Það er öruggast að taka það fram strax að ég hef engin hagsmunatengsl við ofan nefnda húsgagnaverslun. Ég er reyndar að fjórðungi af sænsku bergi brotinn en frekari tengsl á ég ekki við fyrirtækið og reyndar skal ég viðurkenna að heimsóknir þangað eru frekar neðarlega á afþreyingaróskalista mínum. Í starfi mínu hjá Orkusetri hafa leiðir okkar þó óbeint skarast þrisvar sinnum. Orkusetur vinnur að bættri orkunýtni og umhverfisvænum lausnum í orkumálum.

Eitt af eldri verkefnum Orkuseturs snéri að innleiðingu orkunýtnari ljósapera. IKEA fór alla leið í þeim málum þ.e.a.s bauð ekki bara upp á orkunýtnari perur heldur fór út í heilmikinn kostnað og vesen til að fræða viðskiptavini um þessa nýju tækni. Hér var ekki endilega um aukin viðskipti að ræða því að nútímaperurnar voru bara að koma í staðinn fyrir aðra sölu. Fyrirtækið hefði getað sparað sér kostnað og látið viðskiptavinina sjálfa um að kynna sér málið og mynda mögulega eftirspurn löngu, löngu síðar.

Steikingarolía á skip og strætisvagna

Annað verkefni snéri að framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti sem fyrirtækið Orkey á Akureyri framleiðir úr notaðri steikingarolíu. Framleiðslan hefur m.a. verið notuð á skip útgerðarfélagsins Samherja og á strætisvagna bæjarins. Svo vill til að IKEA rekur einn stærsta veitingastað Íslands og því er talsvert magn af notaðri steikingarolíu sem fellur til í rekstrinum. Orkey leitaði því til IKEA um hráefnisöflun og viðbrögðin voru afar góð þrátt fyrir auka vesen sem söfnunin í raun þýddi.

Þriðja verkefnið sem Orkusetur vinnur að er rafvæðing samgangna. Almenn uppbygging innviða er ein af forsendum fyrir innleiðingu rafbíla með tilheyrandi umhverfisávinningi. IKEA sat ekki hjá í þeim efnum frekar en fyrri daginn og hefur sett upp gríðarlega umfangsmikla hleðslumöguleika fyrir starfsmenn og viðskiptavini á bílstæðum fyrirtækisins. Einhverra hluta vegna vakti samt nýja eldsneytisstöð Costco, sem selur gamaldags og mengandi bensín og dísil, meiri athygli þó að IKEA væri nú að gefa viðskiptavinum nútímalega og umhverfisvæna orku.

Mikið hlýtur þessi húsgagnaverslun að ganga illa þegar hún er stöðugt að fara út í dýrar fjárfestingar og vesen í nafni umhverfis og framfara. Eða hvað? Getur verið að að fyrirtækið meti umhverfismál, sjálfbærni og nútímavæðingu sem verðmæti? Getur verið að velgengni fyrirtækisins byggi að hluta einmitt á þessu viðhorfi. Í mínum huga er þetta afar einfalt, umhverfismál og fagmennska eru samnefnarar. Að gera vel í umhverfismálum sýnir getu fyrirtækja til að standa sig almennt vel.

Fyrirtæki sem geta ekki innleitt úrbætur í umhverfismálum eru heldur ekki líkleg til að ráða vel við aðlögun að fjölbreyttu og síbreytilegu umhverfi framtíðarinnar. Fyrirtæki verða að horfa á rekstrarumhverfi sitt í stærra samhengi en sem nemur einu excel-skjali. Fyrirtæki eru hluti af samfélagi en ekki einhverjar óvirkar einingar á hliðarlínunni.Við þurfum að byggja upp umhverfisvænna samfélag og þá gildir að vera drifkraftur en ekki dragbítur. Kæru fyrirtæki þarna úti, hættið nú að draga lappirnar í umhverfismálum og streitast á móti framörum. Nennið þið ekki bara að vera eins og IKEA.

Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs