*

fimmtudagur, 19. júlí 2018
Týr
4. september 2017 10:04

Núllstilling í borginni

Vonlausir stjórnarhættir Dags B. Eggertssonar hafa opinberast í hverju málinu á fætur öðru síðastliðna mánuði. Það kemur því ekki á óvart að fylgið hafi tæst af honum.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti í gær, er Sjálfstæðisflokkurinn með langmest fylgi flokka í Reykjavík. Samkvæmt henni fengi Íhaldið rúm 34% atkvæða, VG tæp 18%, Samfylkingin 14%, Píratar 12%, Flokkur fólksins 7%, Viðreisn 6%, en Framsókn og Björt framtíð tæp 3% hvor. Í þessum niðurstöðum felast margvísleg tíðindi, sem menn geta lesið ýmislegt í, svona eftir smekk og stjórnmálaskoðun.

                                                         ***

Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn sé með nær tvöfalt meira fylgi en næsti flokkur á eftir, þá er hann langt frá því að ná meirihluta, myndi rétt fá þriðjung borgarfulltrúa. Hins vegar er ekki hægt að líta hjá því að fylgi sjálfstæðismanna hefur stóraukist á skömmum tíma. Það bendir til þess að ákvörðun Halldórs Halldórssonar um að gefa ekki aftur kost á sér hafi verið rétt.

                                                         ***

Fyrir sjálfstæðismenn er athyglisvert að þarna er fylgið komið aftur í námunda við það sem gerðist í kosningunum 2010, en víðs fjarri þeim sirka 50%, sem flokkurinn átti að venjast á liðinni öld. Þá ber hins vegar að líta til þess að þetta er Íhaldið að fá leiðtogalaust, án borgarstjórnarkandídats. Það má kannski kalla þetta núllstillingu. (Eða, vilji menn vera brútal: D-listinn fær þriðjungi meira fylgi með engan í brúnni en oddvitann fyrrverandi.) En núna, þurfa sjálfstæð­ismenn sem sagt að finna sér nýtt borgarstjóraefni, sem svo getur hafið baráttuna á ekki ómögulegum stað.

                                                         ***

Stóru tíðindin í þessari könnun – sennilega lykillinn að þessari velgengni Sjálfstæðisflokksins – voru hins vegar hvernig fylgið hefur tæst af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og með­ hjálpurum hans í Bjartri framtíð. Það er ekki bara vegna þess að Samfylkingin er búið spil; það eru gamlar fréttir. Nei, þetta skrifast algerlega á borgarstjórann og hans vonlausu stjórnarhætti, sem hafa opinberast í hverju málinu á fætur öðru síðastliðna mánuði. Einu gildir hvort það er saurinn í fjörunni eða svepparækt OR, holóttar göturnar eða sorphirðuvanrækslan, húsnæðiseklan eða fjármálaóreiða borgarinnar (þrátt fyrir allan efnahagsuppganginn). Alltaf er Dagur jafnhissa og ekkert af þessu virðist koma honum við. Nákvæmlega þannig þurfa kjósendur að koma því fyrir á næsta ári: að Reykjavíkurborg komi Degi og hans lánlausa liði ekki við.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.