanlegt. Hún hefur ekkert til saka unnið nema bregðast við ákalli foreldra og hefur sýnt framsýni með þessari nýbreytni sinni. Hún er bara í sínu litla horni að reyna að gera samfélagið ögn betra.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 8. janúar 2017. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.