*

mánudagur, 22. apríl 2019
Leiðari
4. ágúst 2016 10:50

Miðstýrð meinsemd

Þegar báknið lýtur stjórn vel meinandi fólks er skaðinn sjálfkrafa takmarkaður.

Donald Trump flytur ræðu á mótmælum Teboðshreyfingarinnar
european pressphoto agency

Kolsvört skýrsla innra eftirlits Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er þörf áminning um að grundvallarreglur og fögur fyrirheit mega sín oft lítils þegar hagsmunir, fjárhagslegir og pólitískir, eru nógu miklir. Nær allar reglur sjóðsins um björgunaraðgerðir og lán til þurfandi ríkja voru þverbrotnar í afskiptum sjóðsins af málefnum Grikklands, Portúgal og Írlands og í evrukreppunni svokölluðu. AGS lét undan pólitískum þrýstingi eins ríkjahóps, öflugra Evrópuríkja, á kostnað allra annarra aðildarríkja sjóðsins.

Eins hafi sjóðurinn orðið að einhvers konar klappstýru evruverkefnisins, leitt hjá sér fjölmargar vísbendingar um yfirvofandi kreppu og stjórnendur hans verið slegnir fræðilegri blindu á grundvallaratriði gjaldmiðla.

Eins og fram kemur í umfjöllun um skýrsluna í Viðskiptablaðinu í dag eru önnur aðildarríki sjóðsins ævareið yfir því hvernig hann var notaður af innanbúðarmönnum í ESB til að bjarga myntsamstarfi evruríkjanna og bankakerfi álfunnar á annarra kostnað.

Mannlegt eðli breytist aldrei og er því barnalegt að ætla að eftir því sem stofnanir verða stærri og alþjóðlegri því minni verði líkurnar á spillingu og fagleg stjórnun aukist. Þegar svo miklu valdi er safnað á fárra hendur eykst þvert á móti hættan á því að þegar eitthvað gerist þá verði kostnaðurinn við brotin þeim mun meiri. Á þetta allt eins við um Evrópusambandið sjálft.

Þetta er einnig gott að þeir hafi í huga sem óttast nú, og það réttilega, að Donald Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna. Hann hefur í ræðu og riti ítrekað gefið ástæðu til að hafa áhyggjur af hugsanlegri forsetatíð hans. Hann daðrar ansi hressilega við vafasama þjóðarleiðtoga á borð við Vladimír Pútin og Recep Erdogan, hefur gefið tilefni til að efast um stuðning hans við Atlantshafsbandalagið, svo ekki sé talað um hræðileg stefnumál hans í bandarískum innanríkismálum.

Trump væri ekki eins hættulegur frambjóðandi og hann vissulega er ef ekki væri búið í um 100 ár að veita alríkinu bandaríska sífellt meiri völd yfir bandarískum einstaklingum og fyrirtækjum. Hefði Trump orðið forseti í Bandaríkjunum árið 1906 hefði hann ekki getað gert nema brotabrot af því sem hann segist vilja gera núna.

Þetta er stóra og langalvarlegasta hættan við það að blása út báknið. Það er nógu slæmt að slíkur uppblástur dregur máttinn úr atvinnulífinu og er letjandi fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Þegar báknið lýtur stjórn vel meinandi fólks er skaðinn sjálfkrafa takmarkaður. Þegar að því kemur hins vegar að siðlaus og metnaðargjarn einstaklingur nær að tryggja sér kjörfylgi og tekur við stjórnartaumunum er voðinn vís. Hið sorglega er að þetta kemur hinum vel meinandi alltaf á óvart.

Stikkorð: Lagarde Trump Pólitík
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim