Ég tilheyrði þeim hópi flugfarþega sem gladdist yfir matnum um borð. Eggjahræran sem ég fékk í morgunflugi til útlanda fannst mér alltaf gott veganesti og fiskrétturinn á heimleiðinni hitti í mark. Nú er hins vegar langt síðan að heitir bakkar með álfilmum heyrðu sögunni til í Íslandsflugi. Þeim svöngu stendur nær eingöngu til boða einhverskonar brauðmeti en úrvalið er betra ef flogið er vestur.

Ég var orðinn samdauna þessu ástandi og búinn að gleyma gamla flugvélamatnum þar til að ég settist nýlega upp í vél Lufthansa þar sem mér var boðið upp á sinnepsfylltar kjötbollur. Um leið og ég tók fyrsta bitann og fann sætt sinnepið ná góðu taki á bragðlaukunum áttaði ég mig á því hversu sárt ég hafði saknað flugvélamatsins. Nokkru síðar ferðaðist ég með Air France og fann á ný fyrir þessari eftirsjá. Franska flugfreyjan færði mér bakka með heitum pastarétt, salati og ostum og spurði hvort ég vildi hvítt eða rautt með. Það var meira að segja valhorna súkkulaði með kaffinu. Við tóku góðar stundir þar sem ég og sessunautar mínir á almenna farrýminu steinþögðum og nutum veitinganna. Ég kom saddur heim úr ferðalaginu og borðaði ekki meira um kvöldið. Ef ég hefði setið um borð í íslenskri vél hefði ég þurft að láta mér nægja kalt brauð eða heitan skyndibita. Það sama er upp á teningnum hjá skandinavísku flugfélögunum á meðan þessi klassísku á meginlandinu halda í gömlu matarstefnuna. Þau berjast reyndar mörg hver í bökkum.

Ég er alveg til í að borga sérstaklega fyrir flugvélamatinn minn en má ég þá biðja um almennilega rétti en ekki eitthvað snarl. Flugið frá Íslandi til útlanda tekur alltaf nokkra klukkutíma og áður en við komumst um borð erum liðnir þrír tímar síðan við fórum að heiman. Farþegi sem ekki kaupir sér að borða í flugstöðinni er því orðinn ansi svangur þegar komið er í lofið. Ef flugfélögin fara ekki að huga að þessu þá er hætt við að einhver snjall veitingamaður í Leifsstöð sjái tækifæri í að selja þar bakka með heitum mat til að taka með sér í flugið. Þá hrapar salan í háloftunum á verksmiðjusmiðjubrauði með bragðlausu áleggi.