Í sumar hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum um að hægt hafi á fjölda ferðamanna. Þó að alltaf hafi verið ljóst að 25-40% fjölgun á ári myndi ekki halda áfram inn í framtíðina hefur ýmsum brugðið við. Á móti hefur verið bent á að stóra tækifærið í íslenskri ferðaþjónustu er að ná stöðugleika til framtíðar á svipuðum slóðum og u.þ.b. 5% fjölgun ferðamanna er á alþjóðavísu. Þannig mun ferðaþjónustan festast í sessi og styrkjast sem burðaratvinnugrein í efnahagslífi þjóðarinnar og ýta undir enn frekari lífskjarabót landsmanna.

En í raun segja fjöldatölurnar ósköp lítið um stöðu ferðaþjónustunnar. Þær segja bara hvað það koma margir ferðamenn til landsins. Ekki hvað þeir gera, hvert þeir fara, hvers þeir njóta, hvernig þeir ferðast um landið, í hvað þeir kjósa að eyða peningum eða hvaða áhrif þeir og hegðun þeirra hefur á afkomu fyrirtækja og byggðarlaga.

Þess vegna er mikilvægt að horfa á aðrar breytur en fjöldatölurnar því þær geta sagt fleiri sögur. Ein þeirra er sú breyting sem orðið hefur á samsetningu ferðamannahópsins sem velur Ísland sem áfangastað og hvaða áhrif sú breyting hefur á ferðahegðun og þar með afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Í sumar hefur hlutur Bandaríkjamanna í hópi ferðamanna til Íslands aukist mikið, en hlutur Þjóðverja og annarra eldri kjarnamarkaða íslenskrar ferðaþjónustu minnkað. Í júlí fjölgaði bandarískum ferðamönnum t.d. um 27% milli ára og voru þeir því orðnir nærri 40% af heildarfjölda ferðamanna til Íslands í þeim mánuði. Á sama tíma fækkaði Þjóðverjum um nærri 20%. Ferðamenn frá N-Ameríku eru nú orðnir 1 af hverjum 3 á árinu 2018. Ljóst að bæði mismunandi verðnæmni milli markaðssvæða og breytingar á sætaframboði í flugi hefur mikil áhrif.

Áhrifin af svona breytingu eru margvísleg og felast meðal annars í ýmsum menningarmun, næmni fyrir verðhækkunum, skipulagi sumarleyfa í mismunandi löndum og ýmsu fleira. Sem dæmi má nefna að Þjóðverjar taka yfirleitt flestar gistinætur í heimsókn sinni, gjarnan 8-10, en Bandaríkjamenn mun færri, gjarnan 4-5. Þetta þýðir að Þjóðverjar, sem eru gjarnir á að ferðast í skipulögðum hópferðum, eru líklegri til að ferðast meira um landið og taka tíma í að fara út af hringveginum til að nálgast nýja staði og þjónustu. Bandarískir ferðamenn hafa hins vegar styttri sumarleyfistíma, ferðast frekar á eigin vegum og eru líklegri til að aka sjálfir. Þeir eru því ólíklegri til að þiggja þjónustu fyrirtækja utan alfaraleiða heldur ferðast mun hraðar um og nýta færri tækifæri til ævintýra á færri dögum.

Svona breyting á samsetningu ferðamannahópsins getur því haft margvísleg áhrif á fyrirtæki í ferðaþjónustu. Fyrirtæki í byggðalögum fjarri suðvesturhorninu eiga t.d. erfiðara uppdráttar með svona breytingum á hegðun ferðamanna. Slík áhrif koma t.d. mjög hratt fram hjá litlum gistihúsum á landsbyggðinni og afþreyingarfyrirtækjum sem byggja á náttúruperlum utan alfaraleiða eða langt frá höfuðborgarsvæðinu. Þessi þróun hefur því óhjákvæmilega áhrif á afkomu fyrirtækja og þar með fólks og sveitarfélaga í heild á stöðum þar sem ferðaþjónusta er orðin mikilvæg atvinnugrein í litlum samfélögum.

Áhrif á bílaleigur koma t.d. fram í því að ferðamannahópurinn í heild ekur álíka marga kílómetra um landið en á mun styttri tíma og í mun fleiri leigum. Það hefur þau áhrif að kostnaður fyrirtækjanna eykst vegna þrifa, yfirferðar, viðgerða o.s.frv. Á sama hátt versnar afkoma hópferðabifreiða og ferðaskrifstofa hratt þegar komur ferðamannahópa frá Mið-Evrópu dragast saman.

Svona dæmi sýnir að það er nauðsynlegt að fylgjast vel með svona breytingum og áhrifum þeirra og setja fjármagn í rannsóknir í ferðamálum til að byggja undir stefnumarkandi ákvarðanir stjórnvalda.

Efnahagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar krefst þess að stjórnvöld og atvinnugreinin horfi mjög skýrt inn í framtíðina. Þar þarf að svara ýmsum spurningum, t.d. hvernig á að haga markaðsstarfi fyrir áfangastaðinn Ísland og mismunandi svæði landsins þannig að það byggi undir þá framtíðarsýn sem við viljum stefna að? Á að leggja sérstaka áherslu á að ýta undir komu ferðamanna frá ákveðnum markaðssvæðum í samhengi við markmið um uppbyggingu í greininni eða á ákveðnum svæðum landsins?

Hvernig á stefnumörkun stjórnvalda um uppbyggingu innviða að fara saman við markaðsstarf og það hvers konar samsetningu ferðamannahópsins við viljum sjá? Hvers konar ferðamenn viljum við sjá? Og hvað ætlum við þá að gera til að fá þá til að koma hingað frekar en aðra? Og síðast en ekki síst, hvernig eiga stjórnvöld að horfa til þessara þátta þegar að því kemur að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni áfangastaðarins Íslands til að ferðaþjónustan verði áfram til framtíðar hornsteinn efnahagslífs og uppbyggingar í atvinnulífi um allt land?

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.