*

mánudagur, 27. maí 2019
Vigdís Halldórsdóttir
12. nóvember 2018 11:27

Óásættanleg áhætta á vegum úti

Á árunum 2014 til 2017 er áætlað að kostnaður samfélagsins af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja hátt í 600 milljónir.

Haraldur Guðjónsson

Á Íslandi, eins og í öðrum Evrópulöndum, er sú skylda lögð á vátryggingafélög að þau ábyrgist að þeir sem verða fyrir tjóni af völdum óvátryggðra ökutækja fái tjón sitt bætt. Það sama gildir þegar ökumaður stingur af frá vettvangi. Öllum vátryggingafélögum, sem bjóða ökutækjatryggingar á Íslandi samkvæmt umferðarlögum, er því skylt að vera aðilar að og reka Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi (ABÍ). Á hverju ári verða um 70 tjón, þ.e. bæði munatjón og líkamstjón, þar sem ökumenn óvátryggðra ökutækja eru tjónvaldar. ABÍ gera upp þessi tjón, og í framhaldinu er skráður eigandi óvátryggða ökutækisins og ökumaður, ef hann er annar en eigandi, endurkrafinn um allan kostnað sem á ABÍ hefur fallið við uppgjör slíkra tjóna 

600 milljóna króna kostnaður

Á árunum 2014 til 2017 er áætlað að heildarkostnaður samfélagsins vegna tjóna af völdum óvátryggðra og óþekktra ökutækja verði hátt í 600 milljónir króna. Stærsti hluti þessa kostnaðar eða um 350 milljónir er tilkominn vegna tjóna af völdum óvátryggðra ökutækja. Eigandi eða ökumaður hins óvátryggða ökutækis er fyrst krafinn um kostnaðinn en staðreyndin er sú að aðeins lítill hluti þessa kostnaðar fæst endurgreiddur frá tjónvöldum eða aðeins um 7-8%. Allan kostnað ABÍ sem ekki fæst endurgreiddur vegna tjóna af völdum óvátryggðra ökutækja verða vátryggingafélögin að bera. Þennan kostnað verða því vátryggingafélögin að taka með öðrum útgjöldum þegar þau reikna út iðgjöld. 

Í dag er það hlutverk lögreglu að taka óvátryggð ökutæki úr umferð. Þetta fyrirkomulag hefur ekki reynst skilvirkt og dýrmætum tíma lögreglu án efa betur varið í annað, en talið er að á milli þrjú til fjögur þúsund óvátryggð ökutæki aki um göturnar á degi hverjum. Dæmi eru um að ökumenn aki um á óvátryggðum ökutækjum svo mánuðum eða jafnvel árum skiptir. Þetta skapar óásættanlega áhættu fyrir aðra þá sem eru í umferðinni. Leiða má líkum að því að ökutæki sem eru óvátryggð í umferð séu líklegri til að vera óskoðuð og því almennt í verra ástandi og meiri hætta stafi af þeim fyrir vegfarendur en tryggðum ökutækjum. 

Norrænar lausnir á vandanum 

Öll Norðurlöndin utan Íslands hafa nú þegar breytt eða tekið ákvörðun um að breyta fyrirkomulagi því sem enn ríkir hér á landi varðandi óvátryggð ökutæki. Tekið hefur verið upp sérstakt vantryggingagjald sem nýtur lögveðsréttar í ökutækinu og nýtt er til að greiða bætur vegna tjóna sem verða vegna óvátryggðra ökutækja. Fari iðgjald ökutækjatryggingar í vanskil er eigandi ökutækis upplýstur um að verði þau ekki greidd innan tiltekins frests muni vantryggingagjald falla á ökutækið. Séu iðgjöld enn í vanskilum leggst vantryggingagjaldið á ökutækið og það því í raun aldrei óvátryggt í umferð. Vantryggingagjaldið er hærra en hæsta iðgjald sem í boði er fyrir samskonar ökutæki og nýtur ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði sem hlýst af innheimtu þess, lögveðsréttar í ökutækinu. Þetta kerfi var innleitt í Svíþjóð árið 1978 og önnur Norðurlönd hafa fylgt í kjölfarið. Fyrirkomulagið hefur reynst vel og innheimtur hjá systurskrifstofu ABÍ í Svíþjóð eru 60-70%, óvátryggðum ökutækjum í umferð hefur fækkað, bætur vegna óvátryggðra ökutækja eru að fullu greiddar með vantryggingagjaldinu og fellur þessi tjónakostnaður því ekki á aðra skilvísa vátryggingartaka. 

Tækifæri í endurskoðun umferðarlaga 

Ljóst er að núverandi kerfi virkar ekki sem skyldi og hefur augljósa vankanta. Nú stendur yfir endurskoðun á umferðarlögum og fyrir liggur að sett verða ný lög um ökutækjatryggingar. Mikilvægt er að á sama tíma verði gerð breyting á þessu fyrirkomulagi til jafns við það sem gert hefur verið á hinum Norðurlöndunum. Það er sanngjarnt og eðlilegt að þeir sem ekki standa í skilum með ábyrgðartryggingar ökutækja sinna standi sjálfir undir þeim kostnaði vegna tjóns slíkra ökutækja en velta ekki þeirri ábyrgð yfir á skilvísa vátryggingartaka. 

Höfundur er lögfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim