Fyrirsögn greinarinnar er tekin að láni úr stefnuræðu forsætisráðherra sem lagði mikla áherslu á þessi mál og tók fram að ríkisstjórnin hygðist styðja myndarlega við rannsóknir og þróun. Það skal tekið fram að núverandi forsætisráðherra sýndi það í verki sem fjármálaráðherra að honum væri alvara með að styðja við nýsköpun og þess vegna er ekki annað hægt en að líta jákvæðum augum á framhaldið með fulla trú á að ný ríkisstjórn standi vörð um atvinnulífið.

Hins vegar er ekki endilega þörf á sértækum aðgerðum ríkisins fyrir tiltekinn hóp fyrirtækja til þess að virkja kraft nýsköpunar, heldur mætti jafnvel frekar leggja áherslu á almennt samkeppnishæft viðskiptaumhverfi þó að auðvitað verði að hafa í huga þær ívilnanir sem nágrannalönd okkar veita. Í því samhengi má velta því sérstaklega upp hvort samkeppnisstaða þeirra ríkja sem leggja höfuðáherslu á almennt samkeppnishæft skattumhverfi verði ekki sterkari eftir því sem tíminn líður í ljósi þess heimsátaks sem Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur staðið fyrir sl. ár í verkefninu sem nefnist „Base erosion and profit shifting“ (BEPS). Eitt af grunnstefum þess átaks, sem leitt hefur og mun áfram leiða til umfangsmikilla skattalagabreytinga á Vesturlöndum, er að stemma stigu við sértækum aðgerð­ um ríkja til að laða til sín skatttekjur án þess að raunveruleg starfsemi sé þar að baki. Því til viðbótar hefur áhersla Evrópusambandsins á átak gegn ólögmætum ríkisstyrkjum aukist töluvert, sbr. m.a. umfangsmikið mál Apple á Írlandi sem mikið var fjallað um í fjölmiðlum á síðasta ári.

Halda má því fram með góðum rökum að samkeppni ríkja um að bjóða fram hagstætt viðskiptaumhverfi muni í framtíðinni í meira mæli byggja á almennu og gagnsæju regluverki frekar en sértækum undanþágum og sértækum túlkunum skattyfirvalda til handa tilteknum fyrirtækjum eða atvinnugreinum. Ísland ætti að geta staðið framarlega í slíkum samanburði þar sem kerfið hér er í grunninn nokkuð einfalt og því ætti að reynast auð­ velt að aðlaga og innleiða almennar breytingar á skattalögum sem miða að því að laða að skapandi atvinnustarfsemi.

Fyrsta skrefið gæti verið að taka ákvörðun um að vera leiðandi frekar en eltandi í þessum málum. Annað skrefið gæti verið að taka ákvörðun um að hafa íþyngjandi lagaákvæði í sífelldri endurskoðun m.t.t. nauðsyn þeirra. Ráða mætti fólk í 100% vinnu við að einbeita sér að létta byrðar fyrirtækja eftir því sem hægt er. Að sama skapi mætti draga úr því að ráða fólk til þess að setja og fylgja eftir íþyngjandi reglum sem bætast í safn þeirra sem fyrir eru jafnvel án þess að fyrir liggi nein greining á því hverju slíkar reglur eigi að skila í heildarsamhenginu. Þriðja skrefið gæti síðan verið að gefa þau sterku skilaboð út á við að við reglusetningu verði alltaf litið til hagsmuna almenns atvinnulífs áður en íþyngjandi reglur eru lögfestar.

Í skattkerfinu er nokkur fjöldi íþyngjandi reglna sem standa óbreyttar án þess að skila skatttekjum og þ.a.l. án sýnilegs tilgangs. Slíkar reglur skapa neikvæðan hvata en skila engu. Skattlagning kauprétta starfsmanna var ein af slíkum reglum en slíkt umbunarkerfi er afar mikilvægt nýsköpunarfyrirtækjum. Kaupréttir voru í raun ónýttir vegna skattkvaða sem hvorki fyrirtæki né starfsmenn þeirra gátu staðið undir. Þessum reglum var breytt að frumkvæði nú­ verandi forsætisráðherra án þess að lækka skattþrep vegna raunverulegs hagnaðar en gefinn var frestur til að greiða áfallinn tekjuskatt þar til raunverulegur hagnaður er innleystur. Í kjölfarið má mögulega vænta þess að raunverulegar skatttekjur verði af slíkum launagreiðslum og vonandi raunveruleg verðmætasköpun.

Reglulega birtast listar yfir samkeppnishæfni ríkja eins og t.d. á vegum Forbes sem nefnist „Best Countries for Business“ þar sem Ísland er nú í 22. sæti. Það er auðvitað alveg sæmilegur árangur en öll Norðurlöndin eru ofar á lista en Ísland og Svíþjóð er t.a.m. í efsta sæti. Miðað við þann sveigjanleika sem við ættum að búa við ætti hreinlega að vera hægt að taka þá ákvörðun að Ísland skuli vera meðal efstu ríkja á listum sem þessum.

Höfundur er lögmaður og meðeigandi á SKR Lögfræðiþjónustu