*

mánudagur, 17. desember 2018
Diljá Helgadóttir
14. febrúar 2018 11:31

Nokkur orð um gilda ábyrgð og annmarka á greiðslumati

Við lánveitingar hér á landi hefur verið algengt að krefjast ábyrgðarmanna til tryggingar lánum einstaklinga og fyrirtækja.

Haraldur Guðjónsson

Mikið hefur verið reynt á gildi ábyrgða og annmarka á greiðslumati í dómaframkvæmd Hæstaréttar síðustu misseri, einkum eftir efnahagshrunið haustið 2008. Í kjölfarið hafa verið gerðar talsverðar breytingar á lögum og reglum, neytendum og ábyrgðarmönnum til hagsbóta. Meðal annars voru sett lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og neytendalán nr. 33/2013 en við lánveitingar hér á landi hefur verið algengt að krefjast ábyrgðarmanna til tryggingar lánum einstaklinga og fyrirtækja.

Lítið sem ekkert hefur verið skrifað um þetta efni þrátt fyrir að fjölmörg álitaefni hafi komið upp í gegnum árin. Í grein þessari verður í stuttu máli farið yfir þau sjónarmið sem koma til skoðunar við mat á gildi ábyrgðar, í tengslum við annmarka á greiðslumati, þegar þess er krafist að ábyrgð sé vikið til hliðar (í heild eða hluta) með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. 

Ábyrgð í þessum skilningi getur falist í að þriðji maður gangist í persónulega ábyrgð fyrir kröfu eða tryggingin felist í veðrétti í eign hans. Persónuleg ábyrgð hefur verið skilgreind með tvennum hætti, annars vegar sem einföld ábyrgð og hins vegar sem sjálfskuldarábyrgð. Einföld ábyrgð felur í sér að ábyrgðarmaður verður ekki krafinn efnda fyrr en ljóst er að skuldari getur ekki greitt skuldina, andstætt við sjálfskuldarábyrgð þar sem hægt er að krefja ábyrgðarmann efnda strax og í ljós kemur að aðalskuldari hefur ekki staðið við skyldu sína.

Með þessum hætti tryggja lánveitendur hagsmuni sína. Vegna ábyrgðarinnar kann lánveitanda að vera skylt að framkvæma greiðslumat á lántaka, þá er skuldbinding ábyrgðarmanns ávallt háð því skilyrði að aðalskuldari hafi vanefnt skuldbindingu sína. Umræðan um gildi ábyrgða hefur verið í brennidepli og koma ýmis atriði til skoðunar við mat á hvort víkja eigi ábyrgðarskuldbindingu til hliðar vegna annmarka á greiðslumati. 

Aðstöðumunur ábyrgðarmanna og lánveitanda kemur alla jafna til skoðunar. Á hinn bóginn virðist jafnframt mega ganga út frá að aðstöðumunur nægi ekki einn og sér til að ógilda ábyrgð. Mikilvægt er að tengsl séu á milli aðstöðumunar og þeirrar staðreyndar að viðkomandi ákvað að gangast undir ábyrgð, þ.e. að aðstöðumunur hafi ekki haft áhrif á framvinduna.

Annað atriði sem kemur til skoðunar við mat á gildi ábyrgðar er þegar greiðslumat byggist á röngum eða villandi upplýsingum. Talið hefur verið eðlilegt að lánveitandi reiði sig á upplýsingar frá lántaka. Lánveitandi verður þó að gæta að upplýsingarnar séu til þess fallnar að þjóna tilgangi greiðslumats. Þá er lánveitandi ekki talinn eiga að bera hallann af því gefi lántaki upp rangar forsendur í greiðslumati. 

Velta má upp þeirri spurningu hvort fjölskyldutengsl lántaka og ábyrgðarmanna, og viðlíka tengsl, geti leitt til þess að ábyrgðarmaður hafi vitað eða mátt vitað um fjárhagsstöðu lántaka. Á þetta hefur reynt í dómaframkvæmd og koma ýmis atriði til skoðunar, þ.e. hvort aðilar hafi staðið sameiginlega að skattskilum og/eða hvort ábyrgðarmaður hafi mátt þekkja fjárhagsstöðu lántakans. 

Einnig hafa verið hömlur taldar á því hversu lengi sú skylda hvíli á lánveitendum að varðveita gögn sem greiðslumat styðst við. Í þessu samhengi er vert að benda á að með tilkomu laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda er lánveitendum skylt að varðveita gögn sem varða fasteignalán út lánstímann. Þá er algengt að ábyrgðarmenn beri fyrir sig að þeir hafi undirritað greiðslumat eftir útgáfu skuldabréfs, en með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur það ekki verið talið skipta máli.

Að lokum kann tómlæti ábyrgðarmanns að skipta máli við mat á gildi ábyrgðar vegna annmarka á greiðslumati. Í ýmsum dómum hafa ábyrgðarmenn ekki verið taldir hafa firrt sig rétti sökum tómlætis, en á hinn bóginn má draga þá ályktun að ábyrgðarmaður megi ekki draga óhóflega langan tíma að kanna réttarstöðu sína eftir að honum gafst tilefni til, t.d. vegna vanskila lántaka. 

Í þessum pistli hefur verið leitast við að varpa ljósi á þau sjónarmið sem oftast reynir á þegar deilt er um gildi ábyrgða og annmarka á greiðslumati. Ljóst er að fjölmörg atriði koma til skoðunar og er matið jafnan atviksbundið, sem leiðir raunar að eðli sanngirnisreglu 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Að lokum bendir höfundur jafnan á grein sína „Gildi ábyrgða og annmarkar á greiðslumati“ sem kom út í 1-2. hefti 13. árgangs Tímarits Lögréttu. Í þeirri grein er ennfremur reynt að kryfja álitaefnið til mergjar með tilliti til dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands.

Höfundur er meistaranemi í lögfræði

Stikkorð: ábyrgðarmenn vanskil lántaka
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.