Hagsmunaaðilar í landbúnaði og talsmenn þeirra í pólitíkinni reyna gjarnan að telja skattgreiðendum og neytendum trú um að landbúnaðarkerfið, með háum ríkisstyrkjum og tollmúrum, sé nauðsynlegt til að tryggja „fæðuöryggi“, að nógur matur verði til í landinu ef vá ber að höndum.

Þetta er ruglröksemd; ef einhverjar þær aðstæður kæmu upp að ekki væri hægt að flytja mat til landsins, væri heldur ekki hægt að nálgast áburðinn, fóðrið, eldsneytið, vélarnar og umbúðirnar sem þarf til að framleiða búvörur – að ekki sé talað um allan matinn, sem ekki er framleiddur á Íslandi. Fæðuöryggi er bezt tryggt með friðsamlegum alþjóðasamskiptum og frjálsum milliríkjaviðskiptum.

Ýmsar búgreinar anna ekki vaxandi innanlandseftirspurn. Nú hefur kerfið hins vegar leitt til þeirrar niðurstöðu að offramboð er á kindakjöti og verðið fellur. Talsmenn sérhagsmuna heimta þá útflutningsskyldu og að skattgreiðendur borgi enn meira til að greiða fyrir því að matur sé fluttur burt frá landinu. Þá hefur röksemdin um fæðuöryggi snúizt gegn sjálfri sér.

Það er óumflýjanlegt að skattgreiðendur taki á sig einhverjar byrðar til að leysa úr þeim vanda, sem framleiðsluhvetjandi kerfi hefur komið sauðfjárbændum í. Til framtíðar þarf hins vegar að tryggja að styrkir skattgreiðenda til landbúnaðar nýtist skynsamlegar.

Leiðin til þess er að viðurkenna að landbúnaðarstyrkir eru fyrst og fremst stuðningur við byggð, samfélag og menningu. Taka þarf upp búvörusamningana þannig að þeir hætti að vera framleiðsluhvetjandi og markaðstruflandi, aftengja styrkina og framleiðsluna og styðja bændur til að sitja og rækta jarðir sínar og efla nýsköpun. Ríkið á ekki að skipta sér af því hvað þeir framleiða – það á einfaldlega að vera háð markaðslögmálum.

Það er offramboð á fleiru en kindakjöti; líka á úreltum hugmyndum um meiri ríkisafskipti og markaðshöft til að leysa vanda bænda. Nú þarf nýja hugsun.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.