Uppbygging fiskeldis hér á landi hefur verið til umræðu á umliðnum misserum. Þekki fólk ekki vel til mætti stundum ætla að litlar kröfur séu gerðar til starfseminnar af hálfu hins opinbera. Því fer fjarri lagi, sem betur fer.

Meginstefið í löggjöf um fiskeldi er að áhrif starfseminnar á umhverfi verði minniháttar; annars vegar að lágmarka áhrif fiskeldis á lífríki hafsins og hins vegar að lágmarka áhrif fiskeldis á villta laxastofna. Einhver kann þá að spyrja hvernig þessi áhætta sé lágmörkuð. Erfitt er að útskýra ferlið í stuttu og einföldu máli. En hér skal gerð tilraun til þess.

Hafrannsóknastofnun framkvæmir burðarþolsmat, sem ætlað er að meta þol hafsvæða og fjarða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið. Hafrannsóknastofnun framkvæmir einnig áhættumat, sem ætlað er að meta hættu á erfðablöndun eldislax við villta stofna. Hafsvæðum er síðan skipt af hálfu stjórnvalda með hliðsjón af burðarþoli. Skipulagsstofnun framkvæmir umhverfismat. Því er meðal annars ætlað að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum fyrirhugaðs fiskeldis. Matvælastofnun veitir síðan rekstrarleyfi og setur ýmis skilyrði fyrir starfseminni, auk þess sem Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi, þar sem einnig eru sett ýmis skilyrði fyrir starfseminni.

Áður en nokkur lax er í sjó kominn hafa því hið minnsta fjórar opinberar stofnanir metið áhrif eldisins á umhverfi og sett ýmiss konar skilyrði. Allt til þess að koma í veg fyrir að umhverfinu, þ.m.t. lífríki í sjó og villtum laxastofnum, stafi hætta af. Þetta ferli tekur að jafnaði um 7-8 ár.

Hér fer fjarri að vaðið sé áfram í óðagoti. Regluverkið er raunar þannig að verulegt fjármagn, úthald, þolinmæði og þrautseigju þarf til að komast á leiðarenda. Það vill stundum gleymast.