*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Leiðari
19. ágúst 2018 16:05

Mildari tónn

Það sem er merkilegt við umræðuna nú er að spjót verkalýðsforystunnar hafa að miklu leyti beinst að stjórnvöldum.

Á mánudaginn funduðu fjármálaráðherra, forsætisráðherra og samgönguráðherra með fulltrúum heildarsamtaka atvinnulífsins.
Haraldur Jónasson

Mikið hefur verið rætt um kjarasamningana sem losna á almenna markaðnum um næstu áramót. Það er fullkomlega eðlilegt enda er nánast sama við hvern er talað í viðskiptalífinu, allir hafa áhyggjur af því hvernig kjaraviðræðurnar muni þróast. Áhyggjurnar eru skiljanlegar. Fyrirtækin í landinu eru komin að þolmörkum enda hefur launakostnaður þeirra hækkað gríðarlega síðustu ár.

Ástæðan er sú að árið 2015 var samið um 30% launahækkun á þremur árum. Það var bratt og raunar má færa sterk rök fyrir því að það hafi verið of bratt. Hin dæmigerða íslenska leið hefur verið að hækka laun í uppsveiflu. Ef litið er yfir hagsöguna þá hefur þetta haft í för með sér aukinn kaupmátt í skamman tíma en síðan hefur allt farið til andskotans. Viðskiptahallinn hefur fljótlega aukist, krónan veikst og verðbólgan étið upp kaupmáttaraukninguna.

Eina undantekningin frá þessu eru samningarnir 2015 en eins og áður hefur verið bent á á þessum vettvangi þá hefur launafólk verið einstaklega heppið á síðustu árum því ytri þættir hafa spilað með okkur. Ferðaþjónustan fór á flug með tilheyrandi innflæði gjaldeyris, krónan styrktist, olíuverð lækkaði og Costco kom til landsins með tilheyrandi áhrifum á smásölumarkaðinn.

Þetta eru þættir sem engum hefði dottið í hug að setja inn í forsendur kjarasamninga um verðbólguspá. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, bendir líka á það í blaðinu í dag að í aðdraganda kjarasamninganna árið 2015 hafi hagfræðingar allra heildarsamtakanna skrifað minnisblað, þar sem fram kom ákveðin verðbólguspá sem miðaðist við þær launahækkanir sem kjarasamningarnir síðan kváðu á um. Samkvæmt þessu minnisblaði var gert ráð fyrir verulegri verðbólgu árin 2016 til 2018.

Væringar hafa verið innan verkalýðshreyfingarinnar. Á rúmu ári hafa nýir formenn tekið við stjórnartaumunum í stórum verkalýðsfélögum. Ragnar Þór Ingólfsson er nú formaður VR og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.

Síðasta vetur og framan af sumri töluðu forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar um að framundan væri frostaveturinn mikli ef ekki yrði farið að kröfum þeirra í samningaviðræðunum sem hefjast eftir rúma fjóra mánuði. Bentu þeir á ákvarðanir kjararáðs og þá staðreynd að laun þingmanna hafi meðal annars verið hækkuð um ríflega 40%.

Það sem er merkilegt við umræðuna nú er að spjót verkalýðsforystunnar hafa að miklu leyti beinst að stjórnvöldum frekar en atvinnurekendum. Það var því að mörgu leyti skynsamlegt hjá ríkisstjórninni að boða til reglulegra funda í ráðherrabústaðnum með fulltrúum heildarsamtaka atvinnulífsins. Byrjað var að funda um áramótin og nú hafa tíu slíkir fundir verið haldnir.

Nú, síðustu vikur, má greina örlítið mildari tón hjá verkalýðsforkólfunum. Hafa þeir lagt aukna áherslu á hlutverk stjórnvalda í viðræðunum og talað mikið um nauðsyn þess að laga bóta- og skattkerfið með ríkri áherslu á að bæta hag hinna lægst launuðu. Það er augljóst að þennan tón má rekja til fundanna í ráðherrabústaðnum því fjármálaráðherra hefur talað í þessa veru. Það er mjög jákvætt ef umræðan heldur áfram að þróast í þessa átt því það er alveg ljóst að íslenskt atvinnulíf mun engan veginn geta staðið undir tugprósenta launahækkunum.  

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim