*

föstudagur, 20. október 2017
Óðinn
5. september 2011 09:40

Meðganga bankahruns

Óðinn skrifar um skuldatryggingaálag valinna banka.

Aðsend mynd

Það berast ekki annað en góðar fréttir frá fjárfestatenglum evrópskra banka, samt nötra markaðir við minnstu fréttir, ekki af starfsemi bankanna sjálfra heldur af aðgerðum ríkisvaldsins. Athugun Óðins á efnahag nokkurra banka í síðustu viku leiddi í ljós veika stöðu, raunverulegt eiginfjárhlutfall þeirra er einungis á bilinu 1-4% sem þýðir að þeir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir sveiflum á markaði. Þessi útreikningur gerði ráð fyrir að eignir séu raunverulega rétt metnar. Hins vegar er bókun á eignum banka í mörgum tilfellum ákaflega matskennd, bæði vegna þess að ekki er til markaðsverð á ákveðna fjármálagerninga og svo hreinlega vegna þess að menn kjósa að taka ekki mark á markaðsverði.

***

Sá banki sem kom veikastur út í athugun Óðins í síðustu viku, Credit Agricole, birti uppgjör sama dag og blaðið kom út. Í tilkynningu með uppgjöri sínu sagði Credit Agricole að tapið af grískum ríkisskuldabréfum hafi verið 202 milljónir evra, sem er ef til vill ekki svo slæmt fyrir þennan banka sem er hvað berskjaldaðastur gagnvart Grikklandi. Skoðun á sjálfum reikningnum sýnir þó að þetta er skáldskapur. Í skýringu 5.5 með reikningnum segir að þar sem Grikkland eigi í „lausafjárvanda“ sé ákveðið að færa bréfin ekki á markaðsverði heldur „mark to model“; fyrir grísk ríkisskuldabréf sem eru á gjalddaga fyrir 2020 er notuð ávöxtunarkrafan 9% og bréfin því bókfærð á 79% af nafnvirði, lengri bréf hafa lítil áhrif á eignasafnið.

***

Vandinn er hins vegar sá að ávöxtunarkrafan á Grikkland er alls ekki 9%, hvorki 30. júní né núna, krafan er þvert á móti 18% í dag og ávöxtunarkrafa á tveggja ára ríkisskuldabréfum Grikklands sló nýtt met í vikunni þegar hún fór í 45%. Eignamat Credit Agricole er því í þessu tilfelli byggt einskærri óskhyggju. Þessu til viðbótar eru síðan miklu erfiðari og matskenndari þættir í uppgjörum, eins og til dæmis þegar um mikið veðsettar eða jafnvel yfirveðsettar eignir er að ræða.

***

Margir evrópskir bankar hafa tekið að birta nýjan kvarða á starfsemi sína, „cost of risk“, og geta þeir þess nær undantekningalaust að þessi kvarði hafi lækkað hjá sér. Samt er tryggingarálag (CDS) á skuldabréf þeirra að hækka og hlutabréf þeirra að lækka. En lækkun hlutabréfa þýðir að öðru óbreyttu hærra áhættuálag og raunar þeim mun meiri hækkun á áhættuálagi eftir því sem efnahagur þessara banka verður traustari og reksturinn gengur betur samkvæmt þeirra eigin fréttatilkynningum.

***

Þetta er því miður enn eitt dæmi um hversu ógagnsæir bankarnir eru í dag. Margir gera sér í hugarlund að banki sé stofnun sem veiti innlánum viðtöku og láni þau aftur út. Mikið og stöðugt magn innlána gerir bönkum svo kleift að lána út til lengri tíma en nemur binditíma innlána og þannig gera bankar aukna fjárfestingu mögulega. Þessi mynd er hins vegar órafjarri nútíma bönkum, í meðfylgjandi töflu má sjá hlutfall útlána til viðskiptavina af eignasöfnum evrópskra banka. Þetta hlutfall er að meðaltali 40%, verðbréf ýmiss konar eru hins vegar 37% af efnahag þessara sömu banka. Ef við lítum síðan á innstæður þá nema þær einungis 34% af efnahag bankanna, afgangurinn er að mestu fjármagnaður á skuldabréfamarkaði og með samningum sem hvíla á trausti viðkomandi banka sem mótaðila. Nútímabankaáhlaup verður ekki við að viðskiptavinir mæta í bankann sinn og heimta innstæður sínar. Nútímabankaáhlaup verður þegar banki nýtur ekki lengur trausts sem mótaðili, lánalínur lokast og enginn vill kaupa skuldabréf viðkomandi banka. Slíkt getur gerst og hefur gerst á einni nóttu, þess vegna eru fjárfestar órólegir.

***

Það er áhugavert að bera evrópska banka í dag saman við íslensku bankana í árslok 2007. Þá má segja að íslensku bankarnir hafi staðið á tímamótum, það voru níu mánuðir síðan Moody’s gaf þeim hæstu lánshæfiseinkunn, Aaa, og taldi fjárfestingu í skuldabréfum þeirra næsta áhættulausa. Og það voru níu mánuðir í að þeir færu í þrot, allir sem einn. Það sem er óhugnanlegt við þessa töflu er að ef íslensku bankarnir sjálfir skera sig úr að einhverju leyti er það vegna þess að eiginfjárhlutfall þeirra er sterkara en annarra banka (og væri sennilega enn í meðallagi þótt mið sé tekið af veði í eigin bréfum á þeim tíma). Uppbygging bankanna er með áþekku sniði og annarra evrópskra banka, helsti munurinn er sá hversu kerfið sjálft var stórt hér á landi, en það er fremur stigsmunur en eðlismunur enda eru bankakerfi Evrópu orðin alltof stór og væru enn stærri ef bankarnir geymdu ekki eignir utan efnahags.

***

Íslensku bankarnir eru ekki þeir einu sem fóru á hausinn í þessum hópi. Í skýrslu sem Centre for European Policy Studies gaf út í október í fyrra, Bank State Aid in the Financial Crisis: Fragmentation or Level Playing Field?, er gerð grein fyrir ríkisstuðningi við nokkra banka í Evrópu, allir bankarnir í töflunni hafa hlotið stuðning í formi ríkisábyrgða og lausafjárfyrirgreiðslu, en það sem við höfum áhuga á er beint eiginfjárframlag ríkisins. Í dálkinum í töflunni er síðan eiginfjárframlagi ríkisins deilt í núverandi eigið fé. H H H Sá banki sem kemur áberandi verst út í þessari skoðun er Dexia. Honum var sleppt í umfjöllun síðustu viku en vegna fjölda áskorana ákvað Óðinn að leyfa Íslandsvinunum í Dexia að vera með að þessu sinni. Dexia sérhæfði sig í lánveitingum til opinberra aðila eins og til dæmis sveitarfélaga. Dexia er stór lánveitandi hjá Orkuveitu Reykjavíkur og var líkast til einn af þeim síðustu til að lána þeim á alþjóðamörkuðum. Í apríl 2008 lánaði Dexia OR 100 milljónir evra á 48 punkta álagi á Libor, eða um það bil fimmtungi þess álags sem krafist var af ríkisskuldabréfum! Nú er verið að biðja útsvarsgreiðendur í Reykjavík og notendur þjónustu OR að taka á sig auknar byrðar út af glórulausri áhættustýringu Dexia sem ætlar sér að ganga óskaddað frá þessum viðskiptum og líkast til varpa áhættunni yfir á íslenska lífeyrissjóði.

***

Raunverulegt eiginfjárhlutfall Dexia í dag er 1,2%. Slík áhættustýring hlýtur að vera kennd í guðfræði frekar en verkfræði.

***

Í þessari umfjöllun eru engir írskir bankar teknir til skoðunar, enda í raun gjaldþrota og starfa nú á ábyrgð írska ríkisins. En trúa fjárfestar því? Það er athyglisvert að síðan ESB kom með „björgunaráætlun“ sína 21. júlí hefur ávöxtunarkrafan á 10 ára írsk ríkisskuldabréf lækkað úr 14,08% í 8,95%. Það hefur ekki orðið sambærileg lækkun á skuldabréfum Portúgals og krafan á grísk skuldabréf er nú hærri en hún var fyrir aðgerðirnar. Hluti af skýringunni er auðvitað að horfur eru nú betri á Írlandi, ríkið hefur skorið útgjöld sín kröftuglega niður og það var 1,3% hagvöxtur á síðasta ársfjórðungi. En það skýrir hins vegar ekki að á sama tíma og áhættuálag á ríkið hefur verið að lækkað hefur það verið að hækka á bankana, en efnahagur þeirra er um sjöföld landsframleiðsla Írlands og ríkið er sagt ábyrgjast þá, þótt það hafi enga burði til þess. Ef fjárfestar trúa því að ríkið muni standa við ábyrgð sína geta þeir selt tryggingu á bankana og keypt tryggingu á ríkið og lokað inni um 3% hagnað. Það gera þeir hins vegar ekki sem bendir til að þeir treysta síður á ríkisábyrgðina en áður.


Stækka má myndina með því að smella á hana.

 

Þrátt fyrir að evrópskir bankar gangi ljómandi að eigin sögn líður vart sú vika að ekki berist fréttir af fjöldauppsögnum. Til að skoða hvernig stendur á því athugaði Óðinn hver arðsemi eiginfjár bankanna væri, ef raunverulegt eiginfjárhlutfall þeirra væri 8%, sem er hátt miðað við síðustu áratugi en líkast til lágt miðað við að bankarnir þyrftu að standa á eigin fótum án ríkisstuðnings. Miðað við um 8% eiginfjárhlutfall er arðsemi þessara banka að meðaltali 2% og best hjá Santander, 4,5%. Það sem þetta segir okkur er að arðsemi starfseminnar er alls óviðunandi en að eigendur hlutabréfa spenni ávöxtunina upp með mikilli skuldsetningu.


Stækka má myndina með því að smella á hana.

 

Það sem hrundi á Íslandi haustið 2008 var viðskiptamódel, viðskiptamódel sem enn er við lýði í Evrópu og sem Evrópa á enn eftir að vinda ofan af. Afleiðingarnar af hruninu voru skelfilegar fyrir íslensk heimili. Óðinn óttast að afleiðingarnar fyrir evrópsk heimili að slá uppgjöri á frest verði verri. Látum það liggja á milli hluta hvort stjórnendur íslensku bankanna, allir eða sumir, hafi verið óvenju glannalegir, óupplýstir eða jafnvel óheiðarlegir. Auðvitað hefði framvinda sögunnar orðið með öðru móti ef persónur og leikendur hefðu verið aðrir, en það má ekki blinda okkur sýn á að bankakerfin, sem hafa verið byggð upp á liðnum árum með beinni og óbeinni ábyrgð ríkisins, hafi leitt okkur í ógöngurnar: Leiðin út úr þeim er að ríkið hætti að ábyrgjast bankakerfin, trúverðugasta leiðin fyrir okkur Íslendinga til þess er að taka einhliða upp aðra mynt og selja reitinn við Arnarhól, sem áður hýsti Sænska frystihúsið, undir verðmætasköpun á ný.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.