Hér var í liðinni viku fjallað um falsfréttir og þar kom Donald J. Trump Bandaríkjaforseti af augljósum ástæðum nokkuð við sögu. Rekja má í löngu máli hvernig hann tengist ýmsum falsfregnum, bæði sem umfjöllunarefni og jafnvel frumkvöðull. Eins og bent var á hér þurfa fjölmiðlar sjálfir þó fyrst og fremst að gæta sín,þeir þurfa að segja réttar og sanngjarnar fréttir og gæta þess að afvegaleiðast ekki í fréttahasarnum. Gæta þess að sjónarspilið verði ekki aðalefni fréttanna. Þar þurfa staðreyndir og málefnalegt inntak vitaskuld að vera í brennidepli.

Í hita leiksins getur það orðið erfitt og auðvitað er það þannig að í miðri kosningabaráttu skipta einstakar orðaskylmingar, skoðanakannanir og innanbúðarkrytur máli. En menn verða að gæta þess að skilja hismið frá kjarnanum.

Ekki síst á það við þegar opinbert líf og einkalíf, þjóðmálaumræða og einkasamræður, skarast með þeim hætti sem orðið er á öld félagsmiðla. Sérstaklega þegar fram á sjónarsviðið eru komnir menn á borð við Dónaldinn, sem notar félagsmiðla sem sinn helsta vettang, jafnt í daglegu orðaskaki og í milliríkjadeilum.

Með því þurfa fjölmiðlar auðvitað að fylgjast, líkt og þegar fríkið í Washington sendir fríkinu í Norður-Kóreu tóninn og nánast skorar á hann í mannjöfnuð með kjarnorkuvopnum með orðfæri sem ætti að hræra í byltingarvörðum #metoo.

En þetta er flóknara en svo að fjölmiðlum dugi að fylgjast með Twitter-ókvæðum covfefemannsins í Hvíta húsinu, segja frá því nýjasta og hneykslast á manninum. Þeir verða að hafa í huga í hvaða tilgangi hann sendir rausið frá sér og gæta þess að mæla það ekki allt upp í honum umhugsunarlaust. Því má nefnilega ekki gleyma að á því sviði er snilligáfa forsetans nánast óumdeilanleg.

Þetta sást vel á dögunum, þegar Trumpurinn sá sérstaka ástæðu til þess að úttala sig um það við heimsbyggðina á Twitter, að hann væri ekki aðeins snillingur, heldur sérdeilis stöðugur snillingur.

Það er auðvelt að hlæja að þessu og hneykslast, sérstaklega ef menn eru á því að maðurinn sé bæði fáviti og óstöðugur á andlega sviðinu. En þá er hollt að minnast þess að það var einmitt gorgeir og gífuryrði af því taginu, sem kom Trump í stjórnmálaumræðuna á sínum tíma og hélt honum í forgrunni frétta af forsetakosningunum, allt frá forkosningum og alla leið inn í Hvíta húsið. Heldur einhver ennþá að það hafi verið alveg óvart hjá þessum lunkna sölumanni og raunveruleikasjónvarpsstjörnu?

Í því samhengi geta menn svo velt fyrir sér hver sé mesti kjáninn þegar tístið um snilligáfu forsetans er annars vegar: hann eða allir heimsins fréttastjórar sem settu nafn Trumps orðið „snillingur“ saman í forsíðufyrirsagnir blaða og fyrstu fréttir ljósvakamiðla.

Á meðan var þá ekki talað um önnur og verri mál tengd forsetanum og föruneyti hans þá dagana. Þar var af nógu að taka sem fyrri daginn.

***

Sagt var frá sakamáli á vef Vísis á dögunum, en fyrirsögnin var upphaflega „Sjóari lagði hendur á barnsmóðurina“. Án þess að ástæða sé til þess að reka málavexti nánar hér, þá urðu ýmsir til þess að gera athugasemd við fyrirsögnina, að með henni væri að ástæðulausu verið að draga starfsgrein mannsins inn í málið, á einhvern hátt verið að niðra sjómenn eða ámóta.

Nú er það rétt, að af fréttinni verður ekki skilið að starf mannsins komi málinu beint við — svona að öðru leyti en að reglubundinn aðskilnaður hjóna getur leitt til afbrýðisemi og togstreitu — og Vísir breytti raunar fyrirsögninni síðar. Á hinn bóginn er óþarfi að amast við því að fréttir greini frá of mörgum eða of nákvæmum staðreyndum. Hefði verið tilgreint að maðurinn hefði verið frá tilteknu byggðarlagi hefði engum dottið til hugar að verið væri að koma óorði á plássið með að nefna það.

Í fréttinni var svo vikið að því að umrætt atvik hefði hent þegar maðurinn var í landi eftir sex vikna túr úti á sjó, líkt og tilgreint væri í dómnum. Án þess að í því felist minnsta afsökun, þá kann lesendum að þykja einhver skýring í þeirri vitneskju, a.m.k. um mögulega málsvörn mannsins (sem dómnum þótti ljóslega fremur fáfengileg).

Þetta er sígilt vandamál fjölmiðla. Þeir þurfa að segja fréttir, greina frá því sem máli skiptir, en það er nú oft þannig að einhverjum þykir þá of mikið sagt. Hvort heldur er vegna þess að þá sé á einhverja hallað, böndin berist of nærri þeim sem um er fjallað… eða of lítið og því allir sjóarar í einverju plássinu undir grun!

***

Sú frétt var sögð í Ríkissjónvarpinu að héðan í frá fengju stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í fótbolta sömu bónusa og strákarnir okkar í karlalandsliðinu.

Það var raunar einstaklega slappt hjá RÚV að geta ekki fengið það fram hvaða upphæðir væri um að ræða, en viðmælanda var bara eftirlátið að vilja ekki ræða það, eins og það væri algert aukaatriði, sem engum kæmi við!

En það skrýtnasta í þessu voru orðaskipti Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur og Kristjönu Arnarsdóttur í kynningu viðtalsins, þar sem þær kepptust við að dásama þetta frábæra framfaraskref. Ekki skal dregið í efa að það sé allt gott og blessað, en það er ekki í verkahring fréttamanna Ríkisútvarpsins að lýsa skoðunum sínum eða að segja áhorfendum hvað þeim eigi að finnast um fréttirnar.

***

Talsvert hefur verið fjallað um forystumál Sjálfstæðismanna í Reykjavík (þar sem Kjartan Magnússon, bróðir undirritaðs, hefur m.a. gefið kost á sér). Meðal annarra frambjóðenda er Eyþór Arnalds, einn eigenda Morgunblaðsins, og einnig hugleiddi Vala Pálsdóttir, formaður Landsambands Sjálfstæðiskvenna, að gefa kost á sér, en hún er tengd öðrum eigendum blaðsins. Þegar Morgunblaðið sagði frá því öllu hefði verið rétt að nefna þær tengingar við blaðið.

***

Fyrirsögn vikunnar var af sama máli, en hana átti vefritið Eyjan, sem greindi frá því að Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og blaðamaður, hugleiddi framboð í leiðtogakjöri Sjálfstæðismanna, en vildi lítið um fregnir af því segja: „Verst allra frétta“.