Sú ríkisstjórn sem nú er tekin við völdum hefur fjölmörg tækifæri til auka hagsæld hér á landi og ekki síður til að breyta og bæta andrúmsloftið í þjóðfélaginu.

Það eitt ætti í raun að vera auðvelt nú þegar Jóhanna Sigurðardóttir hefur hætt afskiptum af stjórnmálum.

En það eru fleiri tækifæri sem eru til staðar. Það eru tækifærin til að minnka reglur og fækka lögum í þeim tilgangi að auka frelsi einstaklinganna. Það er eitthvað sem fæstir stjórnmálamenn vilja ræða og síður framkvæma. Við erum orðin of vön því að ríkið hugsi fyrir okkur og leggi fram lög og reglur í þeim tilgangi að vernda okkur – í flestum tilvikum fyrir okkur sjálfum. Vef-Þjóðviljinn benti nýlega á ágætis dæmi um forsjárhyggju ríkisins þegar rifjað var upp að Íslendingur hefði nýlega gert sér ferð upp á tind Everest, sem er lífshættulegur leiðangur. „Fjölmargir hafa látið lífið við tilraunir sínar. Jarðneskar leifar þeirra munu víða blasa við á leiðinni, öðrum fjallgöngumönnum til umhugsunar. Það er sérstakt til þess að hugsa að ef að Íslendingarnir sem komust á tindinn vilja, þegar þeir koma heim til Íslands, halda upp á afrekið með því að fá sér veglegan skammt af sænsku neftóbaki í báðar nasir, þá rekast þeir á vegg. Slíkt þykir vera of mikil áhætta fyrir líf og heilsu hvers manns. Þess vegna er slík vara bönnuð á Íslandi.“

Einhverjum kann kannski að þykja þetta öfgafull eða jafnvel barnaleg dæmi. Þannig bregðast forsjárhyggjumenn oftast við þegar einhver gagnrýnir tillögur þeirra. Það er fátt hættulegra en stjórnmálamaður sem leggur fram tillögur í „góðum tilgangi“ eins og það er kallað. Það felur oftar en ekki í sér frelsisskerðingu fyrir einhvern annan.

Ríkið er ekki mamma okkar. Það er ekki hlutverk ríkisins að sjá til þess að menn fari sér ekki að voða eða taki sér fyrir hendur hættuleg verkefni. Stjórnmálamenn eða verkefnalitlir embættismenn vita ekki endilega betur en ég og þú hvað okkur er fyrir bestu.

Þeir hafa því engan rétt til þess að setja lög um það sem við megum gera, svo lengi sem við erum ekki að skaða aðra. Þetta leiðir að lokum til þess að ábyrgðartilfinning einstaklinga minnkar.

Pistill Gísla birtist í Viðskiptablaðinu 6. júní 2013. Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .