Frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi um innleiðingu reglugerðar Evrópusambandsins nr. 236/2012 um skortsölu og tiltekna þætti skuldatrygginga. Samkvæmt frumvarpinu eiga lögin að taka gildi 1. júlí. Mikilvægt er að fjárfestar hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki átti sig á efnisatriðum reglugerðarinnar. Það er nauðsynlegt svo markmið reglugerðarinnar um aukið gagnsæi vegna skortstaðna, minni uppgjörsáhættu o.fl. nái fram að ganga. Þá er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt frumvarpinu mun Fjármálaeftirlitið (FME) geta lagt stjórnvaldssektir á aðila sem brjóta gegn tilteknum ákvæðum reglugerðarinnar. Skortsala er heimil á Íslandi en engin heildstæð löggjöf hefur verið til um slíka háttsemi. Nú verður breyting þar á. Hér verða nefnd nokkur helstu atriði reglugerðarinnar.

Með skortsölu er átt við það þegar aðili fær fjármálagerning lánaðan og selur hann síðan. Með því er hann að veðja á að fjármálagerningurinn lækki í verði. Ef það gerist getur viðkomandi keypt fjármálagerninginn síðar meir á lægra verði til að endurgreiða lánið og hagnast á mismuninum. Skortstaða er skilgreind með víðtækum hætti samkvæmt 3. gr. reglugerð­ arinnar. Hægt er að ná skortstöðu með skortsölu eða gerð samnings þar sem hagnast er á lækkun á virði undirliggjandi hlutabréfs eða skuldagernings. Þá er hægt að ná skortstöðu með gerð ýmissa samninga s.s. afleiðusamninga á borð við framvirka samninga, valrétti, CFD samninga o.fl. Hægt er að vera með skortstöðu án þess að fjármálagerningur skipti um hendur.

Skortstaða tilkynnt

Tilkynna þarf FME um nettó skortstöðu í hlutabréfum sem tekin hafa verið til viðskipta á viðskiptavettvangi ef staðan fer yfir eða fellur undir viðmiðunarmörk sem nema 0,2% af útgefnu hlutafé félags (e. issued share capital). Jafnframt þarf að senda tilkynningu í hvert skipti sem nettó skortstaða eykst um 0,1% umfram fyrrgreind mörk. Nái nettó skortstaða tiltekins aðila í hlutabréfum 0,5% mörkum verð­ ur staðan birt opinberlega á heimasíðu FME. Senda þarf tilkynningu í gegnum eyðublað á heimasíðu FME.

Tilkynna þarf FME um nettó skortstöðu í ríkisskuldum. Tilkynningarmörkin eru miðuð við 0,1% af heildarfjárhæð útgefinna skuldagerninga ríkisins þegar metið er hvort nettó skortstaða nái mörkunum en ekki fjárhæð tiltekins flokks ríkisskuldagernings. Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitið ESMA birtir ársfjórðungslega þá fjárhæð sem miða skal við á heimasíðu sinni. Einnig þarf að senda tilkynningu í hvert sinn sem skortstaða eykst um 0,05% umfram fyrrgreind mörk.

Almennt bann er lagt við óvarinni skortsölu hlutabréfa og ríkisskuldagerninga. Þegar aðili skortselur skal hann hafa fengið umrædd hlutabréf eða ríkisskuldagerninga að láni eða gert aðrar sambærilegar ráðstafanir. Þetta er gert til að takmarka uppgjörsáhættu, þ.e. að aðili geti örugglega afhent fjármálagerninginn þegar kemur að uppgjöri viðskiptanna.

Valdheimildir FME

Fjármálaeftirlitið fær valdheimildir til að stöðva eða takmarka skortsölu við sérstakar kringumstæður. Þetta á við þegar uppi eru að­ stæður sem geta ógnað fjármálastöðugleika eða tiltrú á markaðnum eða verð fjármálagerninga hefur lækkað verulega í verði innan eins viðskiptadags.

Ítarlegri umfjöllun um skortsölureglugerðina má finna á heimasíðu FME (fme.is) undir flipanum eftirlitsstarfsemi/skortsölureglugerðin.

Höfundur er forstöðumaður vettvangs- og verðbréfaeftirlits Fjármálaeftirlitsins.