Á fundi um síðustu helgi talaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um mikilvægi þess að lækka skatta. Margt af því sem hann sagði er rétt, t.d. að mikilvægara sé að bæta kjör en að jafna þau og að markmiðið eigi að vera að stækka kökuna í stað þess að rífast um hvernig best sé að skipta henni.

Ég hef hins vegar ákveðnar áhyggjur af því að Sjálfstæðismenn virðast almennt hrifnari af því að tala um skattalækkanir en niðurskurð ríkisútgjalda. Fyrir því er náttúrlega mjög einföld útskýring; Það er vinsælt að lækka skatta en óvinsælt að skera niður opinber útgjöld. Menn geta svo alltaf fundið afsakanir fyrir því að fara frekar vinsælu leiðina en þá óvinsælu. Menn geta talað um að skattalækkanir séu slík sterasprauta fyrir atvinnulífið að innan tíðar hækki skatttekjur svo mikið að óþarfi sé að skera niður útgjöld. Þá hafa sumir frjálshyggjumenn viðrað þá hugmynd að með því að lækka skatta sé hægt að „svelta skrýmslið“ þannig að útgjöld lækki sjálfkrafa.

Síðari hugmyndin hefur svo sannarlega afsannast á undanförnum árum og ekki bara hér á Íslandi. Svo lengi sem hægt er að taka lán þá þurfa stjórnvöld í raun ekki á skatttekjunum að halda ef ætlunin er að viðhalda eða auka ríkisútgjöld. Þetta er að sjálfsögðu óábyrg nálgun á ríkisfjármálin, en hún er æði vinsæl.

Hvað varðar þá fyrrnefndu þá er það rétt að lækkun skatta hleypir vanalega lífi í hagkerfið og það leiðir svo til hærri skatttekna. Viðbrögð ríkisvaldsins við slíkar aðstæður hafa hins vegar sjaldnast einkennst af hófsemd. Þegar skatttekjur blésu út í aðdraganda hrunsins stóð Sjálfstæðisflokkurinn fyrir einhverri hröðustu útgjaldaaukningu sem sögur fara af. Hefði raunvirði ríkisútgjalda verið haldið óbreyttu frá 2004 til 2008 væri ríkissjóður í raun ekki í neinum alvarlegum vanda.

Ætli Sjálfstæðisflokkurinn sér að setja fram raunhæfa og ábyrga stefnu í ríkisfjármálum verður hún að fela í sér umtalsverða lækkun ríkisútgjalda. Það gengur ekki til lengdar að útgjöld hins opinbera séu ríflega 47% af vergri landsframleiðslu og að minnihluti þjóðarinnar sé í raun að vinna fyrir meirihlutanum. Það er ábyrgðarhluti að snúa þessari þróun við. Það kallar á átök við þá hagsmunahópa sem vilja hafa ríkið sem stærst, en það á ekki að vera óvinnandi vegur að útskýra málið fyrir þjóðinni. Það er ekki nóg að stækka bara kökuna, heldur verður einnig að breyta því hvernig hún er saman sett.