*

miðvikudagur, 23. janúar 2019
Óðinn
25. september 2013 16:57

Opnum Ísland

Með lagningu sæstrengs er mögulegt að sala orku til álvera verði óhagkvæm þrátt fyrir að hún hafi verið hagkvæm áður.

Aðsend mynd

Íslenska hagkerfið á enn eftir að laga sig að breyttu efnahagsumhverfi í kjölfar hrunsins. Umræðan um hrunið hefur snúist um tjónið á fjármálakerfinu, verðmætum sem töpuðust í hlutabréfum, peningamarkaðssjóðum og skuldabréfum. Það var vissulega mikið tjón, þótt erfitt sé að gera sér grein fyrir hversu mikið af raunverulegum verðmætum tapaðist og hversu mikið af því voru uppreiknaðar Excel-stærðir án innistæðu. Annað tjón sem ekki hefur enn verið að fullu gert upp og er ekki síður mikið er skaðinn sem unninn var á raunhagkerfinu í uppsveiflunni. Lánsfjárbólan blés upp verð verðbréfa og brenglaði alla fjárfestingu, tjónið myndaðist í bólunni en ekki nema að litlu leyti í hruninu. Of hátt gengi krónunnar um árabil og ofgnótt lánsfjár leiddi til langvarandi misfjárfestingar. Ísland fjárfesti um of í innflutningsverslun og þjónustu í stað útflutningsatvinnugreina.

* * *

Í stað þess að taka á því vandamáli sem hefði leitt til mikillar endurskipulagningar atvinnulífsins var landið lokað af í gjaldeyrishöftum og ríkisstjórnin reyndi að skattleggja sig út úr kreppunni. Afleiðingin er að fjárfesting er í sögulegu lágmarki þrátt fyrir lágt raungengi og vexti. Gjaldeyrishöftin hafa kostað a.m.k. 1-2% í töpuðum hagvexti á ári síðastliðin fimm ár. Þeir fjármunir eru endanlega tapaðir og má furðu sæta að ný ríkisstjórn hafi ekki kynnt áætlun um losun haftanna. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar var hagvöxtur ekki nema 1,4% á síðasta ári og miðað við að vinnuaflið jókst um 1,1% var framleiðniaukning ekki nema 0,3%. Til lengri tíma litið getur kaupmáttaraukning ekki vikið frá framleiðniaukningu. Það er því þröng staða við samningaborðið í kjaraviðræðum og verður um langa framtíð ef ekki verður snúið af núverandi braut.

* * *

Ísland er í herkví og það sem verra er að það erum við sjálf sem höldum okkur í henni, ekki hryðjuverkalög Breta eða erlendir hrægammasjóðir. Adam Smith fjallaði um það í Auðlegð þjóðanna hvernig hagvöxtur ykist með aukinni sérhæfingu. Ein kunnasta hugmynd hans er að sérhæfingunni eru takmörk sett af stærð markaðarins. Því er ljóst að fáar þjóðir fara jafn illa út úr einangrun og Ísland sem er ein minnsta þjóð í heimi. Leiðin fram á við til aukinnar velsældar liggur í að fella Ísland betur inn í heimsbúskapinn, opna hagkerfið og fara að framleiða það sem er spurn eftir erlendis, í stað þess að loka okkur af og byggja á lausnum ríkisáætlana. Arðsemi er ekki mæld í því hvort störf skapist í kjördæmi ráðherra heldur hvort afrakstur framleiðslunnar er meiri en tilkostnaður, þar með talinn fjármagnskostnaður.

* * *

Sorglegt dæmi um „atvinnuuppbyggingu“ eftir hrun er pólitísk fyrirgreiðsla vegna kísilverksmiðju á Bakka í kjördæmi þáverandi atvinnuvegamálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Í greinargerð með frumvarpi, sem mælti fyrir um 3 milljarða fyrirgreiðslu til fyrirtækisins PCC, sagði: „Í viðræðum við PCC SE sem semur fyrir hönd hins íslenska félags, PCC BakkiSilicon hf., hefur komið skýrt fram að veiting ívilnana, sérstaklega í upphafi verkefnisins, sé forsenda þess að fjárfestingarverkefnið verði að veruleika hér á landi.“

Hversu líklegt telja menn að fjárfesting sem byggir á opinberri fyrirgreiðslu geti staðið undir sjálfbærri atvinnuþróun? Og hversu öflugt telja menn fyrirtæki sem segist þurfa meðgjöf skattgreiðenda til að fjárfesta? Þegar ársreikningar PCC eru skoðaðir kemur í ljós að fyrirtækið er ekki mjög burðugt, eiginfjárhlutfallið er ekki nema 20,5% og skuldir félagsins nema 10,2 sinnum EBITDA þess sem er verra hlutfall en hjá Orkuveitu Reykjavíkur. PCC hefur ekki enn getað fjármagnað framkvæmdirnar á Bakka en að sögn er verið að vinna að henni. PCC hefur hins vegar gefið út skuldabréf sem eru skráð í Kauphöllinni í Frankfurt. Ávöxtunarkrafa þeirra gefur góða mynd af mati fjárfesta á fjárhagslegum styrk PCC og þá væntanlega viðhorfi banka til PCC, enda geta þeir valið um að lána fyrirtækinu eða kaupa skuldabréf þess í kauphöllinni.

* * *

PCC gaf út skuldabréf í september í fyrra, bréfið er vaxtagreiðslubréf með lokagjalddaga 2018. Þegar bréfið var gefið út í fyrra voru nafnvextir þess ákvarðaðir 7%, en ávöxtunarkrafan í síðustu viðskiptum í Kauphöllinni í Frankfurt var 7,49%, fimm ára vextir þýskra ríkisskuldabréfa eru hins vegar 0,97% og er vaxtaálagið á skuldabréf PCC því rúmlega 6,5% í evrum, ávöxtunarkrafan á öðrum skuldabréfum félagsins er jafnvel enn hærri.

Félagið er meira að segja með verra kredit en Alcoa sem eins og kunnugt er er í ruslflokki. Er þetta virkilega mótaðilaáhættan sem Landsvirkjun og Norðurþing, sem hvort tveggja eru of skuldsett, þurfa á að halda? Þegar staða PCC er skoðuð er alveg ljóst að samningurinn um kísilver á Bakka var kosningavíxill sem skrifað var undir gegn betri vitund, horfur skattgreiðenda í þessu máli eru þó ekki eins dökkar og ætla mætti þar sem það verður að teljast ólíklegt að PCC nái að fjármagna verkefnið.

* * *

Markmiðið með orkuvinnslu eins og allri annarri fjárfestingu á að vera að ná sem hæstri arðsemi. Arðbær fyrirtæki stuðla að áframhaldandi fjárfestingu og þar með arðbærum störfum. Það kann að vera að óarðbær fjárfesting stuðli að störfum til skemmri tíma litið en slík störf stuðla ekki að aukinni framleiðni og bættum lífskjörum. Það er líka annað sem talsmenn opinberrar fjárfestingar líta framhjá, en það eru störfin sem verða ekki til. Það að ríkið ákveði að eyða fjármunum í verkefni, þýðir að þeim fjármunum verður ekki varið í önnur verkefni eða fjárfestingu. Störfin sem verða til á Bakka eru sýnileg og nýtileg í kosningaáróður, störfin sem verða ekki til vegna þess að ríkið skattlagði almenning til að niðurgreiða framkvæmdir á Bakka eru hins vegar eðli máls samkvæmt ósýnileg enda ekki til.

* * *

Einn liðurinn í því að opna íslenska hagkerfið er að leita leiða til að leggja sæstreng til Bretlands og stækka markaðinn fyrir íslenska orku. Eins og fjallað var um í þessum dálki 11. júlí sl. birti Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skýrslu um lagningu sæstrengs í sumar. Þrátt fyrir að niðurstaða skýrslunnar væri að lagning sæstrengs væri arðbær þá voru verulegir annmarkar á þeirri skýrslu. Skýrsluhöfundar töldu nauðsynlegt að gera úttekt á „þjóðhagslegum áhrifum“ lagningar sæstrengs þar sem könnuð yrðu áhrif sæstrengsins á orkufrek innlend framleiðslufyrirtæki. Þetta er grundvallar misskilningur á eðli verkaskiptingar.

Óðinn er ekki viss um að ef könnuð yrðu áhrif lagningar sæstrengs á núverandi atvinnulíf á Íslandi að reiknimeistararnir myndu finna út að hún væri hagkvæm og hann er heldur ekki viss um að kostnaðar- og ábatagreining á afnámi gjaldeyrishafta á núverandi atvinnulíf sýndi að það borgaði sig. Hann er raunar heldur ekki viss um að ef það væri ritskoðun í landinu og blaðaskrif væru háð leyfisveitingum Fjölmiðlastofu að kostnaðar- og ábatagreining Hagfræðistofnunar mundi sýna að það væri nokkur ávinningur af prentfrelsi.

Þess í stað teldi hann allt eins líklegt að niðurstaða Hagfræðistofnunar yrði að afnám ritskoðunar hefði lítil áhrif þar sem ritskoðunin hefði hvort eð er engin áhrif á þá sem skrifa í blöð. Villan í hinni ímynduðu greiningu á prentfrelsi er sú að það eru ekki þeir sem fá að skrifa undir ritskoðuninni sem skipta máli heldur þeir, sem ekki skrifa en mundu gera og það sem þeir hefðu að segja, sem enginn veit hvað er. Hagfræðistofnun gæti ekki frekar en aðrir fangað það í greiningu sinni.

* * *

Það sama á við um bæði gjaldeyrishöftin og lagningu sæstrengs. Ávinningurinn af því að opna hagkerfið er ekki endilega að þau fyrirtæki sem nú eru til staðar geti hagnast heldur að atvinnulífið lagi sig að alþjóðlegum markaði, nái að nýta betur fastan kostnað í rekstri sínum með að þjóna stærri markaði og nái fram aukinni sérhæfingu.

Þessi rök eiga einkar vel við um mögulegan sæstreng. Miðað við þær áætlanir sem settar eru fram í skýrslu Hagfræðistofnunar væri hægt að fá um 40% af orkuþörf strengsins með betri nýtingu á orkukerfinu hér á landi. Fyrir dyrum standa miklar framkvæmdir til að laga landsnetið, betri nýting mundi fást á þá fjárfestingu með sæstreng. Það er augljóslega hægt að fá hærra verð fyrir orkuna með því að færa hana á stærri markað enda framleiðir Ísland miklu meiri orku en þjóðin þarf að nota og getur framleitt enn meiri. Spurningin er þá hvort munur á verði á Íslandi og væntu verði erlendis sé nægilega mikill til að vega upp kostnað við fjárfestinguna. Óðinn ætlar ekki að svara þeirri spurningu og hefur ekki einu sinni neinn sérstakan áhuga á að heyra svar Hagfræðistofnunar eða annarra álitsgjafa á því. Það sem þarf að gera er að fara í könnunarviðræður við trúverðuga fjárfesta og efna til útboðs á lagningu strengsins ef viðræður gefa góð fyrirheit.

* * *

Eins og áður sagði kemur væntur ávinningur af stækkun markaðar fyrir raforku ekki endilega fram í starfsemi núverandi fyrirtækja. Það má allt eins gera ráð fyrir að þau verði skapandi eyðileggingu að bráð. Ef það tekst að leggja sæstreng til Bretlands og þar með að fá hærra verð fyrir orkuna að teknu tilliti til kostnaðar af strengnum, þá breytir það alfarið arðsemi stóriðju á Íslandi. Í verkfræði líta menn gjarnan á kostnað sem sögulegt hugtak sem byggir á stofnkostnaði framkvæmda. Í hagfræði á hinn bóginn byggir kostnaður á væntingum um framtíðina en ekki fortíðinni. Kostnaður í hagfræði er fórnarkostnaður; það er sá kostur sem er sleppt þegar eitthvað er valið. Það má vera, þótt Óðinn sé efins um það, að bygging orkuvera til stóriðju hafi verið hagkvæmasti kosturinn þegar í hana var ráðist. Ef það fæst hins vegar miklu betra verð fyrir orkuna með sæstreng, þá er það verð orðið kostnaðurinn við sölu orku til stóriðju (að því leyti sem það er ekki búið að selja orkuna í langtímasamningum).

Með lagningu sæstrengs er því mögulegt að sala orku til álvera verði óhagkvæm þrátt fyrir að hafa verið hagkvæm áður.

* * *

Slík staða felur í sér mörg tækifæri, bæði fyrir Ísland og álfyrirtækin. Það árar illa hjá álfyrirtækjunum í heiminum í dag og framleiðslugeta þeirra er of mikil. Óðinn ætlar ekki spá fyrir um horfur álmarkaða en bendir á að skuldabréf Alcoa eru í ruslflokki og verð hlutabréfa fyrirtækisins er einungis tveir þriðju af bókfærðu eiginfé þess og Alcan hefur upplýst að álverið í Straumsvík sé rekið með tapi. Fjárfestar telja að Alcoa þurfi að draga seglin saman og endurskipuleggja rekstur sinn. Það gefur Landsvirkjun tækifæri, í samvinnu við fjárfesta, á að kaupa orkusamninginn af Alcoa og selja orkuna um sæstreng. Þannig gæti Alcoa mögulega grætt á því að loka verksmiðju og Landsvirkjun farið að sinna arðbærari mörkuðum án þess að þurfa að virkja frekar. Það sama á við um hin tvö álfyrirtækin. Ef slíkir samningar takast hins vegar ekki og það þarf að að virkja frekar, þá fylgja því ýmsir kostir. Landsvirkjun þarf að dreifa áhættu sinni af álfyrirtækjunum, þegar skrifað var undir samninga við Alcoa var lánshæfismat fyrirtækisins A en í dag er það Ba sem er ruslflokkur. Ef litið er á orkusamning Landsvirkjunar sem skuldabréf, enda mótaðilaáhætta á skuldabréfi og orkusamningi sú sama, þá er ljóst að verðmæti orkusamnings Landsvirkjunar hefur lækkað umtalsvert frá því skrifað var undir hann. Landsvirkjun verður að minnka hversu háð hún er einni atvinnugrein, atvinnugrein í niðursveiflu.

* * *

Önnur jákvæð áhrif eru að þegar það kemur að því að semja aftur um orkuverð við álfyrirtækin þá er Ísland í miklu sterkari samningsstöðu ef það er þegar komin reynsla af og búið að opna orkumarkaði erlendis. Álfyrirtækin eru sjálf í sterkri samningsstöðu þar sem þeim býðst að framleiða gegn mjög lágu orkuverði t.d. í Mið-Austurlöndum þar sem álverin nýta staðbundið jarðgas sem óhagkvæmt er að flytja langar leiðir og vegna þess að löndin eru tilbúin að gefa álfyrirtækjunum miklar ívilnanir til að niðurgreiða „atvinnusköpun“ í löndunum. Þessi lönd eru því stödd á sama stað í þróuninni og Ísland var fyrir nokkrum áratugum. Það væri öllum til hagsbóta ef álverin flyttu orkufreka starfsemi sína þangað og nýttu staðbundna orku og orka frá Íslandi væri flutt í verðmætari notkun.

* * *

Hverjir vinna keppni? Ekki endilega þeir bestu heldur þeir sem taka þátt. Ísland hefur setið hjá í hagkerfi heimsins með höftum og áætlunarbúskap undanfarin fimm ár og árangurinn hefur verið eftir því. Til að lífskjör á Íslandi verði aftur sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum þarf íslenskt atvinnulíf að fara að starfa á sama markaði og þau.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu 19. september 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.

Stikkorð: Óðinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.