*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Gústaf Steingrímsson
21. júní 2018 13:05

Meiri vöxtur í flugi en ferðamennsku

Á síðustu árum hefur framlag ferðalaga til vaxtar útflutnings hér á landi verið töluvert meira en framlag farþegaflutninga.

Haraldur Guðjónsson

Það hefur líklega ekki farið framhjá mörgum að hægt hefur verulega á fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi síðustu mánuði. Þessi þróun hefur gerst það hratt að telja verður töluvert mikla óvissu ríkja um formerkið á vextinum á þessu ári. Í nýrri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti í útflutningi ferðaþjónustu á næstu árum. Vöxturinn verður þó mun minni en verið hefur á síðustu árum.

Tvær hliðar íslenskrar ferðaþjónustu

Útflutningi ferðaþjónustu hefur verið oft verið skipt í tvennt. Annars vegar þjónustuliðinn ferðalög og hins vegar farþegaflutninga með flugi (hér eftir nefnt farþegaflutningar til einföldunar). Ferðalög mæla neyslu erlendra ferðamanna hér á landi utan kaupa þeirra á þjónustu íslenskra flugfélaga. Farþegaflutningar ná hins vegar utan um öll kaup erlendra aðila á flugþjónustu innlendra flugfélaga. Langmest af þeim tekjum verður til í flugi til og frá landinu hvort sem það er af hendi skiptifarþega sem einungis millilenda hér á landi eða ferðamanna sem sækja landið raunverulega heim.

Vöxtur farþegaflutninga umfram fjölgun ferðamanna

Í nýrri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans er gert ráð fyrir því að vöxtur í ferðalögum verði tiltölulega lítill á þessu ári og næstu árum. Við væntum þess að vöxtur í ferðalögum verði 2% á ári á tímabilinu 2018-2020. Til samanburðar nemur söguleg meðalfjölgun erlendra ferðamanna hér á landi tæplega 10% á ári. Annað teljum við hins vegar að verði uppi á teningnum þegar málið snýr að farþegaflugi. Þar gerum við ráð fyrir 17% vexti á þessu ári en bæði Icelandair og Wow air sem flytja um 80% allra farþega til og frá landinu gera ráð fyrir að vaxa nokkuð á þessu ári. Wow air gerir þó ráð fyrir að vaxa töluvert meira. Gert er ráð fyrir að vöxtur Icelandair verði 8% á þessu ári en tæplega þriðjungs vöxtur verði hjá Wow air. Á næstu tveimur árum gerum við ráð fyrir 8% vexti í farþegaflutningum í heild. Í því sambandi má benda á að gert er ráð fyrir áframhaldandi góðum vexti í heimsferðamennsku.

Framlag farþegaflutninga verður meira á þessu ári

Á síðustu árum hefur framlag ferðalaga til vaxtar útflutnings hér á landi verið töluvert meira en framlag farþegaflutninga. Sem dæmi hafa árlegar útflutningstekjur ferðalaga aukist um 254 ma.kr. milli áranna 2009 og 2017. Á sama tíma hafa útflutningstekjur ferðalaga aukist um 94 ma.kr. Á þessu ári gerum við ráð fyrir að útflutningur farþegaflutninga vaxi um 30 ma.kr. borið saman við 6 ma.kr. í ferðalögum. Á næstu tveimur árum verður framlag farþegaflutninga einnig töluvert mikið meira en framlag ferðaþjónustu.

Flugrekstur óvenjuhátt hlutfall af útflutningi

Hlutur farþegaflutninga með flugi í heildarútflutningi landsins nam 15% á síðasta ári en til samanburðar má nefna að álútflutningur var um 17% heildarútflutningstekna. Áhrif vaxtar í þessari grein á hagvöxt hér á landi eru því tiltölulega mikil. Hlutfallið hér á landi er með því alhæsta í heiminum.

Sé litið til gagna Alþjóðabankans yfir þá tölfræði má einungis finna tvö önnur lönd sem hafa mælst með hærra hlutfall en Ísland á síðustu árum. Þetta eru Eþíópía og Tadsjikistan. Að meðaltali er þetta hlutfall 1,9% í heiminum. Sé litið til þeirra 20 landa þar sem þetta hlutfall er hvað hæst sést að langmest af þeim eru þróunarríki eða ríki með lága landsframleiðslu á mann. Líklegt er að í umtalsverðum hluta þessara 20 landa sé staðan svo að flugrekstur sé ýmist að töluverðu leyti í eigu ríkisins eða reksturinn sé ríkisstyrktur með einhverjum hætti. Slíkt er ekki uppi á teningnum hér á landi sem gerir þessa sérstöðu enn meiri.

Mikil óvissa í flugrekstri

Saga flugsins er mörkuð mörgum gjaldþrotum, stórum sem smáum. Nýjasta dæmið er gjaldþrot Air Berlin. Í dag ríkir mikil verðsamkeppni í flugi í heiminum á sama tíma og flugrekstur er mjög háður heimsmarkaðsverði olíu sem hefur farið nokkuð hratt hækkandi á undanförnum ársfjórðungum. Hvernig stóru félögunum tveimur Icelandair og Wow air mun reiða af á næstu árum er því erfitt að segja. Hvort þau muni vaxa áfram af sama krafti og síðustu ár eða þurfi að draga saman seglin þegar fram í sækir ríkir töluverð óvissa um. Sú óvissa setur ákveðið spurningarmerki um innlenda hagþróun á komandi árum.

Höfundur er hagfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.