*

þriðjudagur, 22. janúar 2019
Týr
11. desember 2017 12:59

Múgræðið

Meira að segja Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lét eins og Steinunn hefði nú bara kallað yfir sig atlögu mótmælenda.

vb.is

Nú er mikið rætt um atgangshörkuna gagnvart Steinunni Valdís Óskarsdóttur upp úr hruni, þegar mótmælendur sátu um heimili hennar og hröktu hana af Alþingi. Sami hópur mótmælti við heimili Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, en ekki löngu síðar var einnig mótmælt við heimili Steingríms J. Sigfússonar.

                                        ***

Tónninn hafði verið sleginn árinu áður, þegar aðgerðasinnar söfnuðust við heimili dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar, en síðan tók við hrina árása á heimili háttsettra bankamanna, útrásarvíkinga og yfirmanna orku- og álfyrirtækja. Fyrst og fremst með málningarslettum á hús og bíla, en Rannveig Rist fékk enn fremur sýruslettu í andlitið, sem er alvarlegasta atvikið í þessari sorgarsögu.

                                        ***

Þetta var ömurleg þróun, sem gekk í berhögg við gildi lýðræðis og mannréttinda sem íslenskt samfélag er reist á. Allir eiga rétt á friðhelgi heimilis og fólk í ábyrgðarstöðum verður að geta tekið erfiðar ákvarðanir, án þess þurfa að óttast um öryggi og heill fjölskyldu sinnar. Og það verður að vera algerlega á hreinu að stjórnmálamenn verði ekki reknir úr starfi nema af kjósendum í kosningum. Annars ríkir ekki lýðræði heldur múgræði og þá er enginn óhultur.

                                        ***

Það er skrýtið að sjá suma af þessum mótmælendum stíga fram nú og sjá ekki eftir neinu nema að fólk skuli vera foj út í sig. En höfum hugfast að á þeim tíma lét meira að segja Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra eins og Steinunn hefði nú bara kallað þetta yfir sig. Skömm Jóhönnu mun lengi vera uppi. 

                                        ***

Það þýðir samt ekki að láta eins og þetta sé löngu liðin saga, eitthvað sem hafi verið bundið við daga bræðinnar skömmu upp úr hruni. Það er nefnilega ekki lengra síðan en í fyrra, að mótmæli voru skipulögð við heimili stjórnmálamanna. Þar eins og jafnan voru að verki laustengdir pólitískir aðgerðahópar á borð við Beinar aðgerðir, Andþingi, Jæja-hópinn, Svartsokku og No Borders, sem margir eru nátengdir Pírötum, en þar finnst líka fólk úr öðrum stjórnmálahreyfingum á vinstri kantinum, svo sem Sósíalistaflokknum, Lýðræðisvaktinni, Vinstrigrænum og jafnvel Samfylkingunni. Ærlegir stjórnmálaflokkar geta ekki liðið slíkar gælur við múgræðið, persónuofsóknir og ógn við heimili stjórnmálamanna. Þær lýsa andstöðu við mannhelgi og lýðræðið sjálft.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.