*

mánudagur, 23. október 2017
Leiðari
11. ágúst 2012 11:15

Meira aðhald

Það er ljóst að forsendur fyrir aðhaldi upp á eitt prósent í ríkisrekstri nægja ekki. Ríkisstjórnin verður að sýna ábyrgð og gera betur.

Fáir þingmenn hafa skapað sér þá sérstöðu að tala fyrir almennum hagsmunum skattgreiðenda.
Axel Jón Fjeldsted

 

Krafa um eitt prósent aðhald í ríkisrekstri á næsta fjárlagaári er ekki nægjanleg. Gera verður ríkari kröfur um aðhald, sérstaklega í ljósi þess að reglan virðist vera sú að opinberar áætlanir ganga seint eftir. Og horft er til þess að nú er kosningavetur framundan og líklegt að fjárlagafrumvarpið taki miklum breytingum í meðferð þingsins þegar þrýstihópar leggjast á þingmenn einstakra kjördæma til að koma sínum málum á dagskrá. Þegar þingmenn vita að þeir þurfa að endurnýja umboð sitt til kjósenda eru þeir veikir fyrir. Og fáir þingmenn hafa skapað sér þá sérstöðu að tala fyrir almennum hagsmunum skattgreiðenda. Kannski er tækifæri fyrir slíkt fólk í prófkjörum á komandi vetri. 

Nærtækast er að horfa til uppgjörs ríkissjóðs fyrir árið 2011. Í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum, sem kynnt var í júní 2009, var gert ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs yrði jákvæður árið 2011. Það þýðir að þegar horft er framhjá fjármagnsliðum á að vera afgangur á ríkisrekstri. 

Þegar ríkisreikningur var kynntur fyrir árið 2011 sást að nokkuð langt var frá því að þetta markmið hefði náðst. Halli á ríkissjóði fyrir árið nam 84,4 milljörðum króna og frumjöfnuður var neikvæður um 43,2 milljarða. Í fjárlögum var hins vegar gert ráð fyrir því að frumjöfnuður yrði aðeins neikvæður um rúman milljarð og að halli á ríkissjóði yrði aðeins um 46,4 milljarðar. 

Það kann að virðast kaldranalegt að krefjast þess að ríkið dragi meira saman seglin, sérstaklega þegar margir opinberir starfsmenn telja búið að skera niður inn að beini. Það verður því að fara skipulega í gegnum alla fjárlagaliði, jafnvel umbylta ríkisrekstri og hlífa frekar mennta- og velferðarmálum þótt hemja verði útgjaldaauka í þeim málaflokkum. Annað er óhjákvæmilegt. Móta verður þá pólitísku línu að minnka umsvif hins opinbera. 

Áframhaldandi hallarekstur bitnar á fjölskyldum í landinu. Bæði ýtir vaxandi útgjaldaþrýstingur undir verðbólgu sem myndi þýða aðhaldssamari vaxtastefnu Seðlabankans. Lán almennings og fyrirtækja hækka og vaxtastig færist upp. Ríkið þarf að fjármagna fjárlagahallann með lántökum sem komandi kynslóðir þurfa að greiða. Nóg er byrðin sem börnin þurfa að bera meðal annars vegna opinberra skuldbindinga sem fáir eru tilbúnir að horfast í augu við. 

Þá hafa talsmenn Seðlabankans talsverðar áhyggjur af opinberum fjármálum fram að næstu kosningum eins og kom fram bæði þegar rit um fjármálastöðugleika var kynnt og á stýrivaxtafundum seðlabankastjóra. Már Guðmundsson sagði að til þess að afnám gjaldeyrishafta 2014 gengju upp þyrftu nokkrir hlutir að gerast. Draga þyrfti eftir föngum úr lánsfjárþörf ríkissjóðs, forfjármagna lánsfjárþörf og lengja lánstíma. Af þessum sökum væri mjög mikilvægt að haldið yrði fast við áform um afgang á ríkissjóði á árinu 2014. 

Í fyrra og á þessu ári var ríkissjóður að fjármagna sig á neikvæðum raunvöxtum vegna haftanna. Samkvæmt Seðlabankanum hverfur þetta skjól þegar höftin verða afnumin og því afar mikilvægt að nýta tímann til að draga úr lánsfjárþörf. Það mun einungis gerast með því að fjármál ríkisins leiti í jafnvægi. 

Það er því ljóst að forsendur fyrir aðhaldi upp á eitt prósent í ríkisrekstri nægja ekki. Ríkisstjórnin verður að sýna ábyrgð og gera betur.  

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.