*

laugardagur, 20. apríl 2019
Leiðari
2. febrúar 2018 13:43

Nú þarf að gera eitthvað

Það er ósanngjarnt að RÚV, með fjögurra milljarða forgjöf, keppi við einkafyrirtæki um rándýran útsendingarétt frá stórviðburðum.

Haraldur Guðjónsson

Skýrsla um rekstrarumhverfi fjölmiðla leit loks dagsins ljós fyrir viku. Rúmt ár er síðan Illugi Gunnarsson, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, skipaði nefnd til að fjalla um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Nefndin átti upphaflega að skila af sér síðasta sumar en það dróst þar til nú.

Vandi einkarekinna fjölmiðla endurspeglast ágætlega í þeirri staðreynd að á þriggja ára tímabili, frá 2014 til 2016, voru einungis tveir fjölmiðlar af ellefu réttu megin við núllið öll árin. Miklar væringar hafa verið í þessum markaði undanfarin misseri. Í fyrra varð Fréttatíminn gjaldþrota, sem og Pressan og sjónvarpsstöðin ÍNN .

Það liggur því í augum uppi að eitthvað þarf að gera. Ástandið á fjölmiðlamarkaði er ekki eðlilegt. Nefndin leggur fram nokkrar tillögur sem flestar ef ekki allar eru góðar.

Í fyrsta lagi er það stóra spurningin um RÚV og stöðu ríkisrekna fjölmiðilsins á auglýsingamarkaði. Í stuttu máli þá leggur meirihluti nefndarinnar til að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði, og ekki bara það, heldur er lagt til að hann fari hið fyrsta af þessum markaði.

Óhætt er að taka undir þetta sjónarmið enda hefur Ríkisútvarpið óeðlilegt forskot á aðra fjölmiðla, forskot sem skekkir alla samkeppni. Tekjur Ríkisútvarpsins af auglýsingum og kostunum voru um 2,2 milljarðar króna árið 2016. Nefndin áætlar að það hafi verið um 20% af birtingarfé auglýsinga á innlendum markaði og um 44% af birtingarfé auglýsinga í útvarpi og sjónvarpi. Þessar hlutfallstölur eru alveg ótrúlega háar. Og þar með er ekki öll sagan sögð því RÚV fær um fjóra milljarða árlega frá skattborgurum. Hver einasti skattskyldi einstaklingur, sem er með meira en 1,7 milljónir í árstekjur, þarf að greiða um 17 þúsund króna nefskatt sem rennur beint til RÚV. Auk þess ber lögaðilum að greiða þennan skatt.

Ríkisútvarpið starfar samkvæmt lögum og í þeim er hlutverk miðilsins tíundað sem og skyldur hans. Hvergi í þessum lögum er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli vera á auglýsingamarkaði.

Daginn eftir að tillögur nefndarinnar voru birtar sendi Samband íslenskra auglýsingastofa frá sér tilkynningu þar sem m.a. kom fram það sjónarmið „að ef RÚV færi af auglýsingamarkaði myndi sú leið að auglýsa í sjónvarpi skerðast mikið þar sem miklar líkur eru á að það fé sem annars hefði farið til RÚV endi að stórum hluta hjá erlendum netmiðlum. Breytingin myndi hugsanlega hafa þau áhrif að sjónvarp breytist úr leiðandi miðli í jaðarmiðil fyrir auglýsendur á fáum árum. Þar af leiðir að það sem fjölmiðlar og almenningur fá út úr breytingunni er aukinn kostnaður við rekstur RÚV fyrir skattgreiðendur, rekstur annarra sjónvarpsstöðva gæti jafnvel versnað til lengri tíma auk þess sem mun meira af birtingafé færist frá íslenskum fjölmiðlum til erlendra.“

Það verður að setja mikinn fyrirvara við þessa miklu dómsdagsspá frá hinu annars frjóa auglýsingafólki.

Í umræðunni hefur verið talað um að taka Ríkisútvarpið að hluta til af markaði. Til dæmis banna því að auglýsa í útvarpi og sýna skjáauglýsingar og banna kostaðar umfjallanir. Í raun mætti alveg eins varpa fram þeirri hugmynd að skynsamlegast væri að heimila RÚV einungis að birta skjáauglýsingar.

Auðvitað á Ríkisútvarpið að fara af auglýsingamarkaði. Helst ætti það að fara alveg af þessum markaði og í leiðinni mætti endurhugsa hlutverk miðilsins og skyldur hans. Ríkisútvarpið á til dæmis ekki að keppa við einkafyrirtæki um rándýran útsendingarétt frá stórviðburðum. Það er einfaldlega ósanngjarnt að fyrirtæki með 4 milljarða króna forgjöf fái að gera það. Að ekki sé talað um þá staðreynd að þegar slíkir viðburðir eru sýndir þá eru þeir kostaðir í bak og fyrir með auglýsingum. Þetta er bara eitt dæmi.

Í skýrslunni eru ýmsar aðrar tillögur viðraðar. Ein af þeim er að virðisaukaskattur áskrifta verði samræmdur í 11 prósentum. Þetta er hið besta mál. Þá leggur meirihluti nefndarinnar til „að birtingar á áfengis og tóbaksauglýsingum verði heimilaðar, innan þess ramma sem alþjóðlegar skuldbindingar Íslands segja til um“.

Hér togast á viðskipta- og lýðheilsusjónarmið. Það er samt mjög erfitt að réttlæta bann við þessum auglýsingum út frá lýðheilsusjónarmiðum því áfengis- og tóbaksauglýsingar eru allt í kringum okkur. Þær eru til dæmis í erlendum tímaritum, á netinu og í erlendum sjónvarpsstöðvum.

Hvað sem verður þá er brýnt að stjórnmálamenn geri eitthvað og það strax. Þessar tillögur mega ekki daga uppi nema auðvitað að fólk vilji að Ríkisútvarpið kæfi smám saman hina einkareknu miðla.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim