Höftum hefur verið aflétt (að mestu), hagvöxturinn heldur áfram að gleðja okkur eins og metnaðargjarnt skólabarn gleður mömmu sína með sífellt hærri einkunnum, stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins hafa aldrei litið grænni lendur og stýrivextir hafa meira að segja verið að lækka (smá). Ekkert getur varpað skugga á þennan unaðslega sumardag sem er íslenska góðærið - jú nema þá kannski óþægilegar upprifjanir á því sem fór úrskeiðis í framkvæmd og eftirliti á síðustu uppgangstímum. Það nýjasta í slíkum upprifjunum er skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og mun hún að öllum líkindum skipa sér sess á „mood killer-hillunni“ til framtíðar.

Sagan samkvæmt skýrslunni er í örstuttu máli þessi: Ríkið hélt á sínum tíma að það væri að selja þýskum banka hlut sinn í Búnaðarbankanum. Það reyndist hins vegar flókinn vefur lyga þar sem eignarhaldið hvíldi raunverulega hjá aflandsfélaginu Welling&Partners sem lagði svo allan ágóðann af viðskiptunum inn á reikning hjá enn öðru aflandsfélaginu sem var í eigu Ólafs Ólafssonar. Kviss bamm búmm.

Stutta skilgreining á ræningja hefur gjarnan verið einstaklingur sem tekur hluti ófrjálsri hendi og því eru ef til vill einhverjir þarna úti sem gætu gengið svo langt að skilgreina atburðina sem rán (á banka), þó svo að greiðsla hafi verið innt af hendi í bakherbergjum einhverstaðar. Hingað til hafa íslenskir bankaræningjar verið helst til ófrumlegir í framkvæmd sinni. Klassíska atburðarásin er sú að þeir góla ókvæðisorðum að gjaldkera sem á sér einskis ills von og hverfa loks á brott með 50.000 krónur í 500 króna seðlum. Að jafnaði lýkur ævintýrinu svo í næstu götu þar sem þeir eru leiddir upp í lögreglubíl.

Sá sem gengur hins vegar út með allan bankann (eða 45,8% af honum) undir hendinni án þess að íslenska ríkið taki einu sinni eftir því hlýtur að teljast til okkar frumlegustu ræningja (bankaránið er jú skilgreiningaratriði). Nú er bara að vona að enginn taki sig til og slái honum við.