Baráttumenn fyrir því að leggja íslensku krónuna niður byggja mál sitt að verulegu leyti á misskilningi og jafnvel staðleysum. Þeir halda því fram að krónan valdi sveiflum og óstöðugleika í efnahagslífinu. Þeir fullyrða að krónan sé orsökin fyrir hærri vöxtum á Íslandi en í nágrannalöndunum. Hvort tveggja er í grundvallardráttum rangt.

Íslenskt efnahagslíf er tiltölulega óstöðugt fyrst og fremst af tveimur ástæðum: Fyrri ástæðan er að hagkerfið er smátt. Því eru grunnatvinnuvegir fáir og miklu færri en í stærri hagkerfum. Afleiðingin er meiri óstöðugleiki því færri atvinnuvegir eru til staðar til að jafna sveiflur hvers annars.

Að þessu leyti er Ísland líkt einstökum héruðum innan stærri landa þar sem hagsveiflur eru gjarnan miklu meiri en í landinu í heild og síst minni en á Íslandi þrátt fyrir sama gjaldmiðil. Síðari ástæðan er að grunnatvinnuvegir á Íslandi eru í óvenju ríkum mæli byggðir á náttúrugæðum. Náttúran er eðli sínu samkvæmt misgjöful. Það veldur einnig sveiflum í efnahagslífinu.

Hvorug þessara ástæðna hefur neitt með krónuna að gera. Hagsveiflur af þeirra völdum myndu eiga sér stað hvaða gjaldmiðill sem notaður væri á Íslandi. Ekki stafaði ein dýpsta kreppa sem riðið hefur yfir Ísland, Móðuharðindin alræmdu, af því að hér var notuð íslensk króna. Raunar var þá notaður danskur gjaldmiðill og ekki kom hann í veg fyrir kreppuna.

Tæplega halda menn að sá mikli uppgangur sem varð í þjóðarbúskapnum vegna gríðarlegrar síldargengdar á sjöunda áratugnum og síðan samdráttur er síldin hvarf hefði ekki átt sér stað ef hér hefði verið notuð erlend mynt.

Þannig mætti fara yfir hverja hagsveifluna á fætur annarrar á Íslandi. Raunveruleikinn er auðvitað sá að þær eiga rætur sínar að rekja til breytinga í raunverulegum framleiðslutækifærum og framleiðslugetu en ekki þess gjaldmiðils sem notaður hefur verið í landinu.

Rétt er að allmörg undanfarin ár hefur almennt vaxtastig á Íslandi verið hærra en í mörgum Evrópulöndum. Ástæðan fyrir þessu liggur hins vegar ekki í eðli íslensku krónunnar. Ástæðan er sú að hið opinbera, þ.e. sá armur þess sem nefnist Seðlabanki Íslands, hefur einfaldlega ákveðið að hafa háa vexti á Íslandi.

Til að sjá að háir vextir eru ekki náttúrulögmál sem fylgir krónunni nægir að skoða vextina fram að því að hávaxtastefna Seðlabankans var tekin upp árið 2002. Fram að þeim tíma voru vextir á Íslandi að jafnaði lágir, sérstaklega raunvextirnir, sem voru langtímum saman neikvæðir. Það er ekki heldur rétt, þótt Seðlabankinn reyni að halda því fram, að háir vextir séu nauðsynlegir vegna þess hvað krónan er smá.

Þvert á móti má færa að því sterk rök að það sé einmitt vegna smæðar myntarinnar sem ófært sé að halda uppi hærri vöxtum á Íslandi en annars staðar. Fjölmargir aðrir litlir gjaldmiðlar eru notaðir í heiminum. Þeirra á meðal eru t.a.m. norska og sænska krónan. Í Noregi eru seðlabankavextirnir nú um 0,5% og í Svíþjóð -0.5%.

Hlutverk gjaldmiðla er að greiða fyrir viðskiptum og þar með efnahagslegri velmegun. Útgefandi gjaldmiðils hefur viss tækifæri til að hafa áhrif á umfang viðskipta með því að hagræða framboði gjaldmiðilsins (þ.e. peningamagni) og verði hans (þ.e. vöxtum). Þetta er kallað peningastjórn. Skynsamleg peningastjórn tekur mið af gangi efnahagslífsins á viðkomandi myntsvæði.

Í hagfræði eru til kenningar um hagkvæmustu myntsvæði. Þar togast á kostir þess að eiga í viðskiptum milli landsvæða í einni mynt og ókostir þess að þurfa að hafa sömu peningastjórn í þeim báðum. Eitt af skilyrðunum fyrir því að hagkvæmt geti verið að sameina myntir tveggja landsvæða er að hagsveiflur viðkomandi svæða séu svo samstilltar svo að sama peningastjórn henti báðum.

Hvað Ísland og flest nágrannalöndin beggja vegna við Atlantshafið snertir er þessu ekki að heilsa. Þvert á móti er það eiginlega merkilegt hversu lítil (og jafnvel neikvæð) fylgni er á milli hagsveiflna á Íslandi og hagsveiflna í Evrópu og Norður-Ameríku.

Því myndi peningastjórn þessara landa að öllum líkindum henta Íslandi afar illa og hugsanlega valda alvarlegum búsifjum. Efnahagsþróunin í Grikklandi í kjölfar fjármálahrunsins er dæmi um hversu illa getur farið þegar sjálfstæðum gjaldmiðli hefur verið varpað fyrir róða.

Höfundur er prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands.