GAMMA hefur hafið opinbera birtingu á Fyrirtækjaskuldabréfavísitölu GAMMA. Hin nýja vísitala byggir á svipaðri aðferðafræði og Skuldabréfa­ og Hlutabréfavísitölur GAMMA og myndar ásamt þeim ítarlegt yfirlit yfir þróun fjármálamarkaðar á Íslandi. Vísitölur GAMMA, sem eru opinberar og sendar út í lok hvers dags, eru okkar framlag til að byggja upp og auka gagnsæi og skilvirkni á íslenskum fjármálamarkaði. Vísitalan byggir á aðferðafræði sem Ellert Arnarson, stærðfræðingur og fjármálahagfræðingur hjá GAMMA, útfærði í nýkláraðri ritgerð til meistaraprófs í fjármálahagfræði við Háskóla Íslands. Þar var fjallað um blandaðar eignaverðsvísitölur og þær rannsakaðar í þaula fyrir íslenskan fjármálamarkað, sér í lagi hlutabréfavísitölur og skuldabréfavísitölur.

Markaður með fyrirtækjaskuldabréf

Markaður með skuldabréfaútgáfur annarra aðila en ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs hefur að miklu leyti legið í doða frá árinu 2008. Hann hefur þó tekið að glæðast með nokkrum nýjum útgáfum upp á síðkastið, og með frekari stækkun markaðarins og aukinni veltu mun áframhald­ andi reikningur vísitölunnar end­ urspegla þróun markaðarins á lýsandi hátt. Vegna skorts á seljanleika hafa vísitölur fyrir fyrirtækjaskuldabréf ekki verið jafn áberandi og vísitölur ríkisskuldabréfa, en síðustu ár hafa fræðimenn og fagfólk verið að beina athygli sinni í auknum mæli að þessum hluta markaðarins. Í dag er vísitalan samsett úr 11 skuldabréfum og samanstendur af sértryggðu skuldabréfum bankanna, útgáfum Lánasjóðs sveitarfélaga og Reykjavíkur og skuldabréfi útgefnu af fasteignafélaginu EIK. Það er vonandi að það verði hvati fyrir fyrirtæki að fara í markvissar útgáfur með skráningu og samningsbundinni viðskiptavakt til að komast í vísitöluna og verða hluti af mælikvarða ávöxtunar fyrirtækjaskuldabréfa.

Nýja vísitalan GAMMA: CBI

Nýja vísitalan heitir GAMMA: Corporate Bond Index eða GAMMA: CBI. Hún er bakreiknuð aftur til ársbyrjunar 2012 og hefur hún þá gildið 100; má sjá þróun hennar í meðfylgjandi mynd í samanburði við aðrar vísitölur GAMMA. Ávöxtun vísitölunnar, miðað við lokagengi 30. ágúst 2013, hefur verið 14,2% á ársgrundvelli frá upphafi. Til samanburðar hefur ávöxtun Skuldabréfavísitölu GAMMA verið 7,3% yfir sama tímabil. Beinn samanburður er þó ekki mögulegur án þess að taka til greina að áhættuálag (eins og skuldara­ og seljanleikaálag) fyrirtækjaskuldabréfa er hærra heldur en ríkis­ og ríkistryggðra skuldabréfa. Það þýðir að ef engin gjaldþrot eiga sér stað hafa fyrirtækjaskuldabréfavísitölur sem mæla heildarávöxtun tilhneigingu til að sýna betri ávöxtun heldur en sambærilegar ríkisbréfavísitölur, þar sem vaxtagreiðslur og afborganir eru sífellt endurfjárfestar í vísitölunni. Sjá má á meðfylgjandi mynd, sem sýnir hlutfallslega samsetningu vísitölunnar, hvernig vísitalan hefur hægt og bítandi byggt upp fjölda skuldabréfa með nýjum útgáfum og nýjum samningum um viðskiptavakt. Síðasta bréfið sem tekið var inn í vísitöluna var skuldabréf Lánasjóðs sveitarfélaga með lokadag árið 2034, þegar viðskiptavakt á því bréfi tók formlega gildi. Núverandi samsetning vísitölunnar er 94% verðtryggð og 6% óverðtryggð. Sértryggð skuldabréf útgefin af bönkum eru 24% af vísitölunni, bréf útgefin af LSS 40%, bréf útgefin af Reykjavíkurborg 25% og önnur fyrirtækjaskuldabréf, þ.e. EIK, er 11%. Stærsta einstaka bréfið er LSS24, sem vegur um 28,5% af vísitölunni.

Tilgangur og aðferðafræði vísitalna

Almennt eru vísitölur búnar til og reiknaðar í margs konar tilgangi. Að jafnaði eru þær notaðar til að varpa ljósi á almenna þróun á markaði yfir tíma. Í daglegu máli, þegar talað er um að „markaðurinn“ sé að hækka eða lækka, er því gjarnan átt við vísitölu sem notuð er sem fulltrúi mark­ aðarins. Vísitölur hafa þó fleiri not heldur en að endurspegla þróun á markaði. Önnur ástæða fyrir smíði þeirra snýst um að nýta þær sem fjárfestingarviðmið. Í því hlutverki er litið á vísitöluna sem eins konar hlutlaust mat á þeirri ávöxtun sem fjárfestir getur vænst með því að fjárfesta á þeim markaði sem vísitalan mælir. Mikilvægt er að vísitölur séu byggðar upp á hlutlægan og reglubundinn hátt. Má þar helst nefna aðferðafræðina sem ákvarðar hvaða verðbréf eru valin inn í vísitöluna ásamt því hvernig hlutfallsvægi hvers bréfs er ákvarðað. Markaðir eru síbreytilegir og það er mikilvægt að fjárfestar geti spáð fyrir um hvaða áhrif þessar breytingar hafa á tiltekna vísitölu. Í þeim tilgangi að smíða nýja fyrirtækjaskuldabréfavísitölu fyrir íslenska markaðinn var litið til erlendra fræða og vísitalna, þar sem slík vísitala hefur hingað til ekki verið smíðuð fyrir íslenskan markað. Má þar nefna fræðigreinar EDHEC Risk Institute og aðferðafræði útgefenda eins og Barclays og Bank of America Merrill Lynch.