*

föstudagur, 19. október 2018
Týr
28. mars 2012 15:26

Nýr bíll forsætisráðherra

Rekstur ráðherrabíla vegur ekki þungt í ríkisreikningi að mati Týs. En ákvörðun um að endurnýja bílana í dag er í besta falli bilun.

Aðsend mynd

Það kom Tý verulega á óvart þegar Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir áramót að Íslendingar ætluðu að feta í fótspor Ítala og halda upp á kreppuna með því að verðlauna ráðherra landsins með nýjum drossíum.

Rekstur ráðherrabíla vegur ekki þungt í ríkisreikningi. En ákvörðun um að endurnýja bílana, á sama tíma og heimilin eru að kikkna undir verðlagshækkunum, skattahækkunum og þungri greiðslubyrði af húsnæði sínu, er í besta falli bilun.

Allar raunverulegar vinstri stjórnir hefðu í kjölfar sams konar hruns selt bílaflotann og forstætisráðherrann gert ráðherrum að kynnast almenningssamgöngum til þess eins að sýna að þeir áttuðu sig á grafalvarlegu efnahagsástandi landsins. En þessi ríkisstjórn er ekki venjuleg vinstri ríkisstjórn.

Týr getur tekið undir hvert orð sem þingmaður nokkur skrifaði um ráðherrabíla ekki fyrir svo löngu:

„Í svari forsætisráðherra við fyrirspurn minn á Alþingi sem birt var í dag kemur fram að kostnaður skattgreiðenda vegna útgjald á ráðherrabifreiðum nam nálægt 500 milljónum á s.l. 6 árum. Hvarflar að ráðherrunum að hægt sé að spara á þessum útgjaldalið skattborgarana á sama tíma og lögð er til lokun á bráðadeild Landspítalans, neyðarmóttöku í nauðgungarmálum eða að loka endurhæfingardeild fyrir 32 fjölfatlaða einstkalinga í Kópavogi?“

Þingmaðurinn sem skrifaði þetta var Jóhanna Sigurðardóttir. Árið var 2004. Fyrir þá sem ekki vita er þessi sama Jóhanna forsætisráðherra Íslands. Enginn venjulegur forsætisráðherra. Týr og kjósendur eru spenntir að sjá hvaða bíll tekur við af BMW bifreið forsætisráðherra.

Athugasemd: Forsætisráðuneytið hefur sent athugasemd vegna þessa pistil. Ekki standi til að endurnýja ráðherrabifreiðar á þessu ári. Hægt er að lesa athugasemdina í heild hér.

Athugasemd Týs við athugasemdinni: Nýr bíll forsætisráðherra II.

Stikkorð: Týr
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.