*

laugardagur, 20. apríl 2019
Leiðari
14. september 2018 13:03

Óleystur vandi frjálsra fréttamiðla

Tillögur ráðherra eru því afar ólíklegar til þess að leysa frjálsa fjölmiðla úr viðvarandi rekstrarþrengingum.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Ekki þarf að hafa mörg orð um vanda fjölmiðlunar undanfarin ár. Örar tæknibreytingar og gerbreytt neyslumynstur hefur umbylt allri fjölmiðlun og þrengt mjög að hefðbundnum fréttaflutningi og upplýsingu almennings, sem hefur sérstakt hlutverk í samfélaginu og er bráðnauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi.

Það skiptir ekki minna máli í litlu landi en úti í hinum stóra heimi. Raunar má halda því fram að frjáls og óháð, fjölbreytileg og virk miðlun frétta og þjóðmálaumræðu, skipti meira máli á örmarkaði en meðal stórþjóða, því það munar meira um hvern og einn þeirra.

Á Íslandi koma nú út tveir daglegir prentmiðlar, hér eru starfræktar tvær daglegar og almennar fréttastofur á ljósvaka, auk sérhæfðari vikurita og tímarita, að ógleymdum vefmiðlunum öllum, sem flestir sinna afþreyingu fremur en fréttaflutningi. Má það minna vera?

Fæstir þessara miðla eru fjárhagslega burðugir, en að Viðskiptablaðinu undanskildu er leitun að arðbærum fréttamiðlum á Íslandi. Þrátt fyrir alla hagræðinguna, hina skapandi eyðileggingu markaðarins og undraverða efnahagsuppbyggingu liðinna ára, má segja að íslensk fjölmiðlun hafi – nær ein íslenskra atvinnugreina – ekki náð sér eftir hrunið fyrir hartnær tíu árum.

Með einni stórri undantekningu þó, sem er Ríkisútvarpið (RÚV). Ekki fyrir eigin þrótt eða viðtökur neytenda, heldur fyrir þráláta innspýtingu á almannafé, stórsókn á samkeppnismarkaði, fasteignabrask og alls kyns brellur aðrar.

Ekki er langt síðan skýrsla sérstakrar nefndar mennta- og menningarmálaráðherra um rekstrarumhverfi fjölmiðla var birt, en þar var óeðlilegt ástand á íslenskum fjölmiðlamarkaði staðfest. Vandi einkarekinna fjölmiðla endurspeglast vel í tíðum gjaldþrotum og yfirburðastöðu RÚV á öllum sviðum (þrátt fyrir að reksturinn hafi engan veginn verið til fyrirmyndar).

Það er ekki einfalt að rétta hlut frjálsra fjölmiðla við þessi skilyrði, en nefndin hafði þó ýmsar tillögur þar um. Sú helsta, sem líklegust er til þess að hnika nokkru til, var sú að Ríkisútvarpið færi af einfaldlega af auglýsingamarkaði, líkt og tíðkast víðast um ríkisrekna almannafjölmiðla. Viðskiptablaðið tók undir það þá og ítrekar þá afstöðu sína nú.

Í fyrradag kynnti Lilja B. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, loks áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á fjölmiðlaumhverfi, sem rekja má til þessarar skýrslu. Tillögur ráðherra eru þó ekki nema að mjög litlu leyti byggðar á tillögum nefndarinnar, svo útvatnaðar að vonlaust er að þær nái uppgefnum markmiðum og í raun lítið annað en pólitísk sýndarmennska. Einkareknir miðlar verða áfram í járnum, en þó að fyrirhugað sé að Ríkisútvarpið gefi nokkuð eftir af markaðssókn sinni á samkeppnismarkaði síðustu árin verður RÚV áfram jafnþrúgandi á markaðnum og fyrr, með síaukin framlög almannafjár í bakhöndinni.

Tillögur Lilju eru því afar ólíklegar til þess að leysa frjálsa fjölmiðla úr viðvarandi rekstrarþrengingum, en helst til þess fallnar að gera þá háða náð stjórnvalda. Það samræmist hvorki hlutverki fjölmiðla sem aðhaldi gagnvart stjórnvöldum og valdaöflum þjóðfélagsins, né styrkir þá sem vettvang trúverðugra frétta eða gagnrýninnar, upplýstrar og lýðræðislegrar þjóðmálaumræðu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim